142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

verðtryggð námslán.

13. mál
[12:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni fyrir umræðurnar. Ég þakka svörin frá hæstv. ráðherra en ég harma það að hann sé ekki afdráttarlausari í því að sama gildi um verðtryggð námslán heimilanna og húsnæðislán heimilanna. Í ljósi jafnræðis er fráleitt að ráðherrann gangi ekki fram fyrir skjöldu til að verja umbjóðendur sína eða þá sem eru með námslán og heyra undir ráðuneyti hans til að tryggja að engin mismunun verði þar á ferðinni en dálítið óljós skilaboð hafa komið varðandi námslánin og hlaupið í og úr. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir.

Fjöldi stétta er með margra ára háskólanám að baki en með meðaltekjur, til dæmis hjúkrunarfræðingar og kennarar. Svo ber líka að líta til þess að námslán vegna skólagjalda á Íslandi hófust á þessari öld og það er því fjöldi íslenskra heimila sem greiðir niður rekstur háskóla með tekjum sínum út starfsævina. Ég vil vinsamlegast benda ráðherra á að það verður aldrei fallist á að hægt verði að færa niður sum verðtryggð lán og önnur ekki.

Ég er ánægð með að hann ætlar að ræða við stjórn lánasjóðsins varðandi útfærslur á þessu og tel að hann eigi að gera það nú þegar sé ríkisstjórninni í raun og veru alvara með fyrirætlunum sínum gagnvart skuldugum heimilum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hafa fullt samráð við hagsmunasamtök sem að þessu máli koma varðandi slíka niðurfærslu.