142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú dálítið skrýtið að fara í andsvör til að rekja söguna eða hvaða tillögur komu fram. Ég get þó upplýst hæstv. forsætisráðherra um að það kom fram tillaga frá Framsóknarflokki sem hafði komið fram áður, um að færa öll lánin yfir í Íbúðalánasjóð. Sú tillaga var skoðuð. Hún var afgreidd og var litið á hana sem eignaupptöku, að útilokað væri að taka af bönkum því að þeir voru ekki orðnir þrotabú á þeim tíma og eru ekki enn þá … (Forsrh.: Það var gert í Bandaríkjunum.) Ja, ég er ekki að tala um það, ég var ekki á þinginu í Bandaríkjunum. En þetta var skoðað á þeim tíma og það var að vísu sennilega fyrir tíma hæstv. forsætisráðherra sem skoðað var að færa þetta yfir. Ákveðinn hluti af lánunum sem komu frá sparisjóðunum var þá færður yfir í Íbúðalánasjóð og menn hefðu þá náttúrlega getað fylgst með því hvernig þeim hefur reitt af í framhaldinu og metið út frá því hversu skynsamleg ákvörðun það var.

Það er auðvitað auðvelt að tala um hvernig hefði átt að gera hlutina. Ef við hefðum vitað hver þróunin yrði hefðum við hugsanlega gert ýmsa hluti öðruvísi, ég hef sagt það margoft. Ef ég væri með meistaragráðuna mína í hruni hefði ég kannski gert það allt öðruvísi. En það er röng túlkun að menn hafi ekki skoðað allar þessar tillögur. Við fórum meira að segja í umræðu um tillögu Framsóknarflokksins og lýstum yfir stuðningi við mjög marga þætti en við fórum líka yfir það að búið var að framkvæma u.þ.b. helming af þeim tillögum sem Framsóknarflokkurinn flutti á þeim tíma eða þá að þær voru í gangi á vegum þáverandi stjórnvalda. Við getum alveg eytt í að góðum tíma í betra tómi til að fara yfir það.

Menn eru alltaf að gera öðrum upp annarlegar hvatir hvað þetta varðar, að þeir vilji ekki taka tillögur frá stjórnarandstöðu. Í þessu tilfelli komum við til þings þar sem við erum búin að fara í gegnum mjög erfiða tíma. Talað er fyrir því að fara fram með sátt. Þá ætla ég að biðja hæstv. forsætisráðherra að hefja sig nú aðeins upp fyrir dægurþrasið, láta einhverja aðra fara í það, og tala svolítið til hópsins, vera nógu stór til þess að vera ekki að gagnrýna einstaka menn fyrir að koma með athugasemdir eða tillögur eins og verið sé að væna menn um eitthvert árangursleysi. (Forseti hringir.)

Verið er að vinna að málum til að koma þeim áfram og ef gera þarf einhverjar kvartanir við einstaka þingmenn held ég að það ættu aðrir að fara í það en hæstv. forsætisráðherra, hann er of stór til þess. (Forsrh.: Fyrrverandi ráðherrar eiga ekki að haga sér með þessum hætti.)