142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér fer fram mjög ítarleg og efnismikil umræða um efni frumvarpsins og er ýmislegt sem kemur fram þar mjög fróðlegt. Reyndar væri hægt að endurtaka meira eða minna allt sem svokallaður minni hluti hefur sagt og það sem svokallaður meiri hluti hefur sagt aftur og aftur. Það sem er kannski áhugaverðast við alla umræðuna er að hún á sér stað í ákveðnu lýðræðislegu tómarúmi. Hún fer fram án tillits til þess hvað það er sem þjóðinni sjálfri finnst.

Það er nefnilega ekki svo að kvótamál og veiðigjaldamál séu ný af nálinni. Þetta er margra áratuga gamalt bitbein íslensku þjóðarinnar og það lítur ekki út fyrir að það lagist mikið í bráð ef vinnubrögðin halda áfram að vera eins og þau hafa verið síðastliðna áratugi eða jafnvel lengur. Dæmi hver fyrir sig. En það er lýðræðisleg umræða í gangi í samfélaginu á meðal þjóðarinnar, ekki bara í netheimum heldur líka í kaffistofunum og heima í stofunni hjá fólki, við eldhúsborðið, og þessi umræða hefur átt sér stað áratugum saman. Það er ekkert nýtt, það er alls ekkert nýtt.

Eins og staðan er í dag eru 34 þúsund Íslendingar búnir að skrifa undir mótmæli gegn þessu frumvarpi. Það er meira en var skrifað undir gegn hinu svokallaða fjölmiðlafrumvarpi eða fjölmiðlalögum sem forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði að skrifa undir, sem í þá daga hefði í kenningunni knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu en gerði ekki vegna þess að ríkisstjórnin tók frumvarpið til baka. Það áhugaverða við þá tíma, þegar það leit út fyrir það í nokkra daga eða vikur, eða hvað það var, að þjóðin fengi í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins að ákveða sjálf framvindu laga sem hefðu verið samþykkt á Alþingi var að það átti sér stað ítarlegri, og ég segi betri, umræða en nokkru sinni fyrr um þau lög. Þar áður einkenndist umræðan fyrst og fremst af upphrópunum og ásökunum hingað og þangað og óljósum fréttatilkynningum frá hinum og þessum um hvernig þetta væri, árás á lýðræðið eða til að bjarga lýðræðinu eða hvaðeina.

Þegar fólk, venjulegt ókjörið fólk sem lifir sínu venjulega lífi fékk skyndilega þá hugmynd í kollinn, klikkaða nýstárlega hugmynd, að það sjálft hefði meira en einn bókstaf á fjögurra ára fresti að segja um gang mála þá fór það skyndilega að hugsa miklu meira, það fór að lesa meira, taka þátt í mun skipulagðari, þroskaðri, og eins og ég segi ítrekað, betri umræðu. Þannig verða lýðræðisumbætur til. Þótt núverandi ríkisstjórnarflokkar, og kannski ríkisstjórnarflokkar almennt, treysti þjóðinni allra síst fyrir eigin ákvörðunum eru talsvert góðar ástæður fyrir því að það lítur oft svo út að þjóðin hafi ekki vit á neinu. Það er vegna þess að hún ber ekki beina ábyrgð á neinu sem er gert af Alþingi okkar nema með þessum eina bókstaf á fjögurra ára fresti.

Með þeim eina bókstaf á fjögurra ára fresti finnst ríkisstjórnarflokkum gjarnan gaman að nefna að þau hafi heimild, þau hafi umboð þjóðarinnar og geti þar af leiðandi gert, að því er virðist, meira eða minna það sem þeim sýnist. En ég er kominn með annað umboð. Það hefur nefnilega margsinnis verið spurt í þjóðfélaginu hvað þjóðinni finnist sjálfri, ekki bara um þessa ríkisstjórn og ekki bara um þessa svokölluðu stjórnarandstöðu heldur þetta mál, þetta frumvarp. Samkvæmt fjölmiðlum eru 70% þjóðarinnar, ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, á móti þessu tiltekna frumvarpi.

Ef hv. þingmenn hafa góð rök, og sumir hafa allt í lagi rök, alla vega rök sem eru þess virði að íhuga og tala ítarlega og lengi um, ættu þeir sömu hv. þingmenn ekki að veigra sér við því að taka þátt í þeirri umræðu í fjölmiðlum með það að leiðarljósi að þeir þurfi ekki að sannfæra þá þingmenn sem sitja hér inni, og hvað þá þingmenn sem sitja ekki hér inni, heldur þjóðina sjálfa sem á þetta land og náttúruauðlindir þess.

Það er ekki þannig með okkur pírata að við séum endilega með sterka efnislega stöðu í þessu tiltekna frumvarpi en við stöndum ótvírætt með sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar og frá okkar bæjardyrum séð snýst þetta aðallega um það. Auðvitað er óþægilegt þegar það er um 30–40 milljarða kr. halli eða hvað það er. Hvernig svo sem það er reiknað út og á hvaða grundvelli er mjög greinilega um tekjumissi að ræða, um það virðist ekki vera mjög hart deilt. Mér finnst það persónulega svolítið eins og að fá lán fyrir fjárfestingum, mér finnst það tiltölulega óábyrgt svo ekki sé meira sagt, en því miður tiltölulega dæmigert líka. Eins og ég segi er það eitt af þeim efnislegu atriðum sem væri alveg þess virði að ræða.

Þegar sagt er við mig að einhver lög virki ekki þá hlusta ég nokkuð vel vegna þess að það er til ofboðslega mikið af lögum sem virka ekki. Sum lög eru sett fram í góðum tilgangi en hafa jafnvel þveröfug áhrif. Að mínu mati er eitt fullkomnasta dæmið um það fíkniefnastefnan sem er ætlað að draga úr neyslu, draga úr misnotkun og draga úr mannlegri þjáningu en gerir lítið annað en þveröfugt. Sem betur fer eru önnur úrræði í þjóðfélaginu til þess að taka á þeim tiltekna vanda, en meira um það á haustþingi.

Afsökunin fyrir þessu frumvarpi — og ég ætla að nota orðið afsökun — er tvíþætt, virðist vera tvíþætt, sem mér finnst svolítið sérstakt. Það er annars vegar það að ekki sé hægt að framfylgja þessum lögum eða að meta gjöldin rétt. Eins og svokallaður minni hluti hefur margítrekað bent á, og jafnvel sett fram hugmyndir um hvernig megi laga þetta, er hægt að laga það. Það hefði verið aðeins trúverðugra ef ríkisstjórnin hefði sett fram frumvarp sem miðaði að því að laga það tiltekna vandamál. Enn sem komið er hef ég ekki heyrt hvernig það á að vera svo óyfirstíganlegt að ekki sé hægt að klára það frekar hratt á sumarþingi.

Hin afsökunin sem er notuð er sú að við megum ekki leggja of mikið á útgerðina. Á sama tíma er algjörlega óumdeilt að útgerðin stendur sig vel og mun hafa það jafnvel enn þá betra í framtíðinni. Þetta minnir mann óneitanlega á blessað virðisaukaskattsmálið þegar kom að gistiþjónustu í ferðamannaiðnaðinum, mjög undarleg forgangsröðun, eins og er svo oft sagt í þessu ágæta háttvirta púlti.

Ef við tökum ekki tillit til lýðræðisins þegar við tökum þessar ákvarðanir getum við ekki sagt að við höfum einhvers konar umboð. Við höfum umboð til þess að þjóna vilja þjóðarinnar. Það er eins með börn og með þjóðir að ef þær fá ekki að læra af mistökum sínum munu þær aldrei læra af mistökum sínum. Ef það að fella þetta frumvarp í þjóðaratkvæðagreiðslu eru mistök sem munu leiða af sér engin gjöld eða sérstök gjöld, látum það bara vera þannig, hefur þjóðin kannski lært eitthvað. Næst þegar við spyrjum þjóðina um hennar eigin málefni, það sem henni kemur helst við, hennar eignarrétt, hefur ef til vill myndast betri umræða eins og gerist, ég vil meina undantekningarlaust, þegar þjóðinni er gefið leyfi til að taka eigin ákvarðanir á eigin forsendum. Það stendur alltaf eftir að stjórnarflokkunum virðist finnast gjörsamlega óhugsandi að rökstyðja mál sitt fyrir þjóðinni.

Ímyndum okkur í smástund að þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, að forseti lýðveldisins væri á landinu, sem við höfum því miður ekki fengið tæmandi upplýsingar um enn þá með tilheyrandi afleiðingum, og hann neitaði að skrifa undir lögin, ímyndum okkur þær aðstæður í smástund. Hvað væri það fyrsta sem mundi gerast? Ég get sagt ykkur að háttvirtur Egill Helgason mundi kalla til sín sérfræðinga, það kæmu fram gröf í litum og alls konar kökurit og pælingar og hugmyndir o.s.frv. Fólk mundi tala miklu meira um þetta í staðinn fyrir að kenna einfaldlega okkur hv. þingmönnum um allt sem miður fer og gleyma að þakka okkur fyrir nokkurn skapaðan hlut, eins og er eðlilegt undir þessum tilteknu lýðræðislegu kringumstæðum, þ.e. þessum vondu lýðræðislegu kringumstæðum.

Það er nefnilega þannig með lýðræði Íslands að þótt hér sé meiri hluti kjörinn til ríkisstjórnar hefur meiri hlutinn líka forseta Alþingis, hæstv. virðulegan forseta Alþingis, og hefur því 60% þings í reynd 100% valdsins. Því er afskaplega kaldhæðnislegt að hlusta á stjórnarliða hverju sinni tala um að það verði að setja lýðræðinu mörk vegna þess að annars sé hætta á kúgun meiri hlutans yfir minni hlutanum. Þau rök endurspeglast hvergi betur en í nákvæmlega því fyrirkomulagi sem við höfum hér. Til þess að laga það mætti kannski gefa hinum svokallaða minni hluta aðeins meiri völd, þ.e. að breyta frá því fyrirkomulagi að 60% þingmanna hafi í reynd 100% valdsins. Minni hlutinn hefur afskaplega lítið að segja og þessi 60% gera það sem þeim sýnist gagnvart þessum 40% og jafnvel gagnvart 70% þjóðarinnar ef út í það er farið, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum þegar kemur að þessu frumvarpi.

Þær aðferðir sem minni hlutinn neyðist — og ég vil undirstrika neyðist — til að nota til þess að tryggja framgang lýðræðisins, ættu ekki að heita lýðræðisleg vinnubrögð. Það sorglega, það virkilega sorglega við fyrirskipunina eins og hún er í dag er að nauðsyn er á þeim og það hryggir þann sem hér stendur meira en ég get í raun og veru lýst. Mér er illa við að nota orðið sem við vitum öll að ég er að tala um vegna þess að mér finnst það ljótt orð, mér finnst það leiðinlegt tól og mér finnst ömurlegast við þetta allt að það sé það eina sem við höfum til þess að reyna að gera hlutina aðeins lýðræðislegri hér, kaldhæðnislegt nokk.

Um leið og það væri á hreinu að forseti lýðveldisins væri hér á landi til þess að annaðhvort að skrifa undir þetta frumvarp eða skrifa ekki undir það, væri mun auðveldara fyrir þann sem hér stendur að þegja, leyfa málinu að ganga sinn gang og væntanlega, ef marka má orð hæstv. forseta lýðveldisins, færi þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá væri ekkert að tala um hér, ekki lengur. Við höfum sagt margsinnis, ítrekað, æ ofan í æ, allt sem segja þarf um málið. Það er búið að tala um samþjöppun á markaðnum. Persónulega finnst mér það allt í lagi rök, það er eitthvað sem ég mundi vilja eiga við ekki bara aðra þingmenn heldur við aðra borgara á kaffihúsum, í matarhléinu, í skólanum, í vinnunni, í lýðræðislegri umræðu, í sjónvarpinu, á Facebook og svo framar og svo víðar. En það er ekki hægt, það er víst ekki hægt nema auðvitað með þeim aðferðum sem mig langar helst ekki að nefna á nafn.

Yfirvöld ættu ekkert að vera hissa á því að frumvarpið sé mjög umdeilt. Jafnvel þótt yfirvöld telji sig hafa mjög góð rök, svo sem samþjöppun á markaðnum eða að þeir sem verst standa muni ekki þola þessar hækkanir — þótt mér skiljist reyndar að það séu helst þeir sem eru of skuldsettir, sem eru þá væntanlega ekki í það góðri stöðu hvort eð er, það munar litlu um að fara á hausinn einu sinni og tvisvar á sama tíma — verður ekki hjá því litið að þetta er margra áratuga deila. Það hefði alveg verið hægt að gera þetta með aðeins siðmenntaðri hætti. Það hefði til dæmis verið hægt að bjóða fram lagfæringar, eins og hefur ítrekað verið bent á, á upplýsingasöfnun þannig að þær upplýsingar lægju fyrir sem þarf til þess að ákvarða gjöldin. Það hefði verið hægt að gera en það var ekki gert. Það hefði líka verið hægt að búa þannig um, væntanlega tímabundið eins og það á víst allt að vera, og tryggja með einhverjum hætti að ríkissjóður yrði ekki af þessum tekjum með því að taka hærri gjöld af öðrum aðilum eða eitthvað í þeim dúr.

Sjáið til, hv. þingmenn. Það eru ekki breytingarnar á aðferðunum sem fólk, sem 34 þúsund manns hafa skrifað undir gegn, sem 70% þjóðarinnar telja sig vera á móti, er að mótmæla. Fólk er að mótmæla því að það vanti 6,4 milljarða í fjárlög 2014 samkvæmt rekstrargrundvelli og 3,2 milljarða núna í ár. Því er fólk að mótmæla. Ef það hefði verið komið til móts við það við gerð frumvarpsins þyrftum við ekki að standa hér, að því er virðist dögunum saman, að rífast um eitthvað sem á hvort sem er heima í dómi þjóðarinnar. Þess í stað þurfum við að vera hér og rífast um þetta fram og til baka, alla vega nokkur okkar, þegar það eina sem þurfti var í raun og veru að höfundar frumvarpsins hefðu hugsað með sér, háttvirtir höfundar frumvarpsins — eða hæstvirtir, hver veit — að hugsanlega gæti það þurft að fara fyrir dóm þjóðarinnar.

Hvað ef yfirvöld þyrftu í hvert sinn sem þau semdu frumvarp, að hugsa með sér: Hvað ef forsetinn segir nei? Hvað ef við þurfum að rökstyðja það fyrir alþýðunni? Ég get skilið að það sé kannski svolítið erfitt með þetta frumvarp með hliðsjón af því að þetta er lækkun í reynd, í leynd, ef við tölum tæpitungulaust er þetta lækkun á veiðigjöldum. En kannski hefði það verið hannað betur, kannski hefði einhver á þessum fundi eða fundum hugsað með sér: Er ef til vill leið til þess að laga vandamálin, að reyna að ná einhverri sátt án þess að 70% þjóðarinnar séu á móti því, án þess að 34 þúsund manns skrifi undir sem andvíg því? Ég held nefnilega að það hefði alveg verið hægt. Sum þessi rök — ég vil ekki vera of vondur við hæstv. ríkisstjórn — sum þeirra finnst mér persónulega pínulítið sannfærandi. Ég vil ekki samþjöppun á markaðnum, það virðist vera samhugur um það, enginn virðist vilja það og það er gott vegna þess að samþjöppun á markaðnum er slæm. Sömuleiðis eru skuldsettu fyrirtækin eitthvað sem væri gaman að skoða betur o.s.frv. Það er ekki það sem þjóðin er á móti því að skoða, það er ekki það sem þjóðin mundi vera að rífast um heldur þessi lækkun vegna þess, enn og aftur, að þetta er margra áratuga deila og hún fer ekki neitt með þessu áframhaldi, hún verður áfram hérna.

Það er títtnefnt á meðal sumra hv. þingmanna að hér sé talað um veiðimenn sem glæpamenn og lögbrjóta en það þarf auðvitað ekki að brjóta lögin ef lögin eru ekki til staðar til að byrja með, fyrir utan það að ég hef ekki heyrt hv. þingmenn tala svona. Kannski er ég ekki að fylgjast með, það getur verið. Sum þessara raka sem koma með öðrum hluta réttlætingarinnar, nefnilega þeim að við verðum að passa að setja ekki of mikið á útgerðina, standast ekki. Það er allt í blóma í útgerðinni og með réttu, það er frábært og allir eru rosalega ánægðir með það. Það þýðir að á sama tíma er ekki hægt að segja: Við erum að skattleggja allt of mikið, pössum okkur því að annars fer allt á annan endann. Það er samhugur um að það fer ekkert allt á annan endann, þessi grein ræður vel við þetta, sem er gott, það er frábært. Ég er sammála hv. þingmönnum um að því beri vissulega að fagna. Við skulum þó ekki gleyma þessu margra áratuga bitbeini, við skulum ekki gleyma því að við þurfum einhvern veginn að ná sátt.

Það að lækka veiðigjöld, sem hluta af sumarþingi í þokkabót, er ekki leið í átt að sátt, það er bara ekki þannig. Það sama gildir um fiskverðið, það virðist enginn ágreiningur vera um að fiskverð mun hækka í framtíðinni, sem er frábært og gott, alla vega fyrir okkur núna, við sjáum að vísu til hvort það verður til frambúðar. Það eru einfaldlega ekki þau teikn á lofti að þessi gjöld muni verða útgerðinni um of, það er einfaldlega ekki svo.

Það var nefnt í fyrri ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar að ekki þurfi endilega að vera himinn og haf á milli fólks í þessu sem ég tek heils hugar undir, það þarf ekki. Ef höfundar frumvarpsins hefðu hugsað með sér að þetta gæti endað í þjóðaratkvæðagreiðslu og þau gætu þurft að sitja fyrir framan Egil Helgason og útskýra það þannig að þjóðin tæki mark á hefðu þau kannski skrifað annað frumvarp sem væri snyrtilegra og ekki jafn auðvelt að vera á móti. Það er mjög auðvelt að vera á móti þessu frumvarpi, sérstaklega með hliðsjón af fjárlagahallanum sem er umtalsverður og ætti eiginlega að vera forgangsatriði. Það skiptir svolítið miklu máli í því sambandi að þungamiðja deilunnar er lækkandi tekjur ríkisins sem afleiðing af þessu frumvarpi. Það er það sem fólk er svona óánægt með.

Undir þeim kringumstæðum þegar kvartað er með réttu, aftur og aftur, yfir því að ríkissjóður standi ekki undir sjálfum sér — sem er að því er virðist, og eftir því sem sá sem hér stendur fær best séð, bara vegna skulda því að við erum stöðugt að fá lánað meira og meira, það er það sem halli þýðir, þegar við fáum lánað á hverju einasta ári einungis til þess að standa undir skuldbindingum okkar og öðru því sem ríkið þarf að leggja út peninga fyrir — er ekki mjög snjallt, hvað þá ábyrgt, að lækka tekjurnar og auka útgjöldin. Það er ekki það sem sá sem hér stendur gerir þegar hann þarf meiri peninga og sér fram á að hafa ekki efni á því sem hann þarf að borga fyrir. Ég fer ekki að eyða meiru. Ég fer ekki og bið um launalækkun, það er vitfirring. Fyrirgefið orðbragðið, virðulegi forseti, en það er vitfirring, ábyrgðarlaust er kannski skárra orð í pólitísku samhengi.

Ef við ætlum að sýna einhverja ábyrgð, jafnvel þótt það sé stundum erfitt fyrir sumar greinar, þá verður, fyrirgefið, bara að hafa það. Við skuldum fáránlegt magn af peningum, við eyðum um 75–90 milljörðum kr. á ári einungis í vexti. Ef ekki væri fyrir skuldir ríkisins væri ríkið, að því er virðist, næstum því í hagnaði ef það væri ekki hreinlega í hagnaði. Ég hef tölur frá mínus 4 milljörðum upp í plús 18 milljarða, það væri allt í lagi ef ekki væri fyrir skuldirnar. Þess vegna er sérstaklega slæmt að stanslaust sé verið að auka skuldirnar því að í hvert sinn sem við setjum lög sem minnka tekjurnar eða auka útgjöld skulum við gera okkur grein fyrir því hvaðan peningarnir koma.

Þingmenn koma hingað upp í pontu og spyrja aftur og aftur: Hvaðan eiga þessir 6,4 milljarðar hérna að koma, hvar annars staðar á að skera niður, hvar á að hækka skatta á móti? Svörin eru auðvitað eins og þau eru en ég skal segja ykkur það. Það er engin ráðgáta hvaðan þessir peningar koma, við fáum þá lánaða. Hér er verið að fá lán fyrir 6,4 milljarða kr. tekjulækkun á næsta ári og 3,2 milljarða á yfirstandandi ári á rekstrargrundvelli. Við erum að fá þetta lánað þegar ein ástæðan fyrir því að hér er ríkishalli halli er sú að við höfum þegar fengið of mikið lánað. Spurningin er ekki hvort iðnaðurinn hafi efni á þessu, þeim tölum, eða hvort við höfum efni á því sem skattgreiðendur heldur hvort börnin okkar og barnabörn hafi efni á því, því að þetta verður borgað, þessir peningar verða borgaðir. Eina spurningin er hver borgar og með hversu miklum vöxtum.

Með áframhaldandi stefnu, sem virðist snúa að því að minnka tekjuleiðir á iðnaði sem er í blóma, munu þessar skuldir aukast og þessi vaxtabyrði mun aukast. Þá munum við einn daginn horfa fram á enn eina kynslóðina sem freistast til þess að bölva forfeðrum sínum. Ég panta að vera ekki í þeim hópi sjálfur enda get ég ekki stutt þetta frumvarp einfaldlega vegna þess að mér finnst það óábyrgt. Burt séð frá réttlætissjónarmiðum, burt séð frá því hvað mér finnst um útgerðarmenn, og hvað þá hæstv. sjómenn, er þetta óábyrgt, alveg sama hvernig maður lítur á það. Jafnvel þótt ég væri harðasti hægri maður, sem ég á til að kalla sjálfan mig stundum, af og til, þegar ég er í vondu skapi, er þetta óábyrgt. Það er ekki ábyrgt samkvæmt neinni skilgreiningu sem ég veit um. Það vantar ekki að auka fjárfestingu í þessum bransa, það vantar ekki að passa upp á að hann græði meira, hann mun græða meira, það er óumdeilt.

Hann ræður við þessi gjöld og ef hann ræður ekki við þau má spyrja hvers vegna, ekki að það sé mikið um svör við því. Þessi fyrirsláttur að ekki sé hægt að rukka þetta vegna skorts á upplýsingum, við finnum þá bara upplýsingarnar. Það veit ég úr allsherjarnefnd að þessi ríkisstjórn á ekki í neinum vandræðum með að heimta upplýsingar, jafnvel ef það gengur ansi nærri friðhelgi einkalífsins. Ég hef ekki skoðað nákvæmlega útfærslurnar á því hvernig á að verða við því þegar kemur að þessu tiltekna málefni en það virtist ekki vera neitt mál fyrir höfunda Hagstofufrumvarpsins að heimta allar fjárhagsupplýsingar um alla landsmenn að því er virðist án mikils tillits til stjórnarskrárinnar og mannréttinda almennt eða borgararéttinda. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þessi ríkisstjórn mundi hugsa með sér: Engar upplýsingar, við skulum pakka saman og minnka veiðigjaldið ellegar ekki rukka það inn. Mér finnst það ekki alveg í samræmi við það sem ég þekki af Hagstofumálum.

Þegar allt kemur til alls ættum við að ræða þessi mál í lýðræðislegu samhengi og það hefur okkur greinilega mistekist. Það sannast á því að það eru 34 þúsund undirskriftir gegn þessu frumvarpi. Það hefði ekki gerst ef frumvarpið hefði verið unnið og kynnt með viðunandi hætti. Þegar um er að ræða svo umdeilt mál sem þetta væri það ekki svoleiðis en það er svoleiðis vegna þess að það var ekki unnið og kynnt nógu vel með hliðsjón af kringumstæðum og lýðræðislegum vinnubrögðum. Sömuleiðis væru 70% þjóðarinnar ekki á móti því ef það hefði verið kynnt og unnið nógu vel. Af hverju er þetta svona mikið mál? Það er það sem ég skil ekki.

Mig langur aftur að freista þess að fá þau sem standa að frumvarpinu til að hugsa með sér hverjum þjóðin geti kennt um fari þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þjóðin fellir það, væntanlega eftir tiltölulega langa, ítarlega og sjálfsagt mjög þreytandi umræðu á köflum, hverjum gæti þjóðin kennt um að ekki væri hægt að rukka neitt veiðigjald þegar upp væri staðið? Hvernig væri það sem sátt við útgerðina? Eigum við ekki bara að hafa það þannig að þetta fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og að sennilega segi þjóðin nei, ef við ætlum að vera svo hrokafull að ákveða fyrir fram hvernig það fer eftir lýðræðislega umræðu. Ef þjóðin segir nei er ekki hægt að rukka þessi gjöld, þjóðin verður brjáluð út í sjálfa sig og þá getur ríkisstjórnin sagt: Við sögðum ykkur það. Við sögðum ykkur það, vitlausa, vitlausa þjóð. Þið hefðuð átt að samþykkja frumvarpið. Kannski lærir þjóðin eitthvað af því. Það gæti gerst en gerist auðvitað ekki ef þjóðin fær aldrei tækifæri til þess að læra af mistökum sínum. Það er að sjálfsögðu að því gefnu að þjóðin samþykki þetta eftir viðamikla umræðu því að það er það sem vantar alltaf, það vantar alltaf umræðuna um þessi mál þar til þau komast í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Áður en forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin höfðu verið núll þjóðaratkvæðagreiðslur í sögu lýðveldisins, fimm þar áður. Færa mætti rök fyrir því að við hefðum í reynd verið lýðræðislegri á ákveðinn hátt áður en við urðum lýðveldi, kaldhæðnin í því væri auðvitað yfirþyrmandi. En nú höfum við einhverja reynslu af þjóðaratkvæðagreiðslum.

Fjölmiðlafrumvarpið var dregið til baka þannig að ríkisstjórnin þurfti ekki að hafa frekari áhyggjur af því. Síðan var neitað í Icesave I og svo í Icesave II og þjóðin kaus, þvert á við ýmsa spekúlanta og sérfræðinga og vissulega þann sem hér stendur viðurkenni ég hér og nú, ítrekað og aftur. Það fór ekki allt til fjandans. Það virðist ekki vera sem of mikið lýðræði hafi komið Íslandi í einhver vandræði, þvert á móti ef eitthvað er, merkilegt nokk. Það er ekkert sem bendir til þess að of mikið lýðræði mundi valda því að hér væri ekki hægt að hafa stefnu um sjávarútveg sem sátt væri um þegar allt kæmi til alls eftir lýðræðislega umræðu, eftir að búið væri að vinna þetta frumvarp með hliðsjón af lýðræðinu, með hliðsjón af því að kjörnir fulltrúar, jafnvel þótt þeir hafi umboð, geti varið gjörðir sínar frammi fyrir alþjóð þannig að hún sannfærðist.

Hér stöndum við og tölum auðvitað með tilliti til þess að það eru fjögur ár í að góðir landsmenn hafi einn bókstaf til að meta gjörðir okkar, einn bókstaf eftir fjögur ár til að segja okkur hvað þeim fannst um þetta frumvarp. Er það lýðræðislegt? Er það sanngjarnt? Ég get ekki sagt að það sé það. Ég veit ekki um betri mál til þess að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég get ekki ímyndað mér hvaða mál væri betur til þess fallið því að það felur allt í sér. Það felur í sér ítarlega lýðræðislega umræðu, það felur vissulega í sér góð rök gegn frumvarpinu en líka, ég skal viðurkenna það, einhver rök með því. Þá tökum við það í lýðræðislegri umræðu í fréttum og í gröfum og þegar spekúlantarnir fara að útskýra innviði þess fyrir almenningi. Þetta varðar einnig auðlindir landsins, þjóðarinnar, það varðar margra áratuga bitbein, almenningur hefur áhuga á málinu, sem ætti að tryggja að hann taki þátt í því. Hann hefur sýnt þann áhuga á málinu með 34 þúsund undirskriftum, hann hefur sýnt það í könnunum við fréttamenn. Eins og ég segi get ég ekki ímyndað mér frumvarp sem ætti betur heima í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að lokum langar mig að nefna eitt sem mér fannst svolítið merkilegt við réttarhöldin fyrir EFTA-dómstólnum og það var þegar við unnum. Þá hafði ég rætt það fram og til baka við marga vini og fjölskyldumeðlimi hvað þetta væri allt hallærislegt og forseti lýðveldisins væri í einhverjum pólitískum leik o.s.frv. Persónulega hafði ég miklar áhyggjur af því að við mundum tapa málinu og að afleiðingarnar yrðu talsvert verri en ella. Það merkilega gerðist að við unnum, þrátt fyrir að ég tryði fólkinu sem ég var að tala við, sem hafði sannfært mig prívat og persónulega um ákveðna afstöðu vegna þess að það voru sérfræðingar, það var lögfrótt fólk, það var fólkið í ríkisstjórn sem ég ber mikið traust til. Ég trúði því að það hefði lög að mæla og að við ættum að semja en samt unnum við málið.

Það má kalla það heppni, enda sannast enn og aftur að við vantreystum þjóðinni stundum aðeins of mikið, jafnvel allt of mikið, sérstaklega þegar það er bara einn bókstafur á fjögurra ára fresti til að segja til um hlutina. Við eigum að láta þjóðina um að meta svona stór mál, frekar of mikið en of lítið, frekar of oft en of sjaldan, frekar of snemma en of seint.