142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

verðtryggð námslán.

13. mál
[12:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í umræðuna og gera stutta athugasemd sem heimilt er samkvæmt þingsköpum.

Það kemur mér satt að segja á óvart að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skuli í raun og veru ætla að kasta því máli sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur gert að umtalsefni inn í framtíðina með þeim hætti sem hann gerir í svari sínu. Auðvitað urðu það mikil vonbrigði fyrir marga, kom okkur í núverandi stjórnarandstöðu kannski ekki mikið á óvart en það urðu örugglega vonbrigði fyrir marga úti í samfélaginu að í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð var fyrir þingið, þar sem ríkisstjórnin fór fram á að þingið fæli ríkisstjórninni að undirbúa alls konar aðgerðir í þágu heimilanna, skuli ekki vera tekið á því máli sem hér er vakið máls á.

Ef jafnræðisreglan á að vera í heiðri höfð þá verða námsmenn að vera í þessum hópi og þess vegna er ekki um annað að ræða en að brýna hæstv. ráðherra og spyrja hvort hann muni í öllu falli ekki beita sér fyrir því að mál þeirra verði tekin sömu tökum og önnur mál sem varða leiðréttingu á verðtryggðum lánum.