142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum.

[10:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka jákvæðar undirtektir hvað þetta varðar og þó að órói hafi skapast af ýmsum ástæðum þá er einmitt þeim mun frekar mikilvægt að róa landið og vera með skýrar yfirlýsingar. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra að miklu máli skiptir að kjarabætur og lausnir á þeim vanda verði til langs tíma.

En það sem kannski skiptir mestu máli í dag er að þegar ákveðið var að setja ákveðið fjármagn inn á hverja heilbrigðisstofnun skiptir miklu máli að það fari inn í greiðsluáætlun viðkomandi stofnunar þannig að hún lendi ekki í skuldastöðu innan ársins. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það hafi ekki verið tryggt að þeir fjármunir sem þar voru ákveðnir sem fyrsta skref — við þekkjum það hugtak ágætlega eftir umræðuna í gær — því verði fylgt eftir og fjármagnið fari til stofnunarinnar þannig að stofnanir lendi ekki vandræðum með rekstrarfé innan ársins. Síðan er það sameiginlegt verkefni að taka á í kjarasamningum um næstu skref.