142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hryggir mig mjög að hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að fella tillögu um að staðið verði við samkomulag sem fráfarandi ríkisstjórn gerði við Landssamtök lífeyrissjóða um að koma til móts við svokallaðan lánsveðshóp sem hefur verið í mjög miklum vanda og í mjög mikilli óvissu með lánamál sín allt frá hruni. Þetta eru þeir hópar sem hafa ekki getað nýtt sér þau skuldaúrræði sem aðrir hafa getað nýtt sér. Samkomulagið felur í sér að þeir munu sitja við sama borð og aðrir. Það ætlar þessi ríkisstjórn að fella vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn gerði þetta samkomulag.

Virðulegi forseti. Fráfarandi ríkisstjórn gerði samkomulagið af góðum hug, vann að því allt kjörtímabilið gegn mjög erfiðum viðsemjanda sem voru Landssamtök lífeyrissjóða, sem höfðu stjórnarskrána, sem höfðu Fjármálaeftirlitið með sér sér til varnar. Að lokum náðum við þessari niðurstöðu. Ég tel ekki að hægt sé að ná betri niðurstöðu um þetta. Núna er ríkisstjórnin að senda þeim hópum þessi skilaboð: Þið skuluð halda áfram að vera í óvissu, þið fáið ekki að sitja við sama borð og aðrir lántakendur. Þetta er til skammar, virðulegi forseti. Ég vona að það sé ekki til eftirbreytni og ekki vísbending (Forseti hringir.) um það hvernig þessi ríkisstjórn ætlar að (Forseti hringir.) afgreiða skuldamál heimilanna.