142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

[15:29]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ábendingarnar og get fullvissað hann um að það er einmitt ætlun þeirrar sem hér stendur að viðhafa gott samstarf, ekki bara við aðila innan opinbera geirans heldur einnig innan greinarinnar sjálfrar við þær ákvörðunartökur sem fram undan eru í málaflokknum.

Eitt af því sem hv. þingmaður nefndi og ég get rætt frekar hér er sú gagnrýni sem hefur lengi verið innan greinarinnar að á skorti rannsóknir um hvers konar ferðamenn koma hingað, hverju þeir sækjast eftir, hvaða fjármunum þeir verja hér og hversu miklar tekjurnar eru sem við höfum af greininni. Við höfum rætt þetta upp á síðkastið og ég get upplýst að ætlunin er að styrkja slíkar rannsóknir sem eru jú svo aftur grundvöllur þess að við getum tekið skynsamlegar og góðar ákvarðanir í framtíðinni.