142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

njósnir Bandaríkjamanna í Evrópu.

[15:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Fréttir hafa verið að berast hingað í fjölmiðlum um njósnamál og hafa verið gerðar athugasemdir við það að bandarísk yfirvöld hafi staðið fyrir njósnum í ýmsum Evrópuríkjum. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna lætur hafa það eftir sér nú nýlega að slíkar njósnir og njósnastarfsemi um bandamenn séu ekki óvenjulegar eða óeðlilegar í alþjóðasamskiptum.

Ég tel að það sé mikið alvörumál ef þetta er rétt, sem það væntanlega er, vegna þess að enginn forsvarsmaður bandarískra stjórnvalda hefur í raun haldið öðru fram og mér finnst mikilvægt að við tökum þetta líka til umfjöllunar hér á landi. Þetta tengist meðal annars málefni Edwards Snowdens sem hefur komið til umræðu hér á Alþingi nýlega. Mér finnst mikilvægt að við ræðum þetta líka að því er varðar samskipti okkar við þau ríki sem hér eiga hlut að máli.

Ég vil þess vegna inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hvort honum sé kunnugt um að bandarísk stjórnvöld hafi njósnað um íslenska aðila, þar með talið stjórnvöld og stjórnmálamenn hér á landi. Og hvort utanríkisráðherra sé reiðubúinn til að krefja bandarísk stjórnvöld um upplýsingar um hugsanlegar njósnir sem beinst hafa að Íslandi. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé sammála því mati bandarísks starfsfélaga síns að njósnir um bandamenn séu ekki óeðlilegar í alþjóðasamskiptum og hvort hæstv. utanríkisráðherra sé reiðubúinn að láta fara fram rannsókn á hugsanlegum njósnum gagnvart íslenskum aðilum.