142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:08]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni rétt áðan í lokaorðum hans og það kom reyndar fram í upphafsorðum hans sömuleiðis, að þetta er vont frumvarp. Þetta er vont lagafrumvarp eðli málsins vegna, vegna þess að það felur í sér pólitísk afskipti af einni mikilvægustu stofnun landsins. Það felur í sér bein pólitísk afskipti af ríkisútvarpi í almannaþágu og jafnvel þó að það hafi tekist að berja í gegn að starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi möguleika á því að skipa áheyrnarfulltrúa í stjórn stofnunarinnar þá situr það eftir að samt sem áður óhreyft og algjörlega óhaggað að stjórnin verður skipuð af menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, líklega með sama hætti og gert var varðandi LÍN, með pólitískum fulltrúum.

Það á sem sagt að færa stjórn Ríkisútvarpsins sem fékk að mörgu leyti annað og víðtækara hlutverk með lagasetningunni um stofnunina sem samþykkt var hér og Alþingi sett hér í vor, í mars ef ég man rétt. Hún fékk aukið hlutverk og að sama skapi var fjallað um það hérna í lagasetningu árið 2007 þannig að smám saman og hægt og bítandi hefur það verið yfirlýst markmið þeirra menntamálaráðherra sem flutt hafa og borið málefni Ríkisútvarpsins hingað inn á þing að styrkja og efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins og klippa á pólitísk tengsl þess eins og mögulegt er að gera. Það er ekki gert í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir og eftir stendur meginefni frumvarpsins sem er vont, eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Ég spurði talsvert eftir því við 2. umr. málsins hver ástæðan væri fyrir því að svona frumvarp væri komið inn í þing. Hvers vegna er frumvarp af þessu tagi komið hingað inn? Ég vakti athygli á því að líklega er það ágætt fyrir þingmenn að spyrja sig að því reglulega þegar lagafrumvörp koma til þingsins til afgreiðslu og umfjöllunar: Hver er ástæða þess að frumvarp er lagt fram? Ekki er það bara til þess að menn geti fjallað um það, gagnrýnt það eða mælt með því. Það er ekki bara verið að leggja fram lagafrumvörp til þess að gera eitthvað, það er einhver ástæða að baki. Það er einhver hugmynd um að lögin í landinu varðandi viðkomandi efni sem lagafrumvörpin fjalla um eigi að vera betri og öðruvísi en þau sem eru fyrir eða þá að setja þurfi ný lög um tiltekin mál. Lagafrumvörp detta sem sagt ekki inn í þingið að ástæðulausu.

Ég innti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ítrekað eftir því hver ástæðan væri fyrir því að það lagafrumvarp sem hér um ræðir og er hér til 3. umr., þ.e. lagafrumvarp um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, sem felur eingöngu í sér breytingu á því hvernig skipa á í stjórn, er hans fyrsta þingmál sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Varð hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þrýstingi? Var þrýst á hann um að breyta lögunum með þessum hætti? Var það búið að vera í einhverjum undirbúningi? Var haft samráð, samstarf við til dæmis þá sem standa að Ríkisútvarpinu, núverandi stjórn Ríkisútvarpsins, stjórnendur, starfsfólk, þá sem láta sig málefnin varða og til dæmis sitja í stjórn Ríkisútvarpsins núna fyrir hina ólíkustu hópa í því markmiði að draga fram fjölbreytileikann í samfélaginu og styrkja grundvöll Ríkisútvarpsins og gæta þess að það ræki hlutverk sitt eins og lög kveða á um að það eigi að gera?

Nei, það var ekkert slíkt sem hæstv. ráðherra gat bent á að hefði verið hvatinn að þessu lagafrumvarpi, ekki neitt. Ég innti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sömuleiðis eftir því hvað lægi þá að baki. Lágu einhverjar rannsóknir, kannanir, samanburður milli landa eða innan lands þar að baki sem geta rökstutt það að hæstv. ráðherra hefur lagt á sig að flytja þetta mál hér í þinginu? Hæstv. ráðherra sagði það nefnilega í ræðu sinni þegar hann mælti fyrir málinu við 1. umr. að eitthvað slíkt lægi að baki. Það mátti auðveldlega túlka það með þeim hætti.

Með leyfi forseta, ætla ég að vitna í ræðu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í 1. umr. þessa máls þegar hann mælti fyrir málinu.

Þar segir:

„Meðal fyrstu mála sem komu á mitt borð sem mennta- og menningarmálaráðherra var umrætt fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum Ríkisútvarpsins. Eftir vandlega skoðun var það niðurstaða mín að þrátt fyrir góð áform löggjafans um aðkomu valnefndar að vali stjórnarmanna félagsins væri fyrirkomulagið gallað því að engin trygging væri fyrir því að það næði markmiði sínu.“

Í þessu felst þrennt: Í fyrsta lagi að þetta er fyrsta mál sem kom inn á borð hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Í öðru lagi að málið var vandlega skoðað af hálfu ráðherra áður en frumvarpið var skrifað og það flutt inn í þing. Og í þriðja lagi var það vegna þess að það fyrirkomulag sem er ríkjandi samkvæmt núgildandi lögum er gallað. Það þrennt skiptir máli í þessu sambandi. En þegar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra var inntur eftir því hvernig hefði staðið á því að málið kom inn á hans borð, hver ástæðan var fyrir því, hvaða hvati bjó þar að baki, þá var fátt um svör og á endanum viðurkenndi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra það í ræðustól að það hefði ekki verið neitt annað en hans eigin hugmyndafræði og hans eigin hugmynd um það hvernig stýra og stjórna ætti Ríkisútvarpinu. Það var engin beiðni. Það var engin undirliggjandi óánægja með skipun núverandi stjórnar Ríkisútvarpsins, það var ekkert utanaðkomandi sem hvatti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til þess.

Það var ekki einu sinni stefna ríkisstjórnar eins og hún birtist í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Það var sem sagt hugmyndafræðin sem réði að opinber stofnun af þessu tagi skyldi pólitískt skipuð, sérstaklega þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn. Og eingöngu þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn. Vegna hvers? Vegna þess að enginn sjálfstæðismaður, enginn þingmanna Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili þegar Sjálfstæðisflokkurinn var utan Stjórnarráðsins nefndi þetta mál í umræðum um stjórn Ríkisútvarpsins sem var þó til umræðu í þinginu í tvígang. Það var enginn. Ég fór í gegnum allar ræður hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili, það var aldrei rætt um að nauðsynlegt væri að skipa pólitíska stjórn ríkisútvarpsins heldur þvert á móti. Fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði gegn því og sagði að það væri eitt af meginmarkmiðum þeirra lagabreytinga sem áttu sér stað varðandi Ríkisútvarpið, bæði 2007 og 2009 að klippa á pólitísk tengsl á milli stjórnmálamanna og stjórnar Ríkisútvarpsins.

Hún spurði fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur sérstaklega út í það hvort eitthvað slíkt væri á ferðinni með breytingu á skipan í stjórn — sérstaklega. Í atkvæðagreiðslum um málið í vor greiddi enginn sjálfstæðismanna atkvæði gegn frumvarpinu á þeim forsendum að ranglega væri staðið að skipan í stjórn Ríkisútvarpsins. Það voru þrír eða fjórir sjálfstæðismenn sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, ef ég man rétt. Þeir gerðu það allir á fjárhagslegum forsendum, þ.e. vegna tekjustofnanna sem Ríkisútvarpinu voru ætlaðir. Því er sem betur fer hægt að fletta upp í Alþingistíðindum og lesa sér til um hver áhersla þessara þingmanna var. Það var sem sagt ekki skoðun sjálfstæðismanna, þingmanna Sjálfstæðisflokksins að skipa ætti stjórn Ríkisútvarpsins með pólitískum hætti á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í ríkisstjórn. En um leið og það gerist þá skal því breytt. Og hver var þessi vandlega skoðun sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra segir að farið hafi fram á málinu þegar það kom inn á hans borð — sem er reyndar ekki rétt? Hann átti í mestum samræðum við sjálfan sig. Það fór engin vandleg skoðun fram á málinu. Var eitthvert samráð haft við stjórn Ríkisútvarpsins? Við starfsmenn Ríkisútvarpsins? Við þá aðila sem nú skipa stjórn Ríkisútvarpsins? Nei, það var ekkert slíkt. Það var ekkert samráð haft við nokkurn einasta aðila um það hvernig þetta ætti að gera, utan veggja skrifstofu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Þetta hefur að vísu oft og tíðum verið rætt á landsfundum flokksins, eins og þeir kalla hann. Hæstv. fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi það sérstaklega í ræðum sínum um málið fyrr í vetur að málið hefði oft verið til umræðu á fundum flokksins í gegnum árin og orðið hin mesta skemmtun af eins og hún taldi. Það fór sem sagt ekki fram nokkur einasta vandlega skoðun á þessum hugmyndum ráðherra sem ekki komu inn á borð hans heldur fæddust þær bara þar eða voru kannski fullburða í höfði hans þegar hann gerðist mennta- og menningarmálaráðherra.

Í hverju er fyrirkomulagið þá gallað? Það var engin vandleg skoðun eða úttekt gerð sem sýndi fram á fyrirkomulagið væri gallað eða háð einhverjum annmörkum. Það liggur ekkert slíkt fyrir í þessu frumvarpi. Það er enginn rökstuðningur við að það sé gallað annar en sá að það eigi að heyra beint undir ráðherra hvernig þessi stjórn er skipuð og að herða eigi kverkatakið á Ríkisútvarpinu, hið pólitíska kverkatak sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf viljað hafa á þessari ágætu stofnun. Og ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn. Vitnað hefur verið í grein og umfjöllun hæstv. forsætisráðherra landsins um sama miðil, Ríkisútvarpið, á undanförnum dögum þar sem hann ræðst af fullkominni hörku gagnvart þessari stofnun, þessari merku stofnun, þessari mikilvægu stofnun. Hann reynir að grafa undan trausti á Ríkisútvarpið, rýra traust starfsmanna stofnunarinnar og gera málstað hennar sem allra verstan.

Vegna hvers? Vegna þess að Ríkisútvarpið fjallar ekki nógu vel um ríkisstjórnina. Það fjallar ekki með nógu jákvæðum hætti um þau mál sem ríkisstjórnin flytur inn í þing. Það tekur of mikið undir gagnrýnisraddir í samfélaginu á það sem ríkisstjórnin er að gera og eru tekin dæmi um það. Tekin eru dæmi um undirskriftasafnanir gegn málum ríkisstjórnarinnar, það sé gert mikið veður út af því, að Ríkisútvarpið hafi meira að segja flutt slíka frétt sem fyrstu frétt í Ríkisútvarpinu, að fréttamenn útvarpsins hafi flutt það sem fyrstu frétt í Ríkisútvarpinu að stór hluti þjóðarinnar væri hundóánægður með málflutning ríkisstjórnarinnar á Alþingi og þau mál sem stjórnin flytti hér fram.

Þá stígur hæstv. forsætisráðherra fram, ekki til að kveinka sér undan umræðunni, við skulum undanskilja það, heldur til að láta vita af því að það er fylgst með starfsemi Ríkisútvarpsins. Það er fylgst með því sem fréttamenn skrifa og fréttamenn segja og hvaða fréttir eru fluttar. Ég ætla ekki að gera hæstv. forsætisráðherra það upp að hann sé það mikill pólitískur aumingi að hann væli undan því þó að fjallað sé með gagnrýnum hætti um stefnumál ríkisstjórnarinnar, það er ekki svoleiðis, mér kemur það ekki til hugar, heldur er þetta hótun. Svipan er reidd til höggs vegna þess að ekki er fjallað með nógu jákvæðum hætti um ríkisstjórn hans og þau mál sem stjórnin flytur, jafn vitlaus og þau flest eru. Tekið er undir það sjónarmið af fyrrverandi forsætisráðherra landsins og ritstjóra þess blaðs sem hæstv. forsætisráðherra landsins gagnrýnir reyndar ekki, skiljanlega. Hann ræðst ekki að Morgunblaðinu fyrir fréttaflutning þess heldur að Ríkisútvarpinu, eina hlutlausa fréttamiðlinum á landinu. Hann skal tekinn fyrir. Það skal grafið undan trausti á þá stofnun og fólkið í landinu skal fá að vita það að sú stofnun nýtur ekki trausts hæstv. forsætisráðherra og starfsfólk Ríkisútvarpsins má vita það að það skal hafa sig hægt, það er fylgst með því, fréttirnar eru vaktaðar. Umfjöllunin er vöktuð og forsætisráðherrann mun láta í sér heyra ef starfsfólk Ríkisútvarpsins, fréttastofan og þeir sem fjalla um slík mál fara út af sporinu að mati hæstv. forsætisráðherra.

Þetta er auðvitað tilgangurinn, það er markmiðið, að veikja stofnunina, að ná henni undir sig fullkomlega, fyrst með því að skipa í hana pólitíska stjórn og síðan með því að berja hana hægri, vinstri úti í samfélaginu ef starfsmenn þar voga sér að tala gegn þeirri ríkisstjórn sem nú er við það að framkalla hér annað og enn ógnvænlegra hrun, efnahagslega og siðferðislega, en kallað var fram hér fyrir fimm árum.