142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:59]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en ítrekað það sem fram kom í ræðu minni og bent hefur verið á nokkrum sinnum við þessa umræðu, það hlýtur að vera eðlilegt að byrja á því að fara yfir málin og undirbúa frumvörp vel, ég tala nú ekki um þegar menn koma að stöðunni þannig að það liggur ekki einu sinni fyrir heimild til þess að afla nauðsynlegra upplýsinga, í fjögur ár er ekki einu sinni búið að klára það að fá heimild til þess að afla nauðsynlegra upplýsinga. Þegar menn eyða heilli kosningabaráttu í að skammast yfir því að menn skuli ætla að útfæra málin í samráði við aðra eftir kosningar og eyða síðan fyrstu mánuðunum eftir kosningar í að skammast yfir þveröfugu, því að menn skuli ekki búnir að klára málin, er afskaplega holur hljómur í því.

Svo ítreka ég það sem ég nefndi áðan um mikilvægi þess að læra af reynslunni, læra af mistökum síðustu ríkisstjórnar við lagasetningu til að tryggja að lög séu til þess fallin að ná yfirlýstum markmiðum þeirra, en ekki að valda meiri skaða en gagni, og að lög standist skoðun, standist fyrir dómstólum og gagnvart stjórnarskrá.