142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum.

[10:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Á kvenréttindadaginn 19. júní sl. var sérstök umræða hér í þinginu um kynbundinn launamun, sem því miður er einn af okkar viðvarandi veikleikum í jafnréttismálum. Allir stjórnarflokkar hafa lýst áhyggjum sínum af því og hvatt til þess að við gerum átak í því að leysa þetta mál, meðal annars hæstv. forsætisráðherra í umræðu og líka í aðdraganda kosninga ef ég man rétt.

Auk samstarfshóps og viljayfirlýsingar, sem ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir í október sl., var gripið til margháttaðra aðgerða og er sú vinna enn í gangi. Hinn 21. janúar sl. var sett í gang jafnréttisátak á heilbrigðisstofnunum. Þar var í tengslum við gerð stofnanasamninga ákveðið að láta svokallaðar kvennastéttir á heilbrigðisstofnunum hafa forgang í byrjun. Fyrir lá að laun þessara stétta hefðu dregist aftur úr miðað við sambærilega hópa hjá ríkinu.

Í framhaldinu samþykkti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að opinberar heilbrigðisstofnanir fengju hækkun á launalið fjárlaga 2013 sem næmu 4,8% á launagreiðslur áðurnefndra kvennastétta frá 1. mars sl. Sú ráðstöfun var tilkynnt formlega til viðkomandi stofnana með ákveðinni fjárhæð á hverja stofnun. Í framhaldi af því hafa margar heilbrigðisstofnanir gert stofnanasamninga við einstakar stéttir en vinnan hefur verið í fullum gangi liðnar vikur.

Í sérstöku umræðunni 19. júní sl. kom fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um jafnlaunaátakið, með leyfi forseta:

„… en við styðjum viðleitnina og munum finna okkar leiðir til þess að hrinda þessum áformum í framkvæmd.“

Þetta hefur leitt til þess að blöðin hafa birt fyrirsagnir þar sem sagt er að ekki sé fjármagn til þessa verkefnis og fleira í þeim dúr. Í fréttum RÚV 20. júní sl. segir meðal annars frá tilkynningu frá framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins undir fyrirsögninni: „Treysta Bjarna til að hækka laun kvenna.“

Með leyfi forseta stendur þar orðrétt:

„Málið var til umræðu á Alþingi í gær og greindi fjármálaráðherra þá frá því að ekki væru til fjármunir til þessa verkefnis en á sama tíma er verið að skerða tekjustofna ríkisins með lækkuðum álögum á einstakar atvinnugreinar. Þetta eru kaldar kveðjur til kvenna á sjálfan kvenréttindadaginn.“

Sjá má á ýmsum öðrum ábendingum og athugasemdum að óskýr yfirlýsing hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vekur óvissu á heilbrigðisstofnunum og hjá þessum starfsstéttum sem margar hverjar eru í miðjum samningaviðræðum um stofnanasamning.

Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er það ekki öruggt að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra muni standa við samþykktir fyrri ríkisstjórnar um jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum og ljúka þessum fyrsta áfanga um leiðréttingu á kynbundnum launamun?

Í öðru lagi spyr ég: Er ekki öruggt að ríkisstjórnin standi við ákvörðun fyrrverandi ríkisstjórnar um tiltekið fjármagn til heilbrigðisstofnana til að stíga þessi fyrstu skref í gegnum stofnanasamninga?