142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

ríkisfjármál.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er eins og svo oft þegar hv. þingmaður tekur til máls að staðreyndum er snúið á hvolf. Staðreynd málsins er sú að staðan sem ríkisstjórnin tekur við er halli en ekki jöfnuður eins og haldið hefur verið fram svo óskaplega lengi. Nú kynnir ríkisstjórnin til sögunnar 1,5% almenna aðhaldskröfu við undirbúning fjárlagagerðar en fyrri ríkisstjórn var á árinu 2009 með 4–7% aðhaldskröfu, á árinu 2010 5–10% aðhaldskröfu, 5–9% árið 2011, 1,5–3% 2012 og síðan 0–1,8% árið 2013. Var það flatur niðurskurður í huga hv. þingmanns eða a.m.k. 4–7% árið 2009 samkvæmt þessari sömu hugmyndafræði?

Þessi nálgun gengur einfaldlega ekki upp og hv. þingmaður veit það ósköp vel, miklu betur en hann lætur vera í ræðustól. Krafan er um að áfram verði gætt aðhalds og reynt verði að ná fram aukinni hagræðingu. Já, u.þ.b. 6 milljarðar í heildina. Útfærslan verður ekki flöt heldur á forræði einstakra ráðherra til að jafna henni niður eftir málaflokkum eins og þykir best henta stefnumörkun stjórnarinnar og faglegri útfærslu í hverju ráðuneyti fyrir sig.

Hvernig er svo hægt að mæta afganginum? Það er rétt hjá hv. þingmanni að til viðbótar við þessa almennu aðhaldskröfu mundi þurfa að grípa til sértækra aðgerða eins og fyrri ríkisstjórn gerði en hún náði samt ekki að loka hallanum. Verði það ekki gert — já, það eru engin ný vísindi, þá verður halli á ríkissjóði verði ekki gripið til mjög umsvifamikilla sértækra aðgerða til viðbótar við almennu aðhaldskröfuna. Það er staðan sem ríkisstjórnin tekur við.