142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

neytendalán.

26. mál
[15:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um að fresta gildistöku á lögum um neytendalán. Það sem er áhugavert við þetta frumvarp er að erindi barst frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Það hefur líka komið fram hjá fleirum að það væri erfitt að fullnægja kröfum fyrir þann tíma sem gert er ráð fyrir í lögunum.

Síðan barst sú beiðni til innanríkisráðuneytisins sem hafði samband við nefndina og nefndin flytur þetta mál sameiginlega. Hún féllst ekki að öllu leyti á að hafa frestinn enn lengri. Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að bæði stjórn og stjórnarandstaða komu þarna að málinu. Það var rætt nokkuð vel hvað fresturinn þyrfti að vera mikill. Það er alltaf slæmt að fresta gildistöku laga. Þarna var farin ákveðin millileið, á milli þess að ganga að ýtrustu kröfum um frestun og síðan þess að fresta ekki neitt. Til dæmis er nefnt í greinargerð að allar reglugerðir skuli vera tilbúnar fyrir 1. september þannig að aðilarnir hafi tíma til að vinna málið.

Ég ætlaði bara að koma þessu að, að ég tel þetta ferli mjög æskilegt, þ.e. að nefndirnar komi að samningu frumvarpa þegar einhverju þarf að breyta, að jafnt stjórn og stjórnarandstaða komi að því ferli. Það sýnir sig líka að málið er vel kunnugt í nefndinni, þarf ekki mikla umræðu í þingsal og þar af leiðandi verður öll lagasetningin miklu liprari og meiri sátt um hana.