142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Forseti. Stjórnarflokkarnir gáfu út miklar væntingar til kjósenda í liðinni kosningabaráttu. Sérstaklega gekk Framsóknarflokkurinn langt í því að tala um leiðréttingu skulda heimilanna og á bloggsíðu sinni á kjördag lét hæstv. forsætisráðherra í veðri vaka, reyndar með tilvitnun í annan mann, að um 800 milljarða svigrúm kynni að skapast til að hjálpa íslenskum heimilum.

Allt kjörtímabilið síðasta talaði Framsóknarflokkurinn um 20% niðurfærslu lána rétt eins og bara þyrfti að sveifla hendi til þess að þær gætu farið fram. Við teljum eðlilegt, til að eyða óvissu þeirra heimila sem nú bíða í ofvæni eftir því hvað sé í pakkanum frá hæstv. ríkisstjórn, að fram komi 20% niðurfærsla og að við fáum þá staðfest hvort Framsóknarflokkurinn meini eitthvað með kosningaloforðum sínum eða hvort það hafi verið innantóm orð.