142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:46]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir athugasemdirnar. Það er rétt, þetta eru vandkvæði. Ég kalla þetta vandkvæði, ég vona að ekki sé um opið beinbrot að ræða heldur einungis vandkvæði sem einmitt hægt er að laga. Og það eru tillögur fyrirliggjandi um hvernig á að laga þetta. Hv. þingmaður segir að ekki hafi verið hægt að innheimta samkvæmt lögunum. Það væri hægt ef þetta yrði lagað eins og lagt er til í áliti minni hlutans og ekki er vandamál með það. Opin beinbrot má græða eins og hver önnur beinbrot. Þannig er það nú bara.

Hvað varðar 100 milljarðana greip ég það nú einungis úr ræðu hv. þm. Helga Hjörvars sem talaði um 100 þús. milljónir sem ég geri ráð fyrir að séu þá 100 milljarðar. Hann nefndi þá tölu og ég greip hana á lofti, hef hana því ekki dýrari en ég keypti hana frá hv. þm. Helga Hjörvari.

75% fyrirtækja munu standa undir veiðigjaldinu, hinu sérstaka veiðigjaldi. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson nefnir að breytingin á álagningunni muni ekki duga hinum smæstu. Það er gott að heyra það og gott þá að heyra rök fyrir því vegna þess að það tilheyrir efnislegri umræðu um málið sem hefur ekki farið fram. Tillaga minni hlutans snýr einmitt að því að leggja fram eitthvað um það hvernig má laga hið opna beinbrot sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talar um og ef hv. þingmaður metur það sem svo að þetta dugi ekki til þá má einmitt ræða það að hve miklu leyti, hvernig og hvað hann hefur fyrir sér í því, í staðinn fyrir að slá af veiðigjaldið.