142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Alveg frá því 2009 þegar við byrjuðum að takast á við þetta verkefni sem er hinn erfiði skuldavandi heimilanna hefur þáverandi ríkisstjórn leitast við að tryggja víðtæka samstöðu um lausnir í skuldamálum heimilanna. Við settum á fót með þverpólitískri samstöðu í kjölfar lagasetningar í nóvember 2009 starfshóp allra flokka sem vann vel og dyggilega. Við höfðum þverpólitíska samstöðu um öll helstu skref sem voru tekin í þessum málaflokki.

Það er sannarlega gríðarleg stefnubreyting sem felst í þeirri atkvæðagreiðslu sem er að birtast hér, að ríkisstjórnin hafni þverpólitískri samvinnu og aðkomu okkar allra að þessu verkefni. Þetta verkefni er þar með að verða einkaverkefni Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem þeir kjósa að bera einir ábyrgð á. Það hefur auðvitað afleiðingar á ákvarðanir okkar hinna um það hvort við getum hugsað okkur að styðja þessa tillögu í heild eða ekki.