142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef orðið var við aukinn áhuga hv. þingmanna Samfylkingarinnar á að vinna með öðrum að afnámi verðtryggingarinnar og fagna því mjög og þakka raunar þá viðleitni sem sýnd er með þessari breytingartillögu. Hún takmarkar hins vegar um of verkefni starfshóps um afnám verðtryggingar vegna þess að það er ekki aðeins hlutverk hópsins að undirbúa tiltekið frumvarp, það mun væntanlega þurfa að undirbúa frumvörp, en það er bara eitt af því sem hann mun þurfa að gera. Hlutverk hópsins er ekki hvað síst að búa okkur undir þær breytingar sem menn munu þurfa að ráðast í til að laga sig að þessu óverðtryggða umhverfi, þ.e. það þarf að laga hagkerfið allt að óverðtryggðu umhverfi og ekki hvað síst að nýta þau nýju tækifæri sem skapast með afnámi verðtryggingarinnar. Starfssvið þessa hóps er mjög vítt og því er óheppilegt að takmarka það við það að semja eitt frumvarp. Því leggst ég gegn þessari tillögu.