142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[15:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við erum með til umræðu eitt af stóru málunum, líklega stærsta málið, á yfirstandandi þingi og líklega eitt það mikilvægasta, pólitískasta, það sem hefur verið hvað lengst í umræðunni í þessu samfélagi af öllum málum sem hefur verið fjallað um á þingi, ekki bara þessu sumarþingi hér, heldur á undanförnum árum og bráðum áratugum. Fá mál hafa fengið jafn ítarlega og langa umræðu og málefni sjávarútvegsins. Fá mál hafa klofið þessa þjóð jafn rækilega í parta og málefni sjávarútvegsins.

Þessi þjóð hefur oft deilt um margs konar mál, um eitt og annað. Umhverfismál hafa verið þar hátt á blaði undanfarin ár, deilurnar um Kárahnjúka á sínum tíma ristu djúpt og rista enn og höfðu gríðarleg áhrif á samfélagið sem betur fer, þó það nú væri að menn létu þær hafa áhrif á sig. Þjóðin skiptist í tvennt. Við sjáum áhrif af því máli til dæmis á þriðja eða fjórða degi núverandi ríkisstjórnar þegar 2000 grænir fánar voru samankomnir við Stjórnarráðið til að mótmæla fyrirhuguðum og boðuðum aðgerðum í umhverfismálum.

Deilurnar um sjávarútveginn hafa hins vegar verið harðari en nokkrar aðrar deilur, í raun og veru er allt annað hjómið eitt. Þær rista djúpt í þjóðarsálina af mörgum ástæðum, m.a. vegna byggðalegra sjónarmiða vegna þess að það er ekki nema rétt liðlega aldarfjórðungur síðan við tókumst á við það að reyna að viðurkenna fyrir okkur sjálfum að sjávarauðlindir væru ekki ótakmarkaðar, þ.e. við þyrftum að umgangast þær eins og takmarkaða auðlind með þeim annmörkum sem það kallar á. Meðal annars geta ekki allir nýtt þá auðlind, okkur er ekki sama hvernig hún er nýtt og við viljum fá að hámarka afkomuna út úr henni, bæði í kílóum talið og ekki síður í krónum og aurum, þ.e. að afraksturinn af þessari sameiginlegu auðlind okkar allra sé hvað mestur frá öllum hliðum séð.

Í dreifðum byggðum landsins, litlu byggðunum allt í kringum landið, hefur þessi deila kannski verið hvað hatrömmust og haft mest áhrif á samfélögin. Þá er ég ekki að tala um kvótaflutningana beinlínis og hvaða áhrif þeir hafa, heldur það að flest þessara byggðarlaga byggðust upp vegna sjósóknar. Það var auðvelt að ná í tiltekna fisktegund eða gera út frá tilteknum stað. Þetta þekkjum við frá mörgum litlum bæjum á Vestfjörðum, Austfjörðum sömuleiðis, suður með sjó o.s.frv. Auðvitað höfðu þær gríðarlegu breytingar sem urðu í kjölfar þess að við takmörkuðum aðgang að auðlindinni mikil áhrif á samfélögin og mótuðu þau upp á nýtt með breyttum atvinnuháttum, breyttri samsetningu í þessum litlu samfélögum o.s.frv. Sárin sem sátu eftir stöfuðu að stærstum hluta af því að stjórnmálamenn á þeim tíma brugðust ekki við fyrirsjáanlegum afleiðingum af því að takmarka aðgang að auðlindinni. Það var ekki brugðist við, ekki með því að auka aflaheimildir eða takmarka aðganginn heldur með öðrum aðgerðum til mótvægis í því sem var fyrirsjáanlegt þá. Það er kannski gott að vera vitur eftir á í því, en það er ein af afleiðingunum af þessum hörðu deilum um sjávarútveginn. Fyrirtækjunum fækkaði, skipunum fækkaði, starfsmönnum fækkaði, samfélögin tóku á sig aðra mynd og atvinnuhættir breyttust mjög hratt á þessum 20 árum eða svo.

Þessar deilur hafa oft færst inn í þennan sal af mikilli heift og mikilli hörku. Það er það sem kannski hefur einkennt þessi deilumál í samfélaginu, heift og harka sem oft ristir mjög djúpt. Fólk skiptist algjörlega í tvö horn og er þá stillt upp annaðhvort sem í liði með sjávarútveginum, í liði með fiskvinnslunni, í liði með útgerðinni, eða í hinu liðinu sem vill ganga af þessu öllu dauðu. Það virðist ekki vera hægt að koma á neinum sameiginlegum fleti um að það sé ekki annaðhvort svart eða hvítt, annaðhvort í ökkla eða eyra þegar komið er að þessari grein.

Sjálfur hef ég starfað í 34 ár í sjávarútvegi við eitt og annað, mest við sjósókn, fiskvinnslu og annað slíkt, og þykir afar vænt um þessa grein. Mér er mjög hlýtt til sjávarútvegsins og þykir ekkert verra en þegar ég heyri illa talað um hann eða hann fær ekki sanngjarna umfjöllun. Þess vegna hef ég oft lagt það í vana minn þegar ég hef umræðu um sjávarútvegsmál úr þessum ræðustól að taka þetta fram til að koma í veg fyrir þann misskilning að afstaða mín í veiðigjaldsmálum byggist á einhverjum annarlegum hvötum gagnvart sjávarútveginum og ég vilji honum illt, vilji helst knésetja hann eins og lesa má í málgagni Landssambands íslenskra útvegsmanna í dag. Fyrrverandi forsætisráðherra landsins tekur þar sérstaklega fram nafn þess sem hér stendur og segir að hann vilji knésetja og eyðileggja sjávarútveginn á Íslandi. Hann færir fyrir því einhver geggjuð rök, að hans hætti að sjálfsögðu. Það er ekki það sem ég er að tala um. Þannig hef ég aldrei talað um sjávarútveginn. Þannig mun ég aldrei tala um sjávarútveginn. Það þýðir samt ekki að ég hafi ekki skoðun á honum, rétt eins og allir aðrir, rétt eins og þeir sem hafa starfað með mér í sjávarútvegi, skipstjórar, útgerðarmenn, sjómenn, fiskvinnslufólk og aðrir, sem hafa á honum skoðun, að sjálfsögðu.

Ég tel rétt að menn hafi þetta í huga í upphafi máls míns um þetta frumvarp um lækkun og allt að því afnám veiðigjalds á einstaka útgerðarflokka og fisktegundir áður en lengra er haldið.

Ég vil samt í upphafi sömuleiðis fjalla örlítið um aðdraganda þessa máls, hvernig það kemur inn í þingið og hvaða umfjöllun það hefur fengið hérna. Þetta mál var lagt fram á þingi 12. júní 2013. Það kemur ekki fram í frumvarpinu að neitt samráð hafi verið haft við nokkurn aðila áður en það var lagt fram í þinginu, ekki við útgerðina, fiskvinnsluna, Alþýðusamband Íslands, Starfsgreinasambandið eða aðra stjórnmálaflokka, heldur var þetta lagt fram hér alveg klárt og kvitt og sagt: Þetta er markmiðið. Þetta er það sem við ætlum að ná. Við ætlum að þurrka út sérstakt veiðigjald í botnfiski og hækka það í uppsjávarfiski.

Það var gefinn fimm daga umsagnarfrestur fyrir þetta mál sem skiptir ríkissjóð um það bil 10 milljörðum í tekjur á næsta eina og hálfa ári og 7–8 milljarða á ári eftir það miðað við þær forsendur sem liggja fyrir frumvarpinu og þær forsendur sem eru fyrir í skoðun veiðigjaldsnefndar og annarra sem hafa gefið atvinnuveganefnd umsögn. Ég minnist þess ekki á síðustu fjórum árum að mál af þessari stærðargráðu og af þessum toga í jafn miklu deilumál, jafn umfangsmiklu máli á alla vegu sem þetta er, hafi fengið framgang með þessum hætti. Ég minnist þess ekki. Ef slíkt hefur gerst mundi ég gjarnan vilja að það yrði rifjað upp fyrir mér um hvaða mál var þá að ræða í einhverjum jöfnuði við það sem við erum að tala um hér.

Áður en fimm daga umsagnarfresti lauk höfðu nánast allir þeir aðilar sem voru beðnir um að gefa umsögn þegar komið fyrir nefndina og gefið munnlega umsögn, þ.e. nefndarmenn höfðu ekki gögn í höndunum til að spyrja umsagnaraðilana um þegar þeir komu til fundarins. Ég man heldur ekki til þess að það hafi gerst áður. Ég man til þess að í einhverju slíku máli hafi okkur orðið á að kalla inn umsagnaraðila áður en umsagnarfresti lauk. Þá urðu uppi hávær mótmæli af hálfu stjórnarandstöðunnar og við brugðumst við með því að kalla þá aftur fyrir nefndina sem höfðu komið áður en þeir höfðu skilað skriflegri umsögn. Ég man eftir því að það hafi gerst, en ég man ekki eftir því að umsagnaraðilar hafi komið fyrir þingnefnd í jafn stóru máli og þessu án þess að nefndarmenn sem eiga að fjalla um slíkt mál hafi haft einhver gögn í höndunum. Það bendir til þess að aldrei hafi verið ætlunin að kafa mjög djúpt í þetta, enda leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og ekki er tekið tillit til neinna athugasemda að neinu leyti. Engin breytingartillaga er lögð fram, ekki hin minnsta.

Ég man heldur ekki til þess að ég hafi boðað til fundar í þingnefnd án þess að það hafi verið hafður fyrirvari á því að verið væri að afgreiða mál úr nefnd, að ég tali ekki um mál af þessari stærðargráðu, að það hafi verið gert viðvart um að það ætti að taka málið úr nefnd og nefndarmenn fengið nefndarálit formanns í hendurnar áður en til fundarins kæmi. Það kann vel að vera að einhver geti rifjað upp slíkt mál einhvers staðar í þingnefnd, ég hef ekki setið í öllum nefndum, en ég man aldrei eftir því í þeim nefndum sem ég sat í á síðasta kjörtímabili, þeim nefndum sem ég leiddi á síðasta kjörtímabili, að slíkt vinnulag hafi verið viðhaft.

Ég man heldur ekki eftir því að ekki hafi verið brugðist við þegar minni hluti nefndar óskaði formlega eftir því að fá að kynna meiri hlutanum breytingartillögur sínar með það í huga að hægt væri að ræða þær og vonandi ná samkomulagi um málið. Það er það sem við gerðum formlega í atvinnuveganefnd, óskuðum sérstaklega eftir því að halda fund um breytingartillögur okkar til að ræða þær í þeim tilgangi að fá efnislega umræðu um málið til að athuga hvort við gætum náð saman um það. Það hefði verið bragur á því að þetta nýja þing með öllum þessum nýju þingmönnum og öllum þeim góðum fyrirheitum sem þeir hafa gefið um breytt vinnubrögð, frá einhverjum sem þeir greinilega þekkja ekki hver hafa verið, hefði sagt: Já, þetta líst okkur vel á, við erum til í þetta. Við skulum halda aftur fund í kvöld. Komið og ræðið breytingartillögur ykkar við okkur og við skulum athuga hvort við náum saman.

Nei, það var ekki gert. Því var algjörlega hafnað.

Satt best að segja hélt ég að þegar fyrir lá að taka ætti mál út úr nefnd kæmi eins og ein breytingartillaga frá meiri hlutanum í þeim tilgangi að kanna hvort hægt væri að ná samkomulagi við minni hluta nefndarinnar, þótt ekki væri nema eitthvert eitt mál, að ná samkomulagi um eitthvað í þessu stóra máli. En það var ekki neitt. Það var ekki boðið upp á það heldur.

Niðurstaðan af þessu sem ég hef rakið hérna getur ekki orðið önnur en sú að aldrei hafi verið ætlunin að gera nokkrar breytingar á þessu frumvarpi, taka nokkurt tillit til umsagnaraðila, gera hina minnstu tilraun til að ná sáttum eða samkomulagi við þingmenn utan stjórnarflokkanna um þetta mál. Það bendir ekkert til þess að það hafi verið ætlunin.

Það hefði verið sómi að því núna ef við værum í þingsalnum í dag að ræða um eitthvað sem við værum sammála um, reyna að nálgast enn frekar í þessu máli en við höfum gert. Við sem höfum talað lengi um þetta mál, við sem höfum starfað lengi í þessari grein, vitum að aldrei áður hefur verið jafn stutt í það að ná samkomulagi um þetta mál á milli hagsmunaaðila í greininni, almennings í landinu og stjórnvalda. Það hefur aldrei verið jafn stutt og einmitt núna, aldrei í sögunni. Það fullyrði ég.

Við erum komin yfir svo marga hjalla á leiðinni. Við erum til dæmis hætt að tala um hvort borga eigi gjald. Það tók okkur langan tíma, það tók okkur óratíma að ræða um hvort borga ætti gjald í þessari grein. Við erum komin yfir það. Við erum komin yfir það að gjaldtakan eigi að taka mið af arðsemi auðlindarinnar. Það er ekki deilumál lengur. Hugsið ykkur. Á þessum árum höfum við þó komist yfir þetta. Það er ekki deilumál lengur. Deilumálið er hversu mikið eigi að taka. Við erum að tala um það í dag hvort á að taka 1, 5, 10, 15 eða 50% af einhverjum arði. Stjórnarliðar gerðu ekki minnstu tilraun til að kanna það hjá stjórnarandstöðunni hvort hægt væri að ná samkomulagi eða eitthvað slíkt. Aldrei. Stjórnarliðar báðust undan því að ræða slíkar tillögur.

Þetta finnst mér leitt. Ég veit alveg hvað gerist í kjölfar þess ef svona frumvarp verður samþykkt. Við skjótum málinu nokkur ár aftur í tímann þar sem deilan var hvað hörðust og hún mun harðna. Hún getur ekki annað en harðnað og versnað. Þjóðin verður aftur klofin í herðar niður um stjórn fiskveiða, veiðigjöld og afgjald af auðlindinni sinni. Það er það sem mun gerast verði þetta frumvarp samþykkt. Það vitum við, ekki bara þau sem hafa starfað í þessari grein, það vitum við öll sem höfum fylgst með samfélagsumræðunni um sjávarútveg í áratugi.

Til hvers er þá leikurinn gerður? Af hverju er lagt upp með þetta? Af hverju er lagt fram frumvarp á sumarþingi sem hefur þessar afleiðingar? Og það er ekki boðið upp á neitt annað. Af hverju var í nefndinni á þessum þó 17 eða 18 fundum sem voru haldnir á þessum fáu dögum aldrei efnisleg umræða um málið? Í nefndinni var aldrei efnisleg umræða um málið. Nefndin ræddi þetta mál aldrei efnislega sín á milli. Það var rætt um form. Það var rætt um eitthvað sem gerðist á síðasta kjörtímabili. Í þessari níu eða tíu manna nefnd að meðtöldum áheyrnarfulltrúum var aldrei tekin efnislega umræða um málið vegna þess að það var aldrei ætlunin. Menn ætluðu sér aldrei að gera það.

Eins og ég sagði áðan hefur lengi verið rætt um þetta mál. Þetta á sér langan aðdraganda í sögunni. Ætli það hafi ekki verið árið 1999 sem fyrsta stóra skýrslan um auðlindamál og auðlindagjald var lögð fram. Þverpólitísk nefnd skipuð af Alþingi skilaði þá skýrslu um auðlindamál. Svo var önnur árið 2000 ef ég man rétt, eða 2001, þrjár á stuttum tíma, svo árið 2010 ein enn þverpólitísk nefnd sem skipuð var af hálfu síðustu ríkisstjórnar. Það taldist ekki til heimssögulegra viðburða eins og var talið að hefði gerst á Alþingi í morgun þegar Alþingi ákvað að verða við beiðni ríkisstjórnarinnar um að hún skipaði í nefndir. Það var talinn einn af heimsviðburðunum, slíkt hefði aldrei gerst áður í heiminum.

Það kom niðurstaða út úr þessu öllu. Það bar allt að sama brunni. Smám saman hertist umræðan og varð skarpari í því að það ætti að innheimta auðlindagjald. Auðlindagjaldið tæki mið af arðinum og rentunni úr greininni, þ.e. umframhagnaðinum. Þegar búið er að greiða allan kostnað, laun, rekstur og annað slíkt, situr eitthvað eftir sem aðilar sammælast um að eigi að skipta á milli af sanngirni. Hver er nú sanngjarni hátturinn sem við notum til að skipta hér á milli okkar? Um 20%, kannski 22%, af arðseminni, umframhagnaðinum, eiga að renna til þjóðarinnar en hitt verða eftir hjá hinum sem nýta hann. Er það sanngjarnt? Einhver kynni að segja: Nei, það er ósanngjarnt, þetta er ójafnt skipt.

Það er hægt að færa rök fyrir því. Það er líka hægt að færa rök fyrir því að segja: Ókei, þetta er sanngjarnt, við verðum að stíga þessi fyrstu skref inn í þetta með sjávarútveginn og það er sanngjarnt að byrja á þessum stað.

Ég hef ekki heyrt nein rök fyrir því að það sé ósanngjarnt að eigandi auðlindarinnar fái 20% af umframhagnaðinum í sinn vasa. Ég hef bara ekki heyrt nein haldbær rök fyrir því, ekki nokkur. Þau eru ekki færð fram í þessu frumvarpi. Það eru engin rök færð í þessu frumvarpi fyrir því að það eigi að þurrka út sérstakt veiðigjald í botnfiski sem dæmi. Þau hafa ekki komið fram hjá umsagnaraðilum. Þau hafa ekki komið fram hjá ráðuneytinu. Þau komu ekki fram hjá veiðigjaldsnefndinni. Þau komu ekki fram hjá sérfræðingnum sem ráðuneytið leitaði til til að leggja mat á frumvarpið, heldur þveröfugt. Það var alveg þveröfug niðurstaða sem menn komust að þar.

Af hverju er þá ekki tekið tillit til þess? Er það vegna þess að menn sammæltust um það þegar þeir rápuðu á milli sumarbústaðanna í vor að þetta yrði gert svona, að veiðigjaldið yrði lækkað hvað sem hver segði, hver sem mótrökin yrðu, hvaða rök sem væru færð gegn því að svona skyldi þetta vera, nákvæmlega svona og ekki öðruvísi út af einhverri hugmyndafræði sem menn teldu sig þurfa að uppfylla í því sambandi? Það skyldi þó aldrei vera að þetta hafi verið ákveðið í upphafi og svo laggó með það inn í nýtt þing til nýrra þingmanna og sagt: Gjörið svo vel, þið gerið þetta fyrir okkur.

Ég veit ekki hversu ítarlega svona mál hafa til dæmis verið rædd í þingflokki Framsóknarflokksins, en hafi það verið gert hljóta menn að hafa verið pínu hugsi hafi þeir haft stefnu Framsóknarflokksins til hliðsjónar, t.d. landsfundarályktanir Framsóknarflokksins sem tala ekki í þessa átt, sem benda ekki í þessa átt sem hér er verið að tala um að eigi að gera. Þar segir hins vegar blákalt að það eigi að fylgja þeim tillögum sem komu úr niðurstöðu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem skilað var árið 2010. Ég kann þá skýrslu ágætlega. Ég er einn af þeim sem sömdu hana. Ég er einn af þeim sem sátu í þessum starfshóp. Ég er einn af þeim sem lásu hana spjaldanna á milli á sínum tíma, þetta ár sem sá hópur starfaði. Það voru auðvitað fleiri, ég var ekki sá eini sem gerði það, og ég veit að það segir ekki í þessari skýrslu að það eigi ekki að taka sanngjarnt rentugjald úr sjávarútvegi. Það voru allir sammála um það nema kannski fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna sem töluðu gegn því eða í það minnsta að ekki yrði farið fram með neinum látum þar.

Það var reyndar ágætishópur og skilaði mikilli skýrslu. Það var þverpólitískur hópur, hátt í 20 manns sátu í honum sem var valinn af öllum þingflokkum á Alþingi, hagsmunasasmtökum í samfélaginu, sveitarfélögum, sjómönnum, vélstjórum, skipstjórum og öllum þeim [Hurðarskellur.] — ég bið hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að ganga hægt um gleðinnar dyr — sem sátu í þessum hópi. Þetta var þverpólitískur hópur. Það voru allir kallaðir að verkinu. Þáverandi ríkisstjórn hefði verið í lófa lagið, hefði hún viljað vinna þannig, að leggja fram svona frumvarp og segja við þingliðið sitt: Hér er frumvarp. Berjið það í gegnum þingið. Það er pólitískt markmið þessarar ríkisstjórnar að ná þessu fram. Við hlustum ekki á nein rök.

Við gerðum það ekki. Við gerðum það nefnilega ekki, við kölluðum alla að borðinu. Í hvaða tilgangi? Í þeim tilgangi að reyna að ná hvað mestri sátt um stjórn fiskveiða, þar á meðal hvernig á að vinna stjórnkerfið sjálft og hvort og þá hvernig eigi að taka gjald af auðlindinni.

Það hefur stundum verið sagt við mig: Þetta voru mistök hjá ykkur vegna þess að þið náðuð ekki pólitískum markmiðum ykkar fram. Það má færa rök fyrir því. Það má líka færa rök gegn því vegna þess að eitt af okkar pólitísku markmiðum var að reyna að ná samkomulagi við alla aðila um það hvað ætti að gera. Það er af þessu plaggi sem Framsóknarflokkurinn ályktar að hann ætli að vinna í sínum sjávarútvegsmálum, það er á grundvelli þessarar skýrslu, niðurstöðu þessa hóps. Svo bara gerir hann það ekki. Hann gerir það ekki af því að menn ákváðu að gera eitthvað annað.

Það var fjallað í þessum hóp um nýtingu sjávarauðlinda og annarra náttúruauðlinda, að hafa samræmi þar á milli. Þegar farið yrði að taka rentugjald af nýtingu sjávarauðlinda skyldi það færast yfir í aðrar auðlindir, jarðvarmann, fallvötnin og annað slíkt. Auðvitað er sanngjarnt að gera það.

Í þessum hóp var sérstaklega rætt um þjóðareign á náttúruauðlindum með það í huga að það væri hafið yfir allan vafa hver ætti auðlindina. Það átti að vera hafið yfir allan vafa hver gæti krafist arðsemi af auðlindinni. Vita þingmenn hver stýrði þeim hóp?

Það segir, með leyfi forseta, í þessari skýrslu:

„Þá ræddi starfshópurinn um að skýrt ákvæði um eignarhald náttúruauðlinda kæmi inn í stjórnarskrá og var í því sambandi skipaður undirhópur undir forustu Einars K. Guðfinnssonar, alþingismanns og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.“

Í niðurstöðu þessarar skýrslu er kveðið fast á um að það eigi að vísa þessu máli inn til stjórnlagaþings sem þá var að störfum og að þetta ætti að vera ótvírætt í stjórnarskrá Íslands. Svo koma menn í þennan sal og þá var heldur betur ekki stuðið á þeim að uppfylla þetta loforð. Þeir töluðu gegn því alveg fram á síðasta dag og drápu það mál niður hægt og bítandi.

Í þessari skýrslu var útdráttur á öllum þeim nefndum sem hafa fjallað sérstaklega um auðlindir, nýtingu þeirra og afrakstur af þeim, hvert hann á að fara. Þar er fjallað sérstaklega um auðlindanefndina frá árinu 2000. Það er getið um hana í nefndaráliti minni hlutans, þ.e. starfshópur sem kosinn var af Alþingi, fulltrúum allra flokka, það var alltaf verið að reyna að kalla alla að borðinu til að ræða þetta mál. Það er líklegast að þannig náist eitthvert samkomulag, ekki satt? Menn ná ekki samkomulagi eingöngu við sjálfa sig, það þarf að ná einhverju samkomulagi um þetta mál.

Þar var fjallað um auðlindir í þjóðareign og það var sérkafli í skýrslunni um fiskveiðiauðlindirnar, atvinnurétt í stjórnarskrá og hvernig ætti að nýta arðsemina.

„Nefndin er þeirrar skoðunar,“ segir, með leyfi forseta, „að rétt sé að stefna að greiðslu fyrir afnotarétt af öllum auðlindum sem eru í eigu ríkis eða þjóðar af tvennum ástæðum: annars vegar til að greiða kostnað ríkisins af stjórn og eftirliti með viðkomandi auðlind, hins vegar til að tryggja þjóðinni í heild sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting hennar skapar.“

Það er að verða aldarfjórðungur síðan menn fóru að berja þetta áfram og koma því í gegn og það hefur tekist.

Í skýrslu auðlindanefndar segir áfram, með leyfi forseta:

„Auðlindanefnd skoðaði tvær mögulegar leiðir varðandi gjaldtöku fyrir afnot af auðlindinni. Fyrri leiðin sem nefndin skoðaði, þ.e. fyrningarleiðin, byggðist á því að allar aflahlutdeildir yrðu skertar árlega um fast hlutfall sem síðan yrði endurselt á markaði eða uppboði. Hin leiðin sem nefndin fjallaði um, þ.e. veiðigjaldsleiðin, fólst í beinni gjaldtöku og ákvæði um að breytingar á aflahlutdeildum krefðust lágmarksaðdraganda. Í skýrslu auðlindanefndar eru leiðirnar tvær bornar ítarlega saman, sem og líkleg áhrif á aflahlutdeildir og tekjur ríkissjóðs af hvorri leið fyrir sig. Nefndin skiptist í afstöðu til þess hvora leiðina ætti að velja …“

Nefndin komst hins vegar að ágætri niðurstöðu á þessum tíma fyrir bráðum aldarfjórðungi og segir:

„Nefndin telur brýnt að mótuð verði samræmd stefna um stjórn á nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi sem skapi heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda. Reynt verði eftir föngum að beita hagrænum stjórntækjum á grundvelli vel skilgreinds eignar- eða afnotaréttar þar sem því verður við komið ásamt leiðréttandi sköttum og uppbótum þar sem það á við. …

Nefndin fjallaði um afnotarétt af auðlindinni og gjaldtökur fyrir hann. Meiri hlutinn taldi æskilegt að skýra betur þau réttindi“ — þetta er endurskoðunarnefnd frá árinu 2001, með leyfi forseta — „sem veiðiheimildirnar fælu í sér. Nefndin skoðaði ítarlega þá leið að gerðir yrðu nýtingarsamningar við rétthafa, sem og veiðigjaldsleiðina og fyrningarleiðina sem áður hefur verið lýst. Niðurstaða meiri hlutans var að leggja til að niðurstöðum auðlindanefndar“ — sem ég fjallaði um áðan — „yrði fylgt og að mörkuð yrði stefna fyrir greiðslu fyrir afnotaréttinn með hliðsjón af afkomu fiskveiða.“ — Ekki fyrirtækja, heldur afkomu fiskveiða.

„Nefndin lagði til að veiðigjaldið yrði tvískipt, annars vegar fastur hluti sem tæki mið af kostnaði ríkisins vegna stjórnar fiskveiða og hins vegar breytilegur hluti sem réðist af afkomu greinarinnar og er þetta ítarlega útfært í skýrslu nefndarinnar,“ þ.e. tvískipt fast gjald og rentugjald, nákvæmlega það sem fjallað er um í veiðigjaldalögunum og kveðið á um að sé gert sem hlutdeild af arðsemi í greininni en ekki einstakra fyrirtækja.

Um hvað fjallar þetta frumvarp og hver er afleiðing þess verði það að lögum óbreytt eins og stjórnarmeirihlutinn virðist ætla að keyra hér í gegn án þess að gera hina minnstu tilraun til að ræða við stjórnarandstöðuna eða taka tillit til umsagnaraðila? Ég ítreka að ekki ein einasta hugmynd af þessum 17 eða 18 fundum sem menn segjast hafa setið um þetta mál, og ég efast ekki um að þeir hafi allir verið yndislegir og skemmtilegir, sem þangað barst virðist hafa verið það verðug að hún verðskuldaði umfjöllun eða að vera tekin upp í þinginu. Mikið vita menn ef þeir eru svo óskeikulir að þeir geti lagt fram frumvarp af þessari stærðargráðu og þessu umfangi og hunsað allar ábendingar eins og þær leggja sig.

Pólitískur hroki einkennir þá sem slíkt gera. Það er kannski einkennandi fyrir það sem er að gerast í þinginu núna, það er pólitískur hroki í mörgum þeirra mála sem hér eru lögð fram, voru meðal annars til umræðu í morgun varðandi Ríkisútvarpið og hafa verið í umræðu varðandi önnur mál. Hlutirnir skulu bara gerðir samkvæmt annaðhvort fyrir fram ákveðinni hugmyndafræði, fyrir fram ákveðnum markmiðum, kannski af greiðasemi við einhverja sem ætluðust til að þeim væri gerður greiði. Hvaða hvatar sem það eru á ekki að taka tillit til umsagna eða umfjöllunar í nefndum þar sem ekki einu sinni er boðið upp á umræðu í þessu máli.

Þetta frumvarp felur það í sér að sérstakt veiðigjald, þ.e. renta af botnfisksveiðum, er þurrkað út. Það er tekið af. Það sem ég segi hérna segi ég ekki án þess að færa fyrir því einhver rök. Þau rök er meðal annars að finna í gögnum atvinnuveganefndar frá sérfræðingi sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið réð í vinnu til sín til að kanna afleiðingar af sínu eigin frumvarpi og áhrif þess. Þetta er niðurstaða sérfræðingsins. Hann segir gjaldið á botnfiski vera svo lágt að það þurrkist út, það hverfi, verði ekkert. Það þýðir að ekki er verið að borga neitt sérstakt veiðigjald af botnfisksveiðum, þ.e. fastagjaldi sem var upp á 9,50. Menn hafa jafnvel haldið því fram að það væri líka of hátt af því að menn sjá færi á því að geta farið með þetta neðar. Þá koma menn og segja: Þetta er líka of hátt.

Þeir athuga hvort ekki sé hægt að kveikja í einhverjum með það. Hver veit nema það gerist í umræðunni hér að menn falli í freistni og lækki það líka?

Það gjald er sem sagt algjörlega þurrkað út. Þetta er ekki eingöngu skoðun þessa sérfræðings sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið réð til að rýna sitt eigið frumvarp. Þetta kemur líka fram í gögnum veiðigjaldsnefndar sem hún lagði fyrir atvinnuveganefnd. Þar kemur þetta fram líka. Það kemur fram í fleiri umsögnum að þetta er afleiðingin. Þetta kostar 3,2 eða 3,4 milljarða á yfirstandandi ári og 6,2 á því næsta. Þetta eru áhrifin af því hvernig verið er að breyta gjaldinu og hverjar tekjurnar af því verða.

Það er ekki gerð minnsta tilraun til að skoða hvort sé möguleiki á að ræða einhverjar breytingar á þessu, hvort það sé rétt að gera þetta, hvort taka eigi tillit til umsagna, hvort ástæða sé til að ræða þetta eitthvað frekar. Það er heldur ekkert boðið upp á það.

Breytingartillögur minni hlutans miða að því að bregðast við þrem deilumálum sem hafa staðið um þetta veiðigjaldafrumvarp, um athugasemdir sem hafa komið um gildandi lög og athugasemdir sem hafa komið frá þeim sem var ætlað að reikna út veiðigjaldið, þ.e. veiðigjaldsnefndinni.

Breytingartillögur minni hlutans eru í þrem liðum. Í fyrsta lagi að tekjuskattslögum verði breytt í þá veru að veiðigjaldsnefndin hafi aðgang — og það sé hafið yfir allan vafa — að öllum þeim gögnum sem nefndin telur sig þurfa á að halda hjá ríkisskattstjóra til að geta reiknað út veiðigjöld. Þá væri búið að eyða því máli. Það var ekki mjög flókið. Það þarf að gera lagabreytingu í tekjuskattslögum til að eyða þessu máli.

Nú skulum við gefa okkur að þetta sé orðið of seint fyrst ekki var búið að opna á þessa heimild og veiðigjaldsnefndin hafi hreinlega ekki tíma til að bregðast við, kalla eftir gögnunum, vinna úr þeim og reikna út gjaldið því að það þarf að gerast eftir ekki marga daga. Ég tel líklegt að það sé staðreyndin.

Þá gerir minni hlutinn breytingartillögu til að koma til móts við þá gagnrýni á veiðigjöldin að þau leggist af meiri þunga á tilteknar stærðir af bátum og tiltekna tegund af útgerðarflokkum, að veiðigjaldið leggist þar á af of mikilli hörku. Þessar tilteknu útgerðir eiga í mestum erfiðleikum með að greiða veiðigjald, litlar og meðalstórar útgerðir í botnfisksveiðum með tiltölulega fáar fisktegundir í heimildir og geta ekki dreift veiðunum með sama hætti og stærri útgerðir sem hafa yfir fjölbreyttari heimildum að ráða. Hvernig gerum við það? Við hækkum það sem kallað er frímark, þ.e. þau tonn sem menn þurfa ekki að greiða sérstakt veiðigjald af, við hækkum þann hluta og meira en tvöföldum líka þann hluta sem menn geta greitt hálft gjald af. Við verðum með frímark upp í 50 þús. þorskígildi og af næstu 200 þús. þorskígildum borga menn bara helminginn af áætluðu sérstöku veiðigjaldi. Með þessu náum við til allra litlu og meðalstóru fyrirtækjanna sem talið er að hafi átt í erfiðleikum með að greiða veiðigjaldið.

Þetta sýna gögn sem fylgja nefndarálitinu okkar, útreikningar og töflur, þetta verður niðurstaðan verði breytingartillögur okkar samþykktar. Þetta er það sem við vildum kynna meiri hluta nefndarinnar en hann vildi ekki heyra.

Í þriðja lagi leggjum við til að sú lækkun í frumvarpinu á sérstöku botnfisksgjaldi sem var skotið niður í 7,38 kr. verði tekin til baka og gjaldið aftur fært upp í 23,20. Við teljum ekki bara að sú tala sé flott og fín til að hafa og eigi bara að vera svoleiðis — hún er reyndar í núgildandi lögum — heldur hafa umsagnaraðilar sagt okkur nákvæmlega þetta. Þetta er það sem þarf að gera. Það þarf að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir og fara með gjaldið aftur upp í 23,20. Þetta er ekkert mjög flókið.

Að öðru leyti getum við stutt þetta frumvarp og önnur ákvæði sem í því eru vegna þess að við erum tilbúin að skoða það. Við skoðuðum það og fórum yfir þau mál, m.a. gjaldið af uppsjávarfiski og sérstöku þorskígildin, af því að við erum tilbúin að ræða þau mál sem hingað koma í þeim tilgangi að ná utan um þau með einhverri sátt og samkomulagi um að afgreiða þau, ólíkt stjórnarmeirihlutanum sem baðst undan því að fá að sjá breytingartillögur minni hlutans, hvað þá að ræða þær með þetta í huga.

Með þessum hætti náum við utan um þær ábendingar sem okkur hafa borist frá því að veiðigjöldin komu á til dagsins í dag. Við náum utan um það, leysum málin, bæði tæknilega séð og að öðru leyti. Um þetta finnst mér að eigi að geta verið ágætissátt og samkomulag. Hugsið ykkur lætin sem voru fyrir rúmu ári í samfélaginu þegar flotinn sigldi í land og menn fóru í land niðri á Austurvelli til að mótmæla því að hér færi allt á hausinn eina ferðina enn ef eitthvað yrði gert. Þetta eru þá einu athugasemdirnar sem standa eftir. Það er ekki verið að afnema lögin. Nei, nei, þetta er það sem stendur eftir, lagfæringin sem þarf að gera er að opna fyrir veiðigjaldsnefndina til að ná í upplýsingarnar sínar og koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir með því að auka frímarkið hjá þeim. Þetta er þá allt og sumt en var kallað að ætti að setja allt á hausinn fyrir rúmu ári. En menn eru ekki tilbúnir í þetta.

Hvers vegna það er veit ég ekki. Það eru engin rök fyrir því, engin slík gögn hafa borist atvinnuveganefnd. Það hefur ekki fengist rætt við stjórnarmeirihlutann, hvorki í atvinnuveganefnd né hér (Forseti hringir.) hvers vegna í ósköpunum þetta er. Af hverju taka menn ekki rökum og tillit til umsagna fyrst verið er að kalla eftir þeim?