142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mikill flokkshestur og geng oftast í takt með mínum flokki þó að ég sé ekki alltaf sammála öllu sem flokksfélagar mínir segja. En ég hef samt svo skapandi hugsun að þetta var mín hugmynd í þessu samhengi, en það má vera að það sé einhver undirliggjandi innræting sem veldur þessu.

Mér finnst áhugavert að bæði hæstv. forsætisráðherra og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýsa hér yfir að þeir telja það óábyrgt að verið sé að veita verðtryggð lán á Íslandi, enda er það ekkert skrýtið í ljósi þeirra áforma sem uppi eru.

Ég vil, frú forseti, nota tækifærið, af því að hv. formaður viðskipta- og efnahagsnefndar er hér í salnum, til að hvetja hann til að halda fund í nefndinni, kalla þangað inn lánastofnanir og gera þeim grein fyrir þessari afstöðu flokksins sem stjórnar ferðinni í nýrri hægri stjórn.