142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Það var strax eftir bankahrunið sem fyrst komu fram hugmyndir um 20% leiðina svokölluðu, þegar áhrif hrunsins á alla lántakendur með verðtryggð húsnæðislán eða fasteignalán voru jafnmikil. Þess vegna var eðlilegt að tala um 1%. Síðan þá hefur auðvitað ýmislegt breyst, t.d. hafa fjölmargir tekið ný lán í millitíðinni, jafnvel tekið lán í fyrsta skipti og varla er eðlilegt að lán sem tekið var í síðasta mánuði sé leiðrétt jafnmikið og lán sem tekið var árið 2005. Það geta sem sagt verið lán þar sem eðlileg leiðrétting, forsendubresturinn er yfir 20% á meðan önnur lán ber að leiðrétta um minna en 20%, eftir því, ekki hvað síst, hversu mikil áhrifin af þessum margumrædda forsendubresti voru. Þess vegna er mjög óæskilegt að hámarka þetta við 20% áður en vinna við útreikning á áhrifum á hvert og eitt lán hefur farið fram. Því leggst ég gegn þessari tillögu.