142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

ályktun Evrópuráðsins og landsdómur.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það mun gefast nægur tími til að fara yfir tæknilegar hliðar þessa máls; hvernig stjórnarskrárákvæðið á að taka breytingum, hvernig við eigum að breyta öðrum lagaákvæðum sem um þetta fjalla. Á þessum tímapunkti, eftir ályktun Evrópuráðsins, er hins vegar aðalatriðið fyrir okkur í þinginu að heyra skilaboðin um að Evrópuráðinu þyki eitthvað hafa farið úrskeiðis, að menn hlusti eftir því að fólki finnist það fyrirkomulag sem menn störfuðu eftir á síðasta kjörtímabili, sem leiddu á endanum til útgáfu ákæru og síðan til meðferðar málsins fyrir landsdómi, vera algjörlega á skjön við nútímamannréttindi. Það líki því við dæmi í öðrum löndum sem við mundum meira að segja sjálf í þessum sal horfa til sem einungis fjarlægs möguleika á Íslandi á þessari öld. Það er mikið meginatriði og við eigum að ræða um hvernig við eigum að taka (Forseti hringir.) þau skilaboð til okkar og vinna með þau.