142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

veiðigjaöld.

15. mál
[15:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þetta mál snýst um hvað þjóðin, eigandi sjávarauðlindarinnar, fær í sinn hlut fyrir nýtinguna, það er það sem málið snýst um. Það stjórnarfrumvarp sem við ræðum nú snýst um að minnka þann hlut sem þjóðin fær. Menn greinir á um það hvað kemur að lokum til þjóðarinnar, en lækkunin er um 4 milljarðar, úr 14 milljörðum niður í 10 milljarða eða þar um bil.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins segja mér að það sé stefna þeirra og kosningaloforð að lækka veiðigjaldið. Skoðanakönnun í Fréttablaðinu og á Stöð 2 í dag sýndi að 70% þjóðarinnar eru á móti þessu, en fylgismenn Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir lækkun veiðigjaldsins. Ég álasa Sjálfstæðisflokknum því ekki fyrir að vera að hugsa um hagsmuni umbjóðenda sinna og uppfylla kosningaloforð og stefnu síns flokks. En 70% landsmanna eru á móti lækkun veiðigjaldsins og 34.000 landsmenn hafa með undirskrift sinni þrýst á þingið að samþykkja ekki þessi lög, samþykkja ekki þessa lækkun, og að fá forsetann, ef Alþingi samþykkir þessa lækkun, til að vísa þessu lagafrumvarpi til þjóðarinnar.

Umboð okkar pírata er skýrt. Það er að vinna að og virða grunngildi Pírata, þ.e. að gera það sama með önnur stefnumál okkar, aðra stefnu sem byggir á grunngildunum, að virða kosningaloforðin okkar sem byggja á hvoru tveggja. Að sjálfsögðu felst það líka í því að halda stjórnarskrá landsins, við erum búin að sverja eið að henni.

Á þessu byggist umboð okkar. Þá er spurningin: Fyrst ein af grunnstefnum Pírata er beint lýðræði í öllum formum sem bjóðast lítum við í kringum okkur og spyrjum okkur hvaða form bjóðist samkvæmt núverandi stjórnskipan. Það form sem býðst er að forsetinn neiti að skrifa undir lög sem þingið hefur samþykkt og vísi því á þann hátt til þjóðarinnar til samþykkis eða synjunar. Þetta er það beina lýðræði sem býðst í dag. Nú spyr maður sjálfan sig hvað forsetinn muni gera í þessu máli.

Forsetinn er erlendis og hefur þar af leiðandi ekki málskotsréttinn. Málskotsrétturinn er þá í höndum forseta þingsins, sem er sjálfstæðismaður, forsætisráðherra, sem er framsóknarmaður, og svo forseta Hæstaréttar. Meiri hluti þeirra sem eru með málskotsréttinn eru því stjórnarliðar. Þetta er stjórnarfrumvarp, þannig að það væri ótækt að hleypa málinu út úr þinginu þar til forsetinn kemur til landsins og fær í hendur þá heimild sem honum var treyst fyrir, málskotsréttinn sem er öryggisventill þjóðarinnar.

Við höfum því talað um að við munum beita þeim heimildum sem kjósendur okkar treystu okkur fyrir, meðal annars því að geta talað hér í 2. umr. eins lengi og þarf til að þæfa málið nógu lengi til að forsetinn geti komið heim og sinnt þeirri skyldu sinni að hafa málskotsréttinn í svona mikilvægu máli.

Hve mikilvægt er þetta mál? Til þess að vita hvort forsetinn væri á landinu sendi ég honum bréf í gærmorgun sem hljóðar svo:

„Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Yfir 34.000 Íslendingar hafa skorað á þig sem forseta landsins að undirrita ekki lög um lækkun á veiðigjöldum sem taka til breytinga á lögum nr. 74/2012, frá 26. júní 2012, ef Alþingi samþykkir þessi lög, heldur vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.

Þú hefur reynst þjóðinni vel sem vaktmaður hennar yfir málskotsrétti forsetans, öryggisventli þjóðarinnar. Þú varðst við áskorun 32.000 Íslendinga um að hafna staðfestingu fjölmiðlalaganna árið 2004.“

Þá sagði forsetinn, með leyfi forseta:

„Því miður hefur skort samhljóm sem þarf að vera á milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa. Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendurnar þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þarna sjáum við að það er gjá milli þings og þjóðar um fjölmiðlafrumvarp; 32.000 skrifuðu þá undir áskorun til forsetans og hann vísaði því í þjóðaratkvæðagreiðslu með þessari réttlætingu. Vegna þess að það er best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt, eins og hann segir, að meta lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá er það spurningin: Það frumvarp sem liggur fyrir þinginu og við erum að ræða — er það tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, segir í dag í fjölmiðlum að þetta sé ekki tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forsetinn var í fyrra ósammála því. Hann sagði, og var að ræða um kvótakerfið, um fiskveiðiauðlindina, með leyfi forseta:

„Þar er um að ræða ráðstöfun á sameign þjóðarinnar. Þar er um að ræða hvað þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fær í sinn hlut. Það er erfitt að hugsa sér stærra mál en það sem mundi vera eðlilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu ef einhver hluti þjóðarinnar telur það mikilvægt.“

32.000 manns kölluðu eftir því að frumvarpi um fjölmiðlalög yrði vísað til þjóðarinnar. Forsetinn varð við því og talaði um gjá milli þings og þjóðar. Nú kalla 34.000 Íslendingar eftir því að þessu frumvarpi um að lækka þann hlut, sem kemur til þjóðarinnar vegna nýtingar á auðlind sem er sameiginleg með þjóðinni, um 4 milljarða. Kallað er eftir því að forsetinn vísi því í þjóðaratkvæðagreiðslu ef þingið samþykkir það. Hann þarf að vera á landinu til þess að gera það.

Ég talaði við forsetaritara áðan. Forsetinn kemur til landsins annaðhvort á sunnudag eða mánudag. Nú sjáum við til hvernig umræður þróast hér í dag, hvort píratar munu þurfa að nota málsþæfingarrétt sinn til að skapa svigrúm fyrir forsetann að koma.

Förum aðeins yfir frumvarpið, hvað felst í því? Það sem við höfum heyrt um það — og enginn ágreiningur um það — er að það á að lækka veiðigjöldin. Útfærslan á því er mikil og flókin. Ég er búinn að sitja þessa fundi. Það hafa verið haldnir 18 fundir í atvinnuveganefnd. Ég er búin að sitja megnið af þeim. Ég kom inn sem áheyrnarfulltrúi eftir nokkra fyrstu fundina. Það er búið að kalla fyrir mikið af séraðilum. Við kölluðum til þá sem stóðu að undirskriftasöfnuninni og Jón Steinsson hagfræðing. Það hefur verið mikil og góð umræða í nefndinni.

Málið snýst um frumvarp um veiðigjöld, alla vega eins og það snýr að mér eins og ég hef náð að skilja það, sérstök veiðigjöld, þar sem útgerðum er gert að greiða arð til þjóðarinnar af umframhagnaði. Þetta er gott. Gallinn við það er sá að tekinn er meðalhagnaður, þetta leggst á alla, þetta leggst misjafnt á aðila. Það skiptir máli. Þetta mundi þurfa að laga. Stjórnarflokkarnir hafa boðað til heildarskoðunar á fiskveiðistjórnarkerfinu í haust. Þetta leggst misjafnt á aðila og verið er að reyna með skítamixi að fixa þetta til.

Ef við horfum á það að þetta er veiðigjald á umframhagnað — ef svoleiðis gjöld yrðu sett á vinnandi fjölskyldur landsins fengjum við öll til að byrja með launatékka og áður en lögð yrðu gjöld á hann mundum við geta tekið til allan kostnað. Við mundum taka húsaleigu eða afborganir af lánum, matarkostnaðinn og tekið til allan kostnað við það að reka heimili. Eftir það erum við komin með hagnað. Hagnaðurinn yrði ekki skattlagður, það er bara umframhagnaður sem er skattlagður. Við værum þá með eðlilega kröfu um hvað við mættum fjárfesta miklu eða fá í arð af þeim fjárfestingum eða spara og er ýmislegt tekið til. Þannig að við gætum fjárfest, tekið er tillit til þess, og fengið arð af því. Eftir þetta allt saman, eftir þá skuldaafslætti og fjárfestingar, eðlilegar fjárfestingarkröfur upp á 8% o.s.frv., þá er loksins sett renta eða sérstakt veiðigjald á hagnaðinn.

Þetta hljómar ekkert sérstaklega ósanngjarnt, en vandamálið eins og ég sagði áðan er það að þetta er sett flatt á alla. Það þarf að laga. En það að veiðigjald sé sett á umframhagnað er mjög rausnarlegt. Þegar öllu er á botninn hvolft er það þjóðin sem á þessa auðlind. Það kemur fram í fiskveiðilögunum. Flestir Íslendingar eru sammála um að þjóðin á fiskveiðiauðlindina. Það eru allir sammála um að þjóðin eigi að fá einhverja rentu. Þegar spurningin er hve mikil rentan eigi að vera, hver á þá að taka þá ákvörðun? Þingið getur komið með tillögur að ákvörðunum, að sjálfsögðu, og samþykkt þær, að sjálfsögðu, en þjóðin á að geta kallað eftir því að eiga lokaorðið. Að sjálfsögðu.

Forsetinn, sem áður hefur vísað málum um fjölmiðlafrumvarp í þjóðaratkvæðagreiðslu, vegna gjár milli þings og þjóðar, þegar 32.000 manns kölluðu eftir því, á að sjálfsögðu að vísa þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar 34.000 manns kalla eftir því og 70% þjóðarinnar eru á móti þessum lækkunum veiðigjalda. Ég skora á forsetann, með öllum hinum þúsundum Íslendinga sem hafa skrifað undir og öllum þeim 70% sem eru á móti þessari lækkun á veiðigjaldi, að hafna þessum lögum ef þau enda inni á hans borði.

Þegar hann kemur til landsins, á sunnudag eða mánudag, hvet ég hann til að fara ekki af landi brott fyrr en búið er að afgreiða þetta, ekki fyrr en hann er búinn að fá málið á sitt borð eða vísa því frá þinginu. Ef það endar hjá forsetaembættinu eftir afgreiðslu í þinginu og hann er ekki á landinu er hann að vanrækja það sem mjög margir kjósendur treystu honum fyrir í forsetakosningunum fyrir ári, að vera á öryggisventli þjóðarinnar.

Við köllum eftir þessu, við píratar, að beint lýðræði fái að ráða í þessu máli, að þjóðin fái að eiga síðasta orðið.