142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég kem bara upp til þess að gera grein fyrir því hvers vegna ég samþykki þessa breytingartillögu frá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni. Ég hef haldið ræður um þetta mál, tvisvar að mig minnir, í ræðustól og látið skýrt í ljósi hvað mér finnst um þetta frumvarp. Ég harma það reyndar líka og sérstaklega í ljósi þess, eins og áður hefur komið fram, að það var nýbúið að samþykkja frumvarp um Ríkisútvarpið sem mér hugnaðist mjög vel og var nákvæmlega í anda aukins lýðræðis og meiri faglegrar vitundar í Ríkisútvarpinu þó að ég sé ekkert að deila á það eins og það var.

Núverandi stjórnarmenn komu á fund nefndarinnar og lýstu því yfir að þessi stjórn hefði starfað mjög vel saman, það væri faglega unnið og allir mjög ánægðir. Það kom líka starfsmaður frá starfsmannafélaginu og í hans orðum virtist liggja að starfsmenn legðu mikla áherslu á að starfsmannafélagið hefði fulltrúa á stjórnarfundum.

Eins og fram hefur komið hörmum við málið og styðjum í rauninni ekki þetta frumvarp en ég samþykki breytingartillögu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar og fagna henni. Þetta er smáskref í sáttaátt og gerir starfsmönnum þá kleift að sitja stjórnarfundi sem er hið besta mál. Ég get líka tekið fram að ég er lýðræðissinni og það er alveg ljóst að þetta mál fer í gegn hvað sem ég segi, en ég er búinn að koma mínum skilaboðum og míns flokks á framfæri. Ég geri það með glöðu geði að skrifa nafn mitt undir þessa breytingartillögu því að hún er þó í átt til sátta.