142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

stofnun og tilgangur ríkisolíufélags.

10. mál
[12:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég var ekkert órólegur yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli en hins vegar get ég viðurkennt að það róar allmjög sál mína að vita að hæstv. ráðherra lýsir því yfir að ekki sé um að ræða neina stefnubreytingu frá því sem mótað var af fyrri ríkisstjórnum í þessum efnum.

Ég er fullkomlega sáttur við þessi svör hæstv. ráðherra. Það er kannski dálítil írónía í því að ég, gamall radíkal og kommi, skuli vera mjög sammála ráðherra Sjálfstæðisflokks um það að ein af forsendum þess að við getum nýtt íslenska olíu sé að stofna ríkiseinokunarfélag. En við áttum þá eftir að fallast í faðma af hugmyndafræðilegum ástæðum eftir allt saman.

Það sem ég vil brýna fyrir ráðherranum og það sem ég tel að sé mikilvægast í málinu núna er að halda áfram þeim viðræðum sem hafa verið við nágrannaríkin, Noreg og Grænland, um að miðstöð þjónustu við öll olíusvæði norðan Íslands verði á Íslandi. Það er ekki hægt að veita neina þjónustu við leit við fyrirhuguð svæði út af Norðaustur-Grænlandi og hægt er að færa sterk náttúruverndarrök fyrir því að miklu heppilegra væri, ef unnin verður olía á miðlínunni, að sinna þjónustunni frá Íslandi en annars staðar frá. Ég tel að fyrstu verðmætin sem Íslendingar munu öðlast af leitinni verði í krafti þjónustunnar. Við sjáum í Færeyjum hvernig þar, án þess að nokkur dropi af olíu hafi fundist, hefur sprottið upp margvíslegur iðnaður sem hefur sótt út fyrir Færeyjar sem þjónustar olíusvæði og veitir Færeyingum fast að 10 milljörðum árlega í tekjur. Á Íslandi ef þrjú leitarsvæði yrðu, Noregsmegin, á Drekasvæðinu og út af Norðaustur-Grænlandi, er alveg klárt að í kringum þau gæti sprottið iðnaður sem gæti veitt kannski tugmilljarða á hverju ári inn í íslenskt samfélag, þó að ekki sé nein olía.