142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að bjóða upp á þennan möguleika. Í 2. umr. er við ræddum þetta frumvarp í bak og fyrir, mestmegnis bak, viðurkenndi Vilhjálmur Árnason að það kæmi sennilega ekki að sök að starfsmenn Ríkisútvarpsins hefðu einhvern áheyrnarfulltrúa þarna. Í kjölfarið tók hæstv. menntamálaráðherra undir það og í kjölfarið af því var málinu vísað aftur í nefnd að beiðni þess sem hér stendur og þá kom fram þessi ágæta breytingartillaga sem inniheldur efnislega nákvæmlega það sama og lögin sem þegar eru í gildi.

Þetta er til bóta, en í vondu frumvarpi auðvitað því að frumvarpið eykur ekki lýðræði, hvorki með né án þessarar breytingartillögu, nema þá kannski að þeim hluta sem það eykur gegnsæi. Lýðræðislegar betrumbætur á starfsháttum Ríkisútvarpsins væru í þá átt að fjarlægja þingmenn frá stjórninni frekar en að koma þeim að. Þetta þykir mér svo augljóst, og í raun og veru undarlegt að maður þurfi að standa í pontu og endurtaka þetta aftur og aftur.

En í sambandi við það þótti mér áhugavert að hlusta á hv. þm. Pétur H. Blöndal viðurkenna hreinskilnislega að Ríkisútvarpið, og stjórn þess væntanlega, sé pólitískt og verði aldrei neitt annað en pólitískt. Ég óttast að þetta sé í hugarheimi sjálfstæðismanna, eða hæstv. menntamálaráðherra, einhvers konar réttlæting á því að stjórnarmenn komi fram með pólitískum hætti. Ef það þykir svo sjálfsagt þykir það svo sjálfsagt, því miður. Sá ótti er enn til staðar og reyndar alveg augljóst nákvæmlega hvað er í gangi hérna þegar á heildina er litið.

En þessi fulltrúi starfsmanna Ríkisútvarpsins mun þó hafa áheyrnaraðild, hann mun hafa tjáningarfrelsi og tillögurétt. Hann mun ekki hafa atkvæðisrétt enda var það ekki krafa starfsmanna RÚV þegar nefndin átti samtal við fulltrúa starfsmanna Ríkisútvarpsins til þess að lægja aðeins þær öldur. Sumir hafa gagnrýnt það að sá áheyrnarfulltrúi hafi ekki atkvæðisrétt. Hann virðist ekki vilja atkvæðisrétt og þá er viðhorfið að starfsmenn vilji ekki setja sig upp á móti stjórninni eða setja sig í stöðu þar sem þau þurfa að greiða atkvæði með eða móti byggt á einhverri innri pólitík. Mun mikilvægara sé að hafa áheyrnarfulltrúa til að geta fylgst með því sem er í gangi, með öðrum orðum er þetta í raun spurning um gegnsæi og að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi gott af því að vita hvað stjórnin gerir. Þetta er allt til bóta þó að ástæða sé til að ítreka það nógu oft að þetta er vont frumvarp. Þetta er skref í ranga átt, þetta er ólýðræðislegt framtak og skal heita það áfram.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig hugarheimurinn hafi verið þegar þetta frumvarp kom til. Þá er litið yfir þetta. Allt í lagi, þetta þykir ógegnsætt og ólýðræðislegt vegna aðkomu BÍL og Samstarfsnefndar háskólastigsins en síðan er í sérstakri málsgrein minnst á þennan fulltrúa starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ég velti fyrir mér hvernig hægt sé að lesa þá grein og að yfirlögðu ráði hugsa með sér: Þetta er ekki nógu gegnsætt. Þetta er ekki nógu lýðræðislegt.

Mér þykir mjög undarlegt að hugsa þannig, svo ekki sé meira sagt, en kannski voru þetta þegar allt kemur til alls einfaldlega einhvers konar mistök. Kannski vönduðu menn ekki nógu mikið til verka. Maður veit að slíkt kemur fyrir. Hvað sem því líður verðum við í minni hlutanum, sem erum augljóslega mjög mótfallin þessu frumvarpi, að átta okkur á því að það fer í gegn vegna þess að þannig virkar lýðræðið á Íslandi. 60% meiri hluti hefur í reynd 100% valdsins og þar er lýðræðishalli. Það væri mjög forvitnilegt að sjá hvort hæstv. menntamálaráðherra hefði áhuga á því að vinna með minni hlutanum að því að bæta það. Hvað sem því líður er ágætt að geta látið sig dreyma.

Ég ítreka að þetta er til bóta í vondu frumvarpi. Það var gleðilegt að geta tekið þátt í því að bæta þetta aðeins, gera þetta aðeins minna slæmt en það annars hefði verið, en reynslan mun leiða í ljós hvernig fer með Ríkisútvarpið í framtíðinni.