142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:02]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það skýtur skökku við að segja að ekki standi til að standa á nokkurn hátt í vegi fyrir framgangi þessara mála og hóta því um leið að eitt af þessum frumvörpum sem þessi þingsályktunartillaga snýst um komist kannski ekkert lengra, verði kannski bara stoppað. Þetta er eins og svo margt annað í þessari umræðu í dag afskaplega sérkennilegt (Gripið fram í.) og enn bregður hv. þm. Guðbjarti Hannessyni í brún. (GuðbH: Ég sit í nefndinni.)

Hv. þingmaður er afskaplega órólegur þessa dagana og hefur verið það frá því að kosningum lauk. Ég skal reyna að koma eitthvað til móts við hv. þingmann ef ég get það en ég skil hins vegar vel gremjuna.

Hvað varðar talið um að gefnar hafi verið ákveðnar væntingar er alveg rétt að gefnar voru væntingar. Það voru gefnar væntingar um nákvæmlega það sem lýst er í þeirri þingsályktunartillögu sem er til umfjöllunar hér í dag, þingsályktunartillögu þar sem lagður er grunnur að umfangsmestu aðgerðum í þágu heimila, ekki bara á Íslandi heldur um að minnsta kosti Evrópu og hugsanlega í heiminum öllum eftir að efnahagskrísan reið yfir, sú sem hófst árið 2007. Það er ekkert minna en það, það er verið að leggja grunn að aðgerðum á heimsmælikvarða. Þá hljóta menn að geta sammælst um að það þurfi að vinna þá vinnu almennilega og allt tal um að það sé hægur leikur að klára einhver ónefnd mál strax gerir ekki annað en að vekja upp spurningar um hvers vegna síðasta ríkisstjórn gat ekki klárað þau mál á fjórum árum sem er nú hægur leikur að klára á fyrstu dögum sumarþings.