142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

njósnir Bandaríkjamanna í Evrópu.

[15:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir hreinskiptin svör hvað þetta snertir. Mér finnst mikilvægt að fram komi hjá ráðherranum að þegar hafi verið haft samband, utanríkisþjónustan hafi verið notuð til að hafa samband við bandarísk stjórnvöld. Mér finnst hins vegar áríðandi að menn tali enga tæpitungu í því efni og bandarísk stjórnvöld séu krafin skýrra svara um hvort slík njósnastarfsemi gagnvart íslenskum aðilum hafi átt sér stað. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að gera það.

Ég heyri líka að hæstv. utanríkisráðherra er ekki sammála leiðarahöfundi Morgunblaðsins í dag sem finnst það bara gott á njósnarana að hafa þurft að hlusta á það sem talað er í höfuðstöðvum Evrópusambandsins. Hæstv. utanríkisráðherra lítur það greinilega alvarlegum augum og það er ágætt. Ég vil líka að lokum spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvaða áhrif hann telur, ef þetta reynist nú rétt sem ég tel að sé talsverður fótur fyrir, að slíkar njósnir kynnu að hafa á samskipti ríkjanna.