142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að óska ríkisstjórninni velfarnaðar í málinu og þess að henni gangi vel að taka á skuldastöðu heimilanna. Björt framtíð mun ekki standa í vegi fyrir því að þessi aðgerðaáætlun nái fram að ganga og mun styðja hana og þær breytingartillögur sem eru málinu til bóta en hafna þeim sem eru meira til sýnis.

Staða heimilanna er ekki bara skuldastaða. Hún snýr einnig að kjörum barna, möguleikum foreldra til að annast þau og það helst í hendur við lífskjörin í landinu. Þess vegna mega aðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki bara taka á einkennum sem hljótast af litlu og sveiflukenndu hagkerfi. Það gagnast lítið að afnema verðtryggingu þegar verðbólgan er vandinn. Ríkisstjórnin þarf aðgerðaáætlun um það hvernig hún ætlar með heildrænum hætti að taka á stöðu heimilanna með lánakjör til framtíðar í huga, með samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs til framtíðar, með vöruverð og viðskiptafrelsi til framtíðar, með afnámi tolla og viðskiptahindrana.

Við samþykkjum þessa aðgerðaáætlun og biðjum og auglýsum eftir framtíðarsýn hæstv. ríkisstjórnar til að takast á við og bæta stöðu heimilanna í landinu til framtíðar.