142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:09]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er kominn hingað upp til að fylgja eftir áliti 1. minni hluta í efnahags- og viðskiptanefnd um stjórnartillögu um skuldavanda heimila á Íslandi.

Ég tók þátt í allri kosningabaráttunni í vor af miklum móð í Norðausturkjördæmi, heimakjördæmi hæstv. forsætisráðherra, og þar bar ekkert annað á góma en hið stóra mál um hvernig leysa skyldi skuldavanda heimilanna. Við Steingrímur J. Sigfússon og fleiri börðumst mikið og kröftuglega í því að reyna að ræða þessi mál í kringum þær væntingar sem fyrst og fremst Framsóknarflokkurinn skapaði meðal kjósenda.

Eins og ég skil tilurð sumarþings sem við sitjum núna snerist það um þetta. Það snerist um að hrinda í framkvæmd aðgerðum í þágu heimilanna í landinu. Svoleiðis skildi ég tilgang sumarþingsins hér og nú. Þegar ég lít yfir salinn sýnist mér það ekki vera málið. Það er lítill áhugi á málinu, það er lítill áhugi á að fylgja því eftir, það er lítill áhugi á að ræða það, sérstaklega af hálfu Framsóknarflokksins sem er til dæmis ekki beint fjölmennur í salnum akkúrat núna. Hæstv. forsætisráðherra er þó hér og er að hlusta á okkur. Eins og ég segi var þetta stóra málið, og átti að vera.

Í áliti okkar 1. minni hluta sem við hv. þm. Guðmundur Steingrímsson undirritum fyrir hönd þingflokks Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar gerum við svo sem ekki athugasemdir við það að ríkisstjórnin stofni starfshópa og vinnuhópa um skuldavanda heimilanna. Tillagan sem liggur núna fyrir er í tíu liðum eins og þeir þekkja sem hafa lesið hana og ef maður rennir yfir liðina sést að þeir snúast einfaldlega um að skipa sérfræðingahóp, kanna, skipa verkefnisstjórn, setja á fót sérfræðingahóp, kanna og fá sérfræðingahóp til að meta. Þetta eru þá sjö atriði talin af tíu, hvernig þau snúa og hvað á að gera nákvæmlega þar.

Þá standa eftir þrjú atriði. Það sem gera skal er að afnema stimpilgjöld sem hefði verið hægur leikur að gera eins og aðrir hv. þingmenn hafa bent ítrekað á í framsögum sínum. Það á að veita Hagstofu völd til frekari upplýsingaöflunar og það á að lögfesta flýtimeðferð dómsmála. Sjö af tíu atriðum snúast um að kanna, skoða, rannsaka og setja á fót sérfræðingahópa.

Þetta eru ekki miklar aðgerðir. Þetta eru ekki miklir pakkar sem verið er að bjóða upp á og þetta er langt frá og fjarri því sem við stóðum í slag um í kosningabaráttunni þegar við vorum að ræða þessi mál, væntingar þar sem tölu var fleygt á borðið upp á 800 milljarða eins og hv. þm. Árni Páll Árnason vitnaði til hérna áðan.

Nú virðast menn ætla að skoða og rannsaka hvernig hægt er að bera sig að við skuldaniðurfellingu. Eins og hv. þm. Árni Páll Árnason benti á áðan er þetta fyrst og fremst rannsóknaráætlun, og það er vel. Eins og stendur í áliti okkar ætlar 1. minni hluti ekkert að standa í vegi fyrir því.

Við leggjum hins vegar einnig til nokkur varnaðarorð sem mig langar til að fara í á eftir, en það sem ég vil leggja áherslu á er að þegar talað var í aðdraganda kosninga voru búnar til miklar væntingar sem við sjáum núna birtast í frumvörpum á þessu sumarþingi sem, eins og ég sagði áðan, ég hefði haldið að snerust einungis um þetta. Hvernig birtist það? Jú, í frumvörpum sem snúa að veiðigjaldi, virðisauka í ferðaþjónustu og einhvers konar tæknilegum atriðum um stjórn fiskveiða. Það er eilítið komið til móts við kjaraskerðingu lífeyrisþega en annað er það ekki sem varðar hið stóra mál sem er skuldavandi heimilanna.

Framsóknarmenn hafa byggt upp gríðarlegar væntingar meðal þorra landsmanna um það hvað skuli gera og hvað verði og á meðan situr allt í frosti. Fjöldi fólks sem ég þekki til er meira að segja búinn að reikna sig niður á hvað það fær. Svo koma þeir upp núna með meirihlutaálit sitt í efnahags- og viðskiptanefnd og segja að til dæmis skuldaniðurfelling muni ekki leiða til verðbólguskots. Það er búið að búa til gríðarlegar væntingar um allt samfélagið um hversu mikið veðhæfi menn muni eignast með niðurfellingu skulda af höfuðstól. Það er það sem Íslendingar hafa sögulega gert, nýtt sér veðrými sitt til fulls til neyslu. Þannig er það hér.

Í umræðu áðan kom fram hjá hv. þingmönnum Framsóknarflokks þegar umræðan snerist um þessa tillögu, skuldavanda heimilanna: Við verðum að gera eitthvað í þessu. Ég spyr: Voru þá loforðin fullkomlega innantóm? Var allt sem sagt var í kosningabaráttunni um hvað skyldi gert — og það var aldeilis listað, þetta var 20% niðurfelling o.s.frv. — algjörlega innantómt? Framáfólk í Framsóknarflokki stígur í pontu og segir: Við verðum að gera eitthvað í þessu. Svo er nefnt — hvað? Breytt peningastefna. Ég hef ekki séð eitt einasta frumvarp á þessu sumarþingi sem snýr að því hvernig breyta skuli peningastefnunni en formaður efnahags- og viðskiptanefndar fór hins vegar mikinn í aðdraganda kosninga og talaði um hvernig þyrfti að breyta peningastefnunni hér í þessu landi. Við sjáum hins vegar hvergi stafkrók um útfærslu á því í frumvörpum eða tillögum fyrir þessu sumarþingi og ekkert bólar á því fyrir haustið. Af þessu hef ég auðvitað áhyggjur.

Þegar menn hafa byggt upp þær væntingar sem þeir gerðu í aðdraganda kosninga finnst mér liggja ábyrgð á þeirra herðum um væntingastjórnun í framhaldinu, þ.e. að stýra þeim væntingum í ákveðinn farveg. Menn hafa brugðist þeirri ábyrgð með öllu.

Að lokum vil ég minna á og undirstrika það álit 1. minni hluta að, eins og ég segi, við setjum okkur ekki upp á móti því að ríkisstjórnin stofni starfshópa til að vinna að sínum stefnumálum og kanni þá kosti og galla þeirra hugmynda sem þeir hafa. Hins vegar segi ég: Við í þingflokki Vinstri grænna munum ekki koma að einhvers konar breytingartillögum í þessu máli. Þetta er stjórnartillaga. Þetta er fyrsta birting hinna miklu loforða sem við bíðum þá öll eftir full eftirvæntingar. Á þessu stigi er ekkert annað að gera en vona að uppfylling þessara loforða og framfylgd þeirra reynist okkur öllum ekki of dýr.