142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

lengd þingfundar.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við fundum nú í lok júnímánaðar. Fyrir þinginu liggja örfá mál. Það hefur gengið ágætlega að ýta þeim áfram í nefndum og ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að það er ekki von á fleiri málum, a.m.k. ekki án þess að um það verði þá fullt samráð við aðra flokka í þinginu. Síðast í gær ræddum við um hvernig við gætum lokað þinginu. Þar voru á dagskrá öll þau mál sem við viljum afgreiða. Sá fundur gekk ágætlega og við hittumst síðan aftur eftir 50 mínútur.

Í millitíðinni er ekki nema eðlilegt að menn taki allan daginn í dag. Mér finnst að menn eigi að gera ráð fyrir fundi á morgun vegna þess að ella þýðir þetta ekkert annað en það að við verðum lengur inn í júlí. Ef menn eru að kalla eftir því að við tökum frekar frá dagana í lok næstu viku og byrjun þarnæstu en að vera lengur í dag finnst mér að menn eigi að segja það hreint út. Mér finnst miklu betra að við notum dagana sem við erum í þinginu til að ljúka málum og svo erum við (Forseti hringir.) öll af vilja gerð til að ná samkomulagi um heildarniðurstöðuna. Ég er reyndar mjög vongóður um að við gerum það á eftir.