142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

stofnun og tilgangur ríkisolíufélags.

10. mál
[12:14]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er gott að hv. þingmaður er rólegur yfir þessu öllu saman. Það þarf svo sem ekki að koma honum svo mikið á óvart að við skulum vera sammála um þetta. Ég minni á, Samfylkingin virðist nú stundum gleyma því, að við vorum saman í ríkisstjórn árið 2008 þegar hv. þingmaður, þáverandi hæstv. ráðherra, flutti umrætt frumvarp. Það hefur væntanlega farið í gegnum báða stjórnarflokkana á þeim tíma þannig að hv. þingmaður þarf ekki að undrast að sú sem hér stendur sé sammála þeirri stefnu sem þar var mörkuð.

Að öllu þessu sögðu er ánægjulegt að heyra að við séum sammála um það, að minnsta kosti við tvö sem hér eigum orðaskipti, að málið sé þannig vaxið að við þurfum að gæta íslenskra hagsmuna og það eru þeir sem ég tel að við þurfum öll að sameinast um að fara fyrir og það er ánægjulegt að við höfum tíma fyrir okkur eins og ég rakti áðan í ræðu minni. Við getum og það er ætlan ríkisstjórnarinnar að standa þannig að málum að við viðum að okkur þekkingu, við byggjum upp reynslu og getu innan stjórnsýslunnar til að takast á við þetta gríðarlega mikilvæga verkefni sem er að vísu dálítið inni í framtíðinni enn þá. Þetta tekur allt sinn tíma en það er líka ágætt. Þá getum við vandað okkur og gert þetta þannig úr garði að þegar til þess kemur að fara að taka ákvarðanir um vinnsluna og hvernig henni verður háttað erum við búin að undirbyggja málið vel. Ég fagna því að svo virðist vera að samstaða sé milli mín og hv. þingmanns um það mál.