142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ákvað að taka til máls í ræðu í staðinn fyrir að fara í andsvar, einfaldlega til þess að gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri á að koma hér aftur upp því að hann notaði fyrri ræðutíma sinn að fullu í að tala niður aðra stjórnmálaflokka og komst svo ekki yfir það sem hann vildi ræða í lokin. Hann fær þá tækifæri til að koma hér aftur og bæta úr því.

Hér talaði hæstv. forsætisráðherra sem er að eigin sögn einn mest misskildi maður íslensks samfélags. Ég held að við höfum ekki skilið eitt einasta orð rétt af því sem hann hefur sagt, en enginn talar um það annar en hann sjálfur. Jafnvel þó að við lesum upp textann beint upp eftir hæstv. forsætisráðherra telur hann ástæðu til að skrifa heilu greinarnar um að ekki bara stjórnarandstaðan heldur fjölmiðlar alls landsins séu að rangtúlka orð hans, tala niður það sem hann er að gera. Ég hef aldrei nokkurn tíma á þeim árum sem ég hef verið í pólitík, bæði í bæjarpólitík í 12 ár og síðan frá því 2007 á þingi, heyrt annað eins aumavæl hjá stjórnmálamanni sem er kominn í forustu í landspólitík.

Hvað hefðum við þá mátt segja sem höfum þurft að vera að moka flórinn eftir 18 ára stjórnartíð hægri flokkanna sem núna eru komnir aftur valda? Við sátum undir ámælum (Forsrh.: Er Samfylkingin þá hægri flokkur?) um að gera ekki nokkurn skapaðan hlut rétt á þeim tíma. Það hefur þó gerst hér í þessari umræðu, sem er afar merkilegt, að þegar hún hófst kom hér talsmaður efnahags- og viðskiptanefndar og flutti ræðu, hv. þm. Willum Þór Þórsson, og fór ærlega yfir það sem hér hefur verið gert vel áður og tók það sérstaklega fram. Mér finnst hann vera meiri maður af en hæstv. forsætisráðherra sem talar alltaf eins og hér hafi ekki nokkur einasti maður unnið eitt einasta verk af viti fyrr en hann kom. Er þá nokkur furða þótt hann tjái hæstv. forsætisráðherrum annarra landa að þeir tali ágætlega sitt eigið móðurmál? Slíkur er hrokinn í málflutningnum.

Þetta finnst mér vera miður. Gremja mín yfir úrslitum kosninganna stafar ekki af kosningatapi Samfylkingarinnar. Hún stafar af því sem við höfum séð núna á þessu sumarþingi. Af því stafar mín gremja og leiðindi. Og veiki bletturinn á mér, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það þegar ég kallaði fram í: Margur heldur mig sig, er þegar manni er brigslað um illar hvatir og gert einmitt það sem hann var sjálfur að kvarta undan, manni eru lögð orð í munn.

Hér kemur þingmaður úr allsherjar- og menntamálanefnd og talar um að við séum í vandræðum með Hagstofufrumvarpið og það sé hótun um að ætla ekki að fara með það í gegn. Ég sit í þessari nefnd, ég sat með lögfræðingi í morgun frá Persónuvernd sem segir að þetta stangist á við stjórnarskrá. (Gripið fram í.) Hver var í ræðu áðan að tala um að við ættum að fara vandlega yfir hlutina til þess að við værum ekki að ógna stjórnarskrá?

Við erum að vinna undir mikilli pressu, við fáum sum málin seint inn. Þingið hófst hér með því að hæstv. forseti Alþingis talaði um að mál þyrftu að koma inn snemma, þau þyrftu að fá vandaða umfjöllun. Við erum að hliðra til málum með því að taka frumvarpið um almannatryggingar með tveggja, þriggja, fjögurra daga umsagnarfresti — tveggja, þriggja daga. Það á að skila umsögnum um það frumvarp á mánudaginn. Við í stjórnarandstöðunni höfum ekki lagst á móti því að vinna hér kvöld og nætur til að reyna að koma þessum málum áfram. Og við höfum ekki setið hér fram eftir kvöldum og verið að hlusta á okkur tala, við erum að reyna að koma málum áfram.

Það skyldi þó aldrei vera að við megum ekki gera athugasemdir við það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni, þar sem í fyrsta skipti er farin sú leið að ríkisstjórn kemur og biður um leyfi að flytja mál. Þegar við ætlum svo að bæta málið, taka þátt í umræðu og koma með tillögur kemur hæstv. forsætisráðherra og segir að það sé bara verið að reyna að tala málið niður.

Mér finnst þetta vond byrjun hjá ríkisstjórn sem talar um anda sátta, að leiða þjóðina í einn hóp, þjappa honum saman, skipa stóra heild. Forsætisráðherrann er ekki góð fyrirmynd í því og ég hvet Framsóknarflokkinn að finna nýjan fulltrúa til að vera leiðtoga þjóðarinnar ef þetta á að vera aðferðin.

Við viljum vinna þetta vel. Við viljum vinna þetta með hæstv. forsætisráðherra og með þinginu. Og það kemur skýrt fram í þeim athugasemdum sem við höfum gert við þingsályktunartillöguna að við munum styðja hana, við ætlum ekki að standa í veginum fyrir því að málið verði þróað áfram. Allsherjar- og menntamálanefnd var samhljóma í áliti sínu og benti á ýmis atriði sem við verðum að ræða og halda til haga, ekki til að koma í staðinn fyrir þessa tillögu heldur til að fjalla um og leysa í framhaldinu. Þar voru nefndir leigjendur, þar voru nefndir Búmenn og lánsveðshópurinn var líka nefndur.

Það er hárrétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að lánsveðsniðurstaðan er býsna aum, og ég skora á hæstv. forsætisráðherra að gera betur. Þar höfum við átt í stríði við lífeyrissjóðina og það kann að vera að mönnum takist þar betur. Ekki skal standa á okkar liðsinni við að ná enn þá betri árangri.

Við töluðum áðan um að afla betri upplýsinga. Í morgun kom inn á netið skýrsla frá Hagstofunni sem við fengum líka afhenta í allsherjar- og menntamálanefnd í morgun, Hagtíðindi, þar sem farið er yfir skuldir, eignir og eiginfjárstöðu einstaklinga 1997–2011. Það er býsna fróðleg lesning. Hún fjallar ekki um að ekkert hafi gerst. Ég veit ekki hver hefur logið því að þeim þýsku leiðtogum sem forseti lýðveldisins og hæstv. utanríkisráðherra hafa verið að taka við skilaboðum frá og deila til okkar þjóðarinnar, frá forsætisráðherra Þýskalands, frá forseta Þýskalands, um að mikla athygli hafi vakið hvernig okkur tókst að endurreisa íslenskt samfélag. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra segi þá að það sé eingöngu út af Icesave. Skyldi það vera? Við tókum við þjóðarbúi sem var nánast á hausnum, við komum inn 2007 grandalaus, en síðan hrynur allt yfir okkur árið 2008. Og það er vitað að þar bjuggum við við lagaumhverfi sem hægri flokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, höfðu skapað okkur í samkeppninni um að vera með fjármálamiðstöð heimsins.

Ég ætla ekki að ásaka núverandi forsætisráðherra um það vegna þess að hann kom inn síðar, engin ástæða til þess. En það þýðir ekki að láta eins og ekkert hafi gerst og tala um að á fjórum árum hafi átt að vera búið að taka þetta allt saman til. Það er ekki búið að gera það í Evrópu, ekki í Bandaríkjunum, það er verið að taka við áföllunum úti um allan heim. Það kann að vera að atvinnuleysið í Evrópu eða í Bandaríkjunum sé fyrrverandi ríkisstjórn á Íslandi að kenna, það kæmi mér a.m.k. ekkert á óvart að sú fullyrðing kæmi hér fram miðað við það sem boðið hefur verið upp á.

Ég sagði að gremja mín væri ekki yfir úrslitunum en aumu blettirnir á mínum skrokki eru þegar hæstv. forsætisráðherra brigslar okkur um í fyrsta lagi að hafa ekki gert neitt og í öðru lagi að annarleg sjónarmið liggi á bak við allt sem við segjum. Ég held að ég verði, gagnstætt því sem hæstv. forsætisráðherra sagði við kollega sinn í Danmörku, að biðja hann um að tala betri íslensku þannig að við skiljum og vitum hvað hann á við svo að við séum ekki að misskilja og mistúlka allt það sem sagt er, því að það er ekki ætlunin. Það hefur ekki verið hugmyndin hjá mér.

Okkar hlutverk hefur verið að reyna að skilgreina betur um hvað verið er að biðja. Hvað ætlum við að fara að gera, hvað erum við að bjóða þjóðinni? Í hvaða hlutverki erum við? Á að fella niður verðtryggingu? Já eða nei? Getur forsætisráðherra svarað því?

Já, best væri að fella niður verðtryggingu ef það kemur í ljós að það stangast ekki á við stjórnarskrá og hugsanlega einhver lög að mati sérfræðinga sem eiga að skila í desember. Gott og vel. Er ég núna að leggja forsætisráðherra hæstv. orð í munn? Líklega er ég að því. (Gripið fram í.) Já, en þá vil ég bara fá svarið já eða nei frá hæstv. forsætisráðherra sjálfum, þannig að ég skilji það og þannig að fjölmiðlar skilji það án þess að rangtúlka það sem hann hefur sagt.

Ég sagði áðan að það er ekki sárt að tapa ef betra tekur við. Og við höfum sagt, af því að hér er hv. þm. Willum Þór Þórsson, að það er alltaf þannig að megi betra liðið vinna. Það er alveg ljóst að kosningabaráttan var unnin af liði sem fór afar vel í baráttuna og var með skýr skilaboð, að ég hélt. En þau eru alltaf að verða meira og meira óskýr. Forgangurinn sem ég hélt að yrði í þágu heildarinnar er alltaf að færast meira og meira yfir á þá betur settu.

Það er klárt að þeir sátu að mörgu leyti eftir í fyrstu aðgerðum hjá okkur og hæstv. félags- og húsnæðismála viðurkenndi og sagði ærlega, gagnstætt því sem hér kemur frá forsætisráðherra, að fyrrverandi ríkisstjórn mætti eiga það að hafa varið hagsmuni þeirra sem lægstu kjörin höfðu. Það mátti skilja þannig — og nú er ég aftur að leggja mönnum orð í munn — að það sé skýringin á því að engin ástæða sé til að gera betur við þann hóp heldur eigi að snúa sér að öðru.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég kem í ræðu. Ég vil fá skýrari svör þannig að ég sé ekki að búa til skýringar fyrir hæstv. forsætisráðherra. Þá biðst ég undan löngum ræðum um „spinn“, sem hann virðist hafa lært betur á sínum tíu árum í Bretlandi en ég á mínu eina ári. Ég hafði bara ekki hugmynd um þetta hugtak fyrr en hæstv. forsætisráðherra fór að nota það í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Þegar hæstv. forsætisráðherra talar um neyðarlögin sem sett voru á sínum tíma og að við hefðum hugsanlega getað farið aðrar leiðir, tek ég undir með honum að því leyti að ef við værum að gera þetta allt upp á nýtt mundum við örugglega gera margt öðruvísi. En eitt af því sem ég hef aldrei skilið og hef ítrekað spurt um úr ræðustóli tengist þeirri gömlu 20% leið, en þá var ekki komin til sú hugmynd með að nota þrotabúin til að fjármagna niðurfellingar: Hvernig áttum við að leysa 140 milljarðana í Íbúðalánasjóði? Því hef ég aldrei fengið svar við. Ég spurði að því á þeim tíma þegar tillögurnar komu fram, verandi þá formaður félags- og tryggingamálanefndar fyrst og síðan í fjárlaganefnd. Við gátum aldrei fengið svör við þessu. En það kann að vera að besta tækifærið til að gera þetta hefði kannski verið þá.

Mig langar aðeins að grípa niður í gögnunum frá Hagstofunni síðan í morgun og um leið að vekja athygli á þeirri greinargerð sem var gerð um fjárhagsstöðu heimilanna sem ég vænti að forsætisráðherra hafi á náttborðinu þannig að hann viti hvað var þó búið að gera. Hann talaði sjálfur um að 110%-leiðin hefði verið fyrir ríka fólkið og hún hefði náð til fárra. Hún náði þó til um 14 þús. manns, sem er tvöfalt meira en frumvarpið vegna ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega. Það er því hægt að skoða þetta frá ýmsum sjónarhólum.

Við erum oft að tala um heimilin, og heimili er auðvitað ekki bara hús eða skuldir heldur fjölskyldan sem slík, hvernig við búum að henni og öllum öðrum þáttum. Mig langar aðeins að taka upp úr gögnum samsetninguna á heimilunum sem kemur fram í tölfræðinni hjá Hagstofunni. Hún kemur mér svolítið á óvart. Þeir segja að heildarfjöldi skattframtala fyrir árið 2011 sé um 262 þús. og tilheyra þau rúmlega 196 þús. fjölskyldum. Um 10 þús. af þeim fjölskyldum hafi ekki skilað framtali og áætlað hafi verið á þær og þar af leiðandi komi þær ekki með í tölfræðinni. Heildarfjöldi í grunninn hjá Hagstofunni fyrir árið 2011 er því 185.890. Af þeim eru einhleypir 105.825, einstæðir foreldrar eru 15.677, hjón með börn 32.273 og hjón án barna 32.115.

Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra vakti líka athygli á sambúðarformum hér á landi, það var vitnað til þess hvernig það er í Danmörku, en þar eru skilgreind held ég 37 ólík form fyrir heimili. Ég hef stundum velt því fyrir mér þegar menn eru í þessari umræðu: Er verið að tala um allan þennan hóp eða er verið að tala um sérstaka hópa innan hans? Þá veltir maður einmitt vöngum yfir því sem kemur einmitt fram hjá Hagstofunni hverjir eru með skuldirnar. Þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Fjölskyldur sem tilheyrðu hæstu skuldatíundinni, þ.e. þær fjölskyldur sem skulduðu mest, skulduðu samanlagt 767 milljarða kr. eða tæp 41% af heildarskuldum.“

Þetta er fyrir árið 2011, samkvæmt skattframtölum.

„Þessar fjölskyldur voru einkum hjón með börn (57%) og hjón með engin börn á framfærslu (23%).“

Þarna var líka hæsta meðaltal skulda, einkum eftir árið 2008.

Allir hinir, hin 90% sem eru ekki með efstu eignatíundinni, eru með 59% af skuldunum og skulda 1,1 milljarð, rétt lítillega meira en 10%. Og við sjáum alveg í hvaða átt þær aðgerðir sem hér hafa verið boðaðar fara. Það er ekkert endilega rangt vegna þess að hæstv. forsætisráðherra segir: Við erum að leiðrétta eitthvað á ákveðnum forsendum, við erum að leiðrétta ákveðinn forsendubrest sem átti sér stað á vissum tíma fyrir allan þann hóp sem skuldaði.

Hæstv. forsætisráðherra gerir líka athugasemd við það, ég ætla ekki að gera veður út af því, en hann verður þá að taka þátt í því með okkur þingmönnum að telja upp hvað er þá eftir. Það var athyglisvert í þeirri skýrslu sem lögð var hér fram í apríl varðandi 110%-leiðina að þar kemur í ljós að hjá þeim sem sóttu um aðgerðir vegna þess að þeir voru yfirskuldsettir, hjá þeim sem voru skuldsettastir, er skuldabyrðin vegna húsnæðislána 90 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort hægt sé að fá leiguhúsnæði fyrir það verð á Reykjavíkursvæðinu.

Aftur á móti voru afborganir hjá þessu fólki af skuldum 180 þús. kr. Það voru öll önnur lán. Að vísu voru önnur fasteignalán um 30 þús. kr., það getur verið útborgunin í byrjun, það sem kemur í byrjun. Við skulum þá bæta því við og segja að afborgun vegna húsnæðis sé 120 þús. kr. Síðan koma bifreiðalán, kreditkortalán, sem voru allt að 25 þús. kr. á mánuði hjá þessum hópi, og aðrar skuldir sem voru 45 þús. kr. á mánuði.

Hvað með þennan hóp? Getur verið að ef við færum niður um 10–20% sitjum við eftir með allan þennan hóp áfram í vandræðum sem getur tapað húsinu sínu vegna annarra skulda? Við skuldum þeim það að fara í gegnum þá umræðu. Það er rétt að við getum gert það í þeim hópum sem hér eru lagðir til, en þá verðum við að tryggja að það verði rætt. Við viljum vita hvort á að gera það. Ég vona að það sé ekki frekja af okkar hálfu að óska eftir því. Við viljum fara þessa leið, við styðjum nýja ríkisstjórn í því að koma með þingsályktunartillögu þar sem sagt er hvað á að gera, hvernig á að vinna það, setja tímamörk og allt slíkt. En vonandi er það ekki hroki eða frekja af okkar hálfu að óska eftir því að tekið sé utan um það sem stendur út af.

Ég hef haft miklar áhyggjur af því fólki sem seldi eignirnar sínar, lagði þær inn. Ég get nefnt Eir-málið sem er dæmigert svoleiðis mál þar sem ekkert veð er á bak við, fólk er með miklar skuldir, lagði eignina sína inn, það á íbúðarrétt en er búið nánast að tapa eigninni ef menn ná ekki að halda henni á floti. Hvar kemur þessi hópur inn? Búmennirnir okkar, sem eru í svipaðri stöðu með gríðarlega mikla hækkun á leigu, lögðu líka inn eignir sínar, þeir standa utan við, þeir eru ekki í þessum hópi.

Ég er ekki að tala niður hina tillöguna, ég er bara að benda á að við verðum að ná utan um þetta í heildina. Við verðum að ná utan um námsmennina og lánsveðin, ábyrgðarmennina. Það er búið að gera heilmikið, gagnstætt því sem hér hefur verið sagt, bæði af bönkunum sjálfum og af stjórnvöldum, en það er augljóst að það var ekki nóg. Þess vegna viljum við halda áfram og við viljum styðja það. En ég ætla að vona að það sé ekki túlkað þannig að það sé gert til að eyðileggja tillöguna þegar við komum fram með upplýsingar um að við höfum lent í vandræðum með nýja frumvarpið um Hagstofuna, varðandi það að safna öllum upplýsingum. Meðal annars kom einföld athugasemd við það: Þetta felur í sér að ef viðkomandi einstaklingur skuldar — og þetta kann að vera útúrsnúningur en er haft eftir öðrum — hjá lögfræðingi, lækninum sínum eða sálfræðingi að megi kalla eftir öllum þeim upplýsingum til að fjalla um skuldavanda heimilanna.

Menn biðja okkur um að skýra þetta miklu betur og mér finnst það bara sjálfsagt og eðlilegt og að við reynum að takmarka upplýsingaöflunina við það sem við þurfum til að vita hver skuldastaða heimilanna er. Ég deili þeim áhyggjum hæstv. forsætisráðherra, og það er alveg hárrétt hjá honum, að við náðum ekki að fá þessar upplýsingar. Við fengum leyfi til að safna upplýsingum 2009 hjá Seðlabankanum. Hann vann mjög ítarlega rannsókn á stöðunni og birti hana með öllum gögnum, fékk leyfi til þess, en varð að henda þeim öllum vegna Persónuverndar. Hver var gallinn við þá skýrslu? Hann var sá að þeir sem tóku á móti henni, þ.e. þingið á þeim tíma og sérstaklega stjórnarandstaðan, sagði bara að ekkert væri að marka hana.

Nú vona ég enn á ný að ég leggi ekki forsætisráðherra orð í munn þegar ég segi að hann hafi sagt að hann treysti ekki Seðlabankanum. Hann er nýbúinn að koma með þá athugasemd. Við búum auðvitað við þetta umhverfi og hver á þá að vinna þetta ef við getum ekki treyst á þær stofnanir sem vinna fyrir okkur? Þær gefa samhljóða upplýsingar, upplýsingar frá Hagstofunni eru samhljóða þeim sem voru í greinargerð um fjárhagsstöðu heimilanna frá ráðuneytunum. Nú ætlum við að kalla eftir viðbótarupplýsingum og ég styð það, en það er kominn tími á aðgerðir.

Það er alveg rétt að fjögur árin dugðu okkur ekki og það er búið að henda okkur frá. Þá er það okkar að fylgja því eftir að áfram verði unnið í málinu og við heitum okkar stuðningi við það. En ég biðst undan því að sitja undir eilífum ásökunum um annarlegan tilgang í öllum okkar umræðum af því að við viljum ræða málin. Ég hefði viljað sjá fleiri framsóknarmenn og sjálfstæðismenn taka þátt í að bæta tillögu hæstv. forsætisráðherra.