142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég efast ekki um að þessi tillaga er lögð fram af góðum hug. Því er full ástæða til að þakka fyrir hana og stutta umræðu um hana. Í tillögunni felst þó nokkur misskilningur á hlutverki umræddra starfshópa. Þetta eru sérfræðihópar sem munu ráðast í tæknilega úrvinnslu þeirra lausna sem eru boðaðar í þingsályktunartillögunni. Með öðrum orðum er þetta ekki vettvangur til þess að velta því fyrir sér hvort fara eigi í einhverjar allt aðrar aðgerðir. Þetta er fyrst og fremst vettvangur fyrir sérfræðinga til þess að útfæra hlutina tæknilega. Ég efast um að það væri til gagns fyrir slíka hópa að vera með sex stjórnmálamenn með sér á hverjum fundi að skipta sér af þeirri vinnu.

Hins vegar munum við hér í þinginu, fulltrúar allra flokka, að sjálfsögðu fara yfir afrakstur þessarar vinnu jafnóðum og hann skilar sér. Þá gefst tækifæri til þess að laga það að hugmyndum eða verða við ábendingum um nauðsynlegar breytingar og úrbætur.