142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

framtíð Fisktækniskóla Íslands.

23. mál
[12:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála þeim tveimur hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls undir þessari fyrirspurn hv. þm. Páls Vals Björnssonar. Ég tel að þörf sé á þessum skóla og mér sýnist að uppleggið sé akkúrat það sem menn eins og ég og hæstv. menntamálaráðherra hafa verið að kalla eftir, að atvinnulífið komi með nokkuð drjúgum krafti að þessu máli.

Ég skil fullkomlega að hæstv. ráðherra hafi ekki á örskömmum tíma sínum í embætti mótað stefnu í þeim málum en verð að segja að mér finnast svör hans ekki lofa góðu. Hæstv. ráðherra tekur skýrt fram að hann sé fullur efasemda um að hægt sé að lyfta þessum skóla upp á stig framhaldsskólans. Sömuleiðis sýnist mér á hæstv. ráðherra að ólíklegt sé að ráðuneytið telji það fararinnar virði að gera samkomulag um áframhaldandi stuðning við skólann.

Þess vegna langar mig til þess að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann telji ekki þörf á því að leggja fram (Forseti hringir.) þingsályktunartillögu um menntun á sviði fiskvinnslunnar. Ég tel brýnt að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hreinsi loftið með því að skýra framhaldið þegar við komum aftur saman í haust.