142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum komin í 3. umr. um þetta vonda mál, fyrsta mál hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á kjörtímabilinu. Það kom fram margvísleg gagnrýni við 2. umr. og ég svo sem þakka þá viðleitni nefndarmanna í meiri hlutanum að reyna að bregðast við því með einhverjum hætti. Ég fagna því sérstaklega að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins eigi áfram að tilnefna einn mann og annan til vara á löglega boðuðum fundi og hafi málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta finnst mér mjög til bóta enda var rík áhersla lögð á það að auka aðkomu starfsfólks að ákvarðanatöku og upplýsingar þar um. Þetta er í anda þess sem við viljum hafa í okkar samfélagi, að starfsfólk hafi aðgengi að þeim stöðum þar sem ákvarðanir eru teknar.

Það að fjölga stjórnarmönnum í níu í stað sjö breytir nákvæmlega engu. Jú, það fjölgar þeim sem sitja við stjórnarborðið, ég er alveg sammála því að það eykur fjölbreytni í stjórninni, en samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögunni verða þetta áfram fulltrúar valdir af þingflokkunum. Fulltrúar þingflokkanna eiga að móta dagskrárstefnu. Meiri hlutinn verður óbreytt skipaður fulltrúum meiri hluta á Alþingi. Það skipti engu máli þó að við gerðum þessa breytingu og tækjum 63 inn í stjórnina. Við gætum jafnvel ákveðið að það yrðu þingmenn. Það er ekkert smálýðræðislegt, við þyrftum ekkert að vera með einhverja fulltrúa okkar, og þá gætum við 63 með fjölbreyttum hætti komið að því að móta dagskrárstefnuna. Það er jafn fáránlegt þannig að þrátt fyrir góða viðleitni bætir þetta því miður ekki ásjónuna á þessu frumvarpi.

Ásjónan á þessu frumvarpi er gríðarlega alvarleg. Mér finnst líka með svo miklum ólíkindum að ný ríkisstjórn sé með ívilnandi aðgerðir fyrir útgerðarmenn á sama tíma og hún svíkur heimilin með loðnum tillögum þar sem öllu er vísað á framtíðina. Í máli forsætisráðherra kom fram að þegar sérfræðingahóparnir eru búnir með sitt starf megum við stjórnmálamennirnir koma að og velta vöngum. Það er verið að velta þessu fram á næstu missiri. Það er ekkert í vændum fyrir íslensk heimili en það er verið að ívilna útgerðinni á gríðarlega ósvífinn hátt og það er verið að herða tökin á fjölmiðlum.

Hæstv. forsætisráðherra skrifaði grein þar sem hann sendir fjölmiðlum tón um að þar skuli efnistök verða hæstv. ríkisstjórn þóknanleg. Á sama tíma og hann lætur þau forkastanlegu orð falla liggur fyrir þinginu frumvarp um að þingflokkarnir ætli að móta dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins.

Ég ætla að segja að mér finnst þetta lykta af ótta ríkisstjórnarinnar við lýðræðið, ótta ríkisstjórnarinnar við að það séu ekki endilega sjónarmið henni þóknanleg sem stjórni ferðinni hjá Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið er ein af meginstofnunum til þess að stuðla að virku lýðræði á Íslandi og fjölmiðlar hafa ekki það hlutverk að þóknast stjórnmálamönnum. Fjölmiðlar eru fjórða valdið sem hefur eftirlit með okkur hinum sem förum með völd á Íslandi. Þeir eru til þess að setja gjörðir okkar undir mælikerið, varpa gagnrýnu ljósi á það sem við erum að gera og kanna hvort við förum lýðræðislega með vald okkar og með almannahagsmuni að leiðarljósi. Það er hlutverk fjölmiðla en þessi nýja ríkisstjórn sem skirrist ekki við að vaða fram með sérhagsmunina að leiðarljósi ætlar að herða tökin á Ríkisútvarpinu.

Framsóknarflokkurinn, sem studdi frumvarp hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur þegar hún var ráðherra, hefur ekkert fjallað um þetta mál hér í þinginu og vill ekki kannast við að vera þátttakandi í því með Sjálfstæðisflokknum að herða pólitískt vald yfir meginfjölmiðli Íslands. Ég held að það ágæta fólk sem ekki kann við sig í þessari hægri stjórn ætti að fara að íhuga á hvaða leið meiri hlutinn er með íslenskt samfélag. Hér er ekki verið að vinna í þágu almennings. Það er verið að vinna í þágu sérhagsmuna og pólitísku elítunnar sem vill ákveða hvað er ásættanleg umræða á Íslandi.

Framsóknarflokkurinn ætti líka að huga að kosningaloforðum sínum til handa fólki sem treystir á framfærslu sína í gegnum almannatryggingar. Þar er forgangsröðunin líka skýr. Þó að ég fagni því að hluti hópsins fái kjarabætur er valinn út sá hópur sem hefur hvað mest. Ekki er ég að öfundast út í það eða gera lítið úr því en það er skýrt að ekki er á neinn hátt komið til móts við þá sem búa við fátæktarmörk. Mér finnst vera að teikna sig upp mynd sem gefur mjög einkennilega framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag. Á síðustu fjórum árum voru mikil umbrot í íslensku samfélagi, þetta voru hagsmunaátök. Í fyrsta skipti í sögunni var vinstri stjórn og hún umbunaði ekki sérhagsmunahópunum.

Sú stjórn vann í þágu almannahagsmuna og ég er óhrædd við að segja að það er ekki allt hafið yfir gagnrýni sem sú ríkisstjórn gerði. Það hefði alveg mátt beita einhverjum öðrum aðferðum í einhverjum málum. Mjög margt var undir á þessu kjörtímabili. Við tókum við samfélagi þar sem ríkissjóður var nærri gjaldþrota, íslenski gjaldmiðillinn hruninn, íslensk heimili gríðarlega skuldsett — og það var ekki tilviljun. Það hafði líka verið pólitísk stefna að íslensk heimili skuldsettu sig og þau höfðu enga vörn í þeirri atburðarás. Fyrirtækin voru skuldsett, ríkissjóður var skuldsettur. Hér var atvinnuleysi og hér þurfti að rétta hag ríkisins en á sama tíma í öllum darraðardansinum tókst okkur að auka jöfnuð á Íslandi. Okkur tókst að standa vörð um þá sem hvað minnst höfðu. Tugir þúsunda hafa búið hér við bágan fjárhag og bjuggu raunar margir við bágan fjárhag fyrir hrun þegar hér var mesta góðæristímabil Íslandssögunnar. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gátu nefnilega ekki heldur þá mætt þessum hópum.

Verkefni síðustu ríkisstjórnar var að reisa Ísland við, vinna í þágu almennings og vinna gegn ójöfnuði sem hér hafði skapast með ótrúlegu hraði. Ójöfnuður er mein í samfélögum, ójöfnuður veldur heilsubresti og dregur úr félagslegri samheldni. Ójöfnuður dregur úr velsæld og þeir sem lenda neðst í skalanum, sem hafa minnst að bíta, búa við það að upplifa sig ekki sem fullgilda þegna í okkar annars litla og nána samfélagi. Þeir búa við niðurlæginguna sem fylgir fátækt, sem fylgir því að teljast ekki eiga rétt á samfélagslegum gæðum eins og aðrir í samfélaginu. Við erum að stefna frá umbótum á þessu núna með mjög markvissum skrefum ríkisstjórnarinnar. Ég tek þetta mjög nærri mér, ég vil ekki búa í landi þar sem þeir ríkustu, menntuðustu og af bestu ættunum fá að stjórna og hafa hlutina eins og þeir vilja. Ég vil ekki búa í þannig samfélagi.

Meiri hlutinn á Alþingi vill snúa í átt til þess ef litið er til þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir. Frumvarpið um Ríkisútvarpið er einn liður í því. Þetta er ekki saklaus breyting. Áður en lögin voru sett í vor, fyrir þann tíma, tilnefndu þingflokkarnir fólk inn í stjórn RÚV. Það er rétt, þetta hefur verið gert áður, en sú stjórn hafði eingöngu rekstrarlegt hlutverk fyrir Ríkisútvarpið sem opinbert hlutafélag. Með lögunum frá því í vor fékk stjórnin allt annað hlutverk og eitt af meginhlutverkum hennar er að móta dagskrárstefnu með útvarpsstjóra. Þess vegna var mikil vinna lögð í að finna fyrirkomulag á stjórnina sem væri sem faglegast og lýðræðislegast til þess að tryggja að þar yrðu ekki annarleg sjónarmið látin ráða för heldur sjónarmið sem væru til þess fallin að Ríkisútvarpið auðgaði íslenskt samfélag og ýtti undir lýðræðislega umræðu í íslensku samfélagi.

Sú breyting sem hér er gerð breytir ekki því hlutverki stjórnarinnar að vinna að dagskrárstefnu. Í stað þess að vera með faglegan hóp sem er valinn af mismunandi aðilum, þar sem stjórnin er valin þannig að jafnframt sé verið að velja samstilltan hóp sem geti unnið vel saman að markmiðum stjórnarinnar, eru fulltrúar þingflokkanna settir í þetta verkefni. Það er verið að gera Ríkisútvarpið að pólitískri stofnun og ef ég væri starfsmaður á Ríkisútvarpinu, búin að fá skilaboð frá hæstv. forsætisráðherra um að honum þóknaðist ekki fréttaflutningur minn eða teldi mig vera að vinna með annarleg sjónarmið að leiðarljósi og væri síðan að breyta lögunum þannig að pólitískir fulltrúar hans ættu að fara að hafa áhrif á dagskrána liði mér ekki vel. Þá fyndist mér að það væri verið að ógna hlutverki mínu sem fréttamanns að búa til hlutlausar fréttir sem vörpuðu gagnrýnu og upplýsandi ljósi á atburðina.

Við höfum mikið rætt hér í gegnum tíðina um eignarhald á fjölmiðlum og áhrif á dagskrárstefnu og þetta er akkúrat mál af þeim meiði. Fréttamenn viðurkenna margir að þeir búa við þann veruleika að þeim finnst þeir alltaf vera að ritskoða sjálfa sig. Það er ekki Alþingis að ýta undir það að fréttamönnum finnist þeir heftir af pólitískum öflum í því að rækja hlutverk sitt.