142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:21]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir góð svör. Það vekur ánægju mína að þessi fundur skuli fara fram á eftir og ég bind vonir við að þetta verði rætt þar.

Ég vil hins vegar bregðast við því sem kom fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Þrátt fyrir að verið sé að gera breytingar, færa frá því sem er núna og yfir í það sem var áður, eru það ekki endilega rök í sjálfu sér. Væntanlega breyttum við úr því sem var áður í eitthvað annað af því að það var ekki gott.

Annað sem ég vil benda á er að mér finnst ekki heldur vera mikil rök í málinu að segja að þetta sé sambærilegt á Norðurlöndum, bæði vegna þess að þar er yfirleitt um að ræða styrk en ekki lán og vegna þess að þar eru aðstæður til dæmis fatlaðs fólks mun betri hvað varðar aðstoð. Þar hefur verið náð lengra í einstaklingsmiðuðu námi og auk þess er betur staðið að greiðslum til foreldra fatlaðra barna eða langveikra barna sem þurfa að vera mikið heima til að sinna þeim. Þarna eru ekki sambærilegar aðstæður fyrir hendi.