142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

aflandsreikningar og skatteftirlit.

[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Æ meiri áhersla er lögð á skattskil og hert skatteftirlit bæði hér og erlendis. Þannig hafa helstu leiðtogar heims skorið upp herör gegn skattsvikum á svokölluðum aflandseyjum og nýlega hefur hópur erlendra rannsóknarblaðamanna komist yfir gríðarlegt magn af upplýsingum um bankareikninga og félög á svokölluðum aflandseyjum sem við höfum lesið um í fréttum síðustu vikur og mánuði.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ástæðu til þess að ætla að í þeim upplýsingum sé eitthvað að finna um íslenska aðila og hvort hann hafi gert ráðstafanir til þess að við Íslendingar fáum aðgang að þessum upplýsingum. Ég geng út frá því að það sé forgangsatriði hjá ríkisstjórninni að taka fast á skattsvikum í gegnum aflandseyjafélög og aflandseyjareikninga og vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin muni halda áfram að efla skatteftirlit og setja aukna fjármuni til þess á næsta ári. Það geri ég vegna þess að ég veit að hæstv. fjármálaráðherra situr við erfiða forgangsröðun í fjárlagagerðinni einmitt um þessar mundir og vil bara minna á að hver króna sem við verjum í hert skatteftirlit er ekki útgjöld. Hver króna skilar margfalt fleiri krónum í tekjur því að svo árangursríkt er það að verja meiri fjármunum í skatteftirlit að alþjóðlegar rannsóknir sýna ítrekað að það er fjárfesting sem borgar sig hratt, vel og örugglega. Ég vil inna hæstv. fjármálaráðherra um leið eftir því hvort hann ætli ekki að halda áfram að efla skatteftirlitið og setja meiri fjármuni til ráðstöfunar þar.