142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:31]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er enginn ágreiningur um það markmið að koma til móts við lánsveðshópinn og gera það almennilega. Það var reyndar töluvert mikið ýtt á það alllengi á síðasta kjörtímabili. Hins vegar er sá samningur sem ríkisstjórnin gerði drög að gagnvart lífeyrissjóðunum ekki ásættanlegur, að lífeyrissjóðirnir skulu ekki bera nema 12% kostnaðarins meðan ríkið á að taka á sig hátt í 90% kostnaðar.

Hins vegar er alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn mun fylgja því eftir að koma til móts við lánsveðshópinn. Það þarf því ekki að skapast óvissa þar. Það setur þó núverandi ríkisstjórn auðvitað í nokkuð erfiða stöðu hvað þetta mál varðar að svona langt skuli hafa verið gengið í samningum við lífeyrissjóðina, mikið gefið eftir gagnvart þeim hvað kostnaðinn varðar, en þó teljum við rétt að athuga hvort lífeyrissjóðirnir vilji ekki taka þátt í að fjármagna þetta með eðlilegri hætti, leggja meira af mörkum.