142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

framtíð Fisktækniskóla Íslands.

23. mál
[12:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hér og þakka fyrir og fagna því að umræðan sé komin hingað og að málið sé komið á borð hæstv. menntamálaráðherra. Ég er ánægður að heyra að hann skilur mikilvægi verkefnisins því að verkefnið er mjög mikilvægt. Ég veit að stjórnendur Fisktækniskólans í dag leggja mikla áherslu á sjálfstæði sitt til þess að geta tryggt eðlilega framþróun og að hafa þetta sem öflugast.

Það ánægjulegasta er að þarna kemur atvinnuvegurinn að þessu líka. Hann kemur að því með mjög mikinn bæði fjárstuðning og faglegan stuðning og hjálpar verkefninu áfram. Það sýnir hversu mikilvægt verkefnið er og hvað það getur skilað miklum árangri. Ég vil segja að lokum að það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með Fisktækniskólanum þann tíma sem hann hefur starfað og þá sér maður alveg hversu mikilvægt verkefnið er og við skulum sameinast um að tryggja því framgang.