142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kemst nú ekki hjá því að gera athugasemd við þessa allt of augljósu tilraun hv. þingmanna Samfylkingarinnar til þess að búa til heiti á ríkisstjórnina, kalla hana hægri stjórn. Þetta er svolítið dæmigert fyrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Við höfum séð þetta svo oft áður. Ætli þetta hafi ekki verið sent út á — hvað heitir það, virðulegur forseti, Rauða þræðinum, póstlista með póstum sem sendir eru á alla samfylkingarmenn til þess að segja þeim hvað þeir eigi að endurtaka í sífellu til þess að reyna að stimpla það inn í umræðunni. Hei, krakkar, köllum núna öll stjórnina hægri stjórn, (GuðbH: Margur heldur mig sig, margur heldur mig sig. …) það hlýtur að fara í taugarnar á framsóknarmönnum. Það er gaman að sjá hversu þetta fer fyrir brjóstið á hv. þm. Guðbjarti Hannessyni. Ég virðist hafa hitt þarna á veikan blett.

En að spurningunni: Er ábyrgt af lánastofnunum að lána verðtryggð lán? Ég tel almennt að verðtryggð lán séu ekki mjög ábyrgt lánaform. Eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir rakti áðan eru ýmsir gallar á því lánaformi sem fyrst og fremst skekkir stöðu neytanda gagnvart lánveitanda, felur raunverulegan kostnað við lánin og færir byrðarnar hlutfallslega af því að standa í skilum aftar á lánstímann. Almennt held ég því ekki að það sé ábyrgt lánaform. Það er auðvitað ekki heldur ábyrgt hversu háir vextir eru á Íslandi, en það leysum við ekki með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru eins og við höfum heldur betur séð á undanförnum missirum í Evrópu þar sem menn hafa komist að því að einn gjaldmiðill þýðir ekki eitt sameiginlegt vaxtastig. Lausnin felst í því að styrkja undirliggjandi stoðir efnahagslífsins. Og þá komum við aftur að því sem ég rakti í síðustu ræðu, mikilvægi þess að huga að fleiri þáttum en (Forseti hringir.) gera ekki ráð fyrir því að leysa málin með einni þingsályktunartillögu.