142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

nýjar reglur LÍN um námsframvindu.

[11:01]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svörin. Ég endurtek samt sem áður spurningu mína til hans:

Hvernig ætlar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að bregðast við athugasemdum umboðsmanns þar sem segir að úthlutunarreglur skuli koma fram með skýrum og glöggum hætti og nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir aðilar sem málið snerti hafi ráðrúm til að gera viðeigandi ráðstafanir?

Mér fannst ég ekki fá þetta nógu skýrt fram í svari hæstv. ráðherra og bendi í því sambandi á að í frumvarpi fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur um LÍN var brugðist við þessum athugasemdum umboðsmanns þar sem segir að úthlutunarreglur skuli lagðar fram til kynningar eigi síðar en 1. febrúar ár hvert og staðfestar af ráðherra. Ég geri mér grein fyrir að þetta hefur verið skammur tími, en ég vil samt sem áður fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hann ætlar að bregðast við þessum tilmælum umboðsmanns Alþingis.