142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[17:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um svokallað veiðileyfagjald við 2. umr. og þær tillögur sem þar hafa komið, bæði frá meiri hluta og minni hluta atvinnuveganefndar. Það hefur réttilega komið fram í þessari umræðu að við erum hér að ræða um eina mikilvægustu atvinnugrein landsins, sjávarútveginn, sem gegnir gríðarlega miklu hlutverki fyrir allt landið, ekki hvað síst hinar dreifðu byggðir. Það hefur hins vegar alltaf verið notað sem skjól þegar eitthvað hefur átt að ræða um hvernig ágóðanum af þessari auðlind er skipt eða með hvaða hætti menn haga veiðum, þá hafa menn dregið það fram að hér sé verið að ráðast á hinar dreifðu byggðir. Þá gleymist gjarnan að þegar kvótakerfið var sett á á sínum tíma, þá til þess að hagræða í sjávarútvegi, urðu auðvitað gríðarleg áföll og miklar breytingar á mörgum svæðum.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að margt af því var óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að þar færi fram ákveðin hagræðing og breytingar, en allt frá þeim tíma og alveg fram á daginn í dag hafa alltaf verið notuð sömu rökin, að hver einasta lítil breyting sem gerð yrði mundi setja sjávarútveginn á hausinn. Víst er að um langan tíma bjó sjávarútvegurinn við það að vera nánast eins og gengistrygging í landinu, þ.e. afkoma sjávarútvegsins var núllstillt þannig að útgerðin fékk ekki leyfi til þess að hafa hagnað heldur var þess gætt að afkoman væri nokkurn veginn á núlli og þannig stýrðu menn efnahagslífi landsins.

Á þessu hafa orðið breytingar. Núna þegar við lentum í hinum miklu áföllum vegna hrunsins breyttist gengið á íslensku krónunni mjög hratt og staða útflutningsgreinanna batnaði verulega. Á þessum tíma, þó skömmu áður, árið 2007, greip þáverandi sjávarútvegsráðherra, og ríkisstjórnin sem þá var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, til þess ráðs að skera niður þorskkvóta um allt að 30% vegna þess hvernig þorskstofninn hafði þróast. Miðað við allar þær fullyrðingar sem menn höfðu haft í frammi um hvað útgerðin þyldi hefði sjálfsagt allt átt að fara samstundis á hausinn. Sem betur fer var það ekki þannig heldur lifðu menn þetta af. Þeir sem höfðu fjárfest í aflaheimildum skömmu fyrir hrun, skömmu fyrir þessa breytingu þegar kvótinn var skertur árið 2007, ættu réttilega að eiga einhvern forgang á að fá hann til baka þegar betur áraði.

Á þessu hefur verið skilningur þótt það sé auðvitað misjafnt hvaða skoðanir menn í landinu hafa á málinu. Engu að síður held ég að menn hafi haft á þessu ákveðinn skilning. Á þessum tíma, fyrir hrun, í því æði sem greip um sig þar sem menn fjárfestu gríðarlega, bjuggu til verðmæti með því að kaupa hlutabréf, fjárfesta í hlutum til þess að halda uppi verði, var útgerðin auðvitað einn af þeim aðilum sem tók þátt í því að töluverðu marki þó að það væri mjög ólíkt eftir fyrirtækjum og svæðum. Það þýddi að greinin skuldsetti sig verulega. Þó að þeir hafi réttilega bent á að hún hafi ekki skuldsett sig meira en aðrar greinar hefur hún auðvitað verið íþyngjandi fyrir þessa grein eins og allt atvinnulíf á Íslandi, sú skuldsetning sem þarna átti sér stað. Sem betur fer hefur átt sér stað veruleg hreinsun á þessum skuldum og lækkun og eignamyndun er byrjuð að nýju.

Ég hef þennan inngang vegna þess að það er ávallt sett þannig fram að við sem höfum verið stuðningsmenn þess að breyta ákveðnum þáttum við útgerð og veiðar séum andstæðingar útgerðarmanna, sjómanna og landsbyggðar. Það er allt saman óttalegt bull og ómálefnaleg rökræða og eiginlega dæmigerð fyrir það þegar menn vilja ekki fara í rökræðuna heldur vilja gjarnan slá um sig með fyrirsögnum til að eyðileggja hana.

Við 1. umr. rakti ég aðeins söguna. Það kemur ágætlega fram í skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða – álitamálum, greiningum, skýrslum og valkostum við breytingar á stjórn fiskveiða, eins og skýrslan heitir. Hún kom út í september 2010 og þar kemur mjög vel fram, og ég rakti það þá og ætla að gera það að hluta til aftur núna, hversu lengi þessi umræða hefur staðið. Allt frá því að hér var sett nefnd sem kölluð var tvíhöfðanefndin 1993, þegar kvótakerfið var að byrja, eru menn að glíma við þetta verkefni og strax um ágreininginn hver eigi auðlindina og hvernig eigi að ráðstafa arðinum af henni. Þetta er löngu fyrir tíma þeirra flokka sem hafa svo gagnrýnt kerfið hvað harðast, þ.e. þeir héldu þá uppi harðri gagnrýni undir öðrum heitum. Samfylkingin var ekki stofnuð fyrr en árið 2000.

Það er forvitnilegt að lesa í þessari skýrslu sem ég vitnaði í á bls. 8 þar sem fjallað er um tvíhöfðanefndina í stuttu máli. Þar er einmitt tekið fram að nefndin var skipuð af sjávarútvegsráðherra í ágúst 1991 og skilaði tillögum í apríl 1993. Það er forvitnilegt að athuga hverjir voru þá við stjórnvölinn.

Í skýrslu nefndarinnar segir að nefndin hafi meðal annars sett sér þau leiðarljós við gerð tillagna að mótun sjávarútvegsstefnu að tryggja uppbyggingu fiskstofna, hámarksafrakstur, hámarksarð af auðlindinni í hafinu og um leið rekstraröryggi sjávarútvegsins, að starfsfólki í greininni yrðu boðin eftirsóknarverð kjör og, sem er athyglisverðast, að sátt næðist meðal þjóðarinnar um meginstefnuna í sjávarútvegsmálum.

Þetta markmið hefur verið í umræðu alveg frá því 1993, ég þekki söguna ekki aftar en það, að reyna að ná einhverri sátt, ekki eingöngu við útgerðaraðila, ekki við þá, hvort menn voru smábátaeigendur eða í stórútgerð, ekki farið eftir því hvar þeir bjuggu á landinu, heldur líka við þjóðina sem taldi sig eiga þessa auðlind, telur sig eiga hana og á að eiga hana.

Þrátt fyrir þessa nefnd 1993 og síðan kvótakerfið í framhaldi og verulegar breytingar í sjávarútvegi er sett á stofn árið 2000 auðlindanefnd sem var falið það hlutverk að skoða með hvaða hætti ætti að fara með auðlindir landsins og skipta arðinum af þeim. Sú nefnd var kosin 1998 og fyrsti fundur hennar var þá en síðan skilaði hún áfangaskýrslu 1999 og lokaskýrslu í september 2000. Þá var nefndinni falið að fjalla um auðlindir sem voru eða kynnu að verða í þjóðareign.

Það var sérkafli í skýrslu nefndarinnar um fiskveiðiauðlindir sem svo er fjallað um á bls. 9 í þeirri skýrslu sem ég vitnaði í áðan. Þar er fjallað nokkuð ítarlega um fiskveiðiauðlindir, atvinnurétt, eignarrétt, stjórnarskrána sem er þó ekki rakin sérstaklega í skýrslu sáttanefndarinnar sem ég sat í, en þetta er allt saman dregið fram á þessum tíma. Nefndin kemur með þá skoðun, með leyfi forseta, „að rétt sé að stefna að greiðslu fyrir afnotarétt af öllum auðlindum sem eru í eigu ríkis eða þjóðar af tveimur ástæðum: annars vegar til að greiða kostnað ríkisins af stjórn og eftirliti með viðkomandi auðlind, hins vegar til að tryggja þjóðinni í heild sýnilega hlutdeild í þeim umframarði“ — takið eftir að það orð er notað — „(auðlindarentu) sem nýting hennar skapar“.

Þetta var árið 2000.

Síðan er áfram fjallað um þetta. Þarna var tekist á um það hvaða form ætti að vera á gjaldtöku. Þá var rætt um fyrningarleið eða hvort fara ætti í veiðileyfagjald. Það gekk ekki vel að ná niðurstöðu, en endaði þó með því að menn sögðu í lokin, með leyfi forseta:

„Nefndin telur brýnt að mótuð verði samræmd stefna um stjórn á nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi sem skapi heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda. Reynt verði eftir föngum að beita hagrænum stjórntækjum á grundvelli vel skilgreinds eignar- eða afnotaréttar þar sem því verður við komið ásamt leiðréttandi sköttum og uppbótum þar sem það á við.“

Þetta er á bls. 10 í þessari skýrslu. Það er mikilvægt að skoða að þarna er strax mótuð þessi stefna. Síðasta ríkisstjórn, sú sem er nýfarin frá, var einmitt að glíma við þetta sama viðfangsefni, að búa til samræmda auðlindastefnu, og skilaði um það skýrslu nú fyrir kosningarnar.

Þetta leiddi ekki til niðurstöðu á þessum tíma. Þess vegna var skipuð endurskoðunarnefnd árið 1999 sem skilaði svo tillögu 2001. Þar var aftur fjallað um afnotarétt af auðlindinni og gjaldtöku fyrir þann afnotarétt og í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn taldi æskilegt að skýra betur þau réttindi sem veiðiheimildirnar fælu í sér. Nefndin skoðaði ítarlega þá leið að gerðir yrðu nýtingarsamningar við rétthafa, sem og veiðigjaldsleiðina og fyrningarleiðina sem áður hefur verið lýst. Niðurstaða meiri hlutans var að leggja til að niðurstöðum auðlindanefndar yrði fylgt og að mörkuð yrði stefna fyrir greiðslu fyrir afnotaréttinn með hliðsjón af afkomu fiskveiða. Nefndin lagði til að veiðigjaldsleiðin yrði farin og jafnframt yrðu önnur gjöld á útgerðir felld niður. Nefndin lagði til að veiðigjaldið yrði tvískipt, annars vegar fastur hluti sem tæki mið af kostnaði ríkisins vegna stjórnar fiskveiða og hins vegar breytilegur hluti sem réðist af afkomu greinarinnar og er þetta ítarlega útfært í skýrslu nefndarinnar.“

Þarna er strax komin sú hugmynd að vera með einhvern ákveðinn grunn sem er greitt eftir næstum óháð afkomu og síðan viðbótargjald sem miðast við afkomu greinarinnar. Ef maður setur þetta í það samhengi að afkomuna er nánast hægt að leika sér með, ég segi það ekki fullum fetum en það eru ýmsir þættir sem geta haft áhrif á hana, hafa menn yfirleitt verið að tala um að taka heildarafkomu í greininni eða að minnsta kosti afkomu ákveðinna fyrirtækja eða sviða innan útgerðarinnar og jafnvel fiskvinnslunnar til að meta hvað væri hóflegt eða sanngjarnt gjald fyrir auðlindanotkunina.

Það er einmitt þetta sem við höfum glímt við á undanförnum árum og alltaf endað með upphrópunum um að þetta sé ekki hægt, þetta sé ósanngjarnt og drepi þessi fyrirtæki og hin. Svo hafa menn hrökklast frá borðinu á hverjum tíma.

Nefndin árið 2001 fjallaði mjög mikið um byggðamál og hvernig menn gætu tryggt að sjávarbyggðirnar nytu góðs af þessum gjöldum og hvernig hægt væri að tryggja að menn þjöppuðu ekki saman útgerðinni þannig að hún flyttist öll inn á stærri staðina. Við þekkjum öll hvernig það hefur gengið í sjálfu sér.

Ég rifja þetta upp hér enn einu sinni vegna þess að mér finnst þetta skipta miklu máli. Síðan var lagt á þetta veiðileyfagjald upp úr árinu 2000 og fylgdu því ákveðnar reglur hvað ætti að draga frá í kostnaði áður en veiðileyfagjald yrði lagt á. Síðan byrjuðu undanþágurnar frá þessu veiðileyfagjaldi. Afkoman var ekki betri en svo að menn aumkuðu sig yfir útgerðina og treystu sér ekki til að leggja á gjaldið að fullu, það átti að koma til í áföngum sem var síðan frestað. Þannig var það til dæmis þegar menn fóru í 30% niðurskurð árið 2007 á þorskheimildum, þá var veiðileyfagjaldið dregið niður í nánast núll, það var lækkað verulega. Við þetta hafa menn búið alla tíð þannig að útgerðin hefur komist hjá því að greiða veiðileyfagjald.

Á undanförnum nokkrum árum hefur afkoma sjávarútvegs verið með albesta móti. Eftir gengisbreytingarnar hefur afurðaverð haldist gott. Það hefur verið aukning í aflaheimildum og menn hafa greitt niður skuldir og haft mjög góða afkomu.

Þetta er hægt að sjá og skoða. Það kom vel fram í þessari vinnu sem við vorum í þótt því miður birtist upplýsingar gjarnan seint. Sérstaklega var Hagstofan þá töluvert á eftir, en ef við skoðum skýrsluna frá Hagstofunni frá árinu 2011 sést að afkoman hefur batnað verulega og er orðin mjög góð á þeim tíma.

Síðan þegar á að fara að ræða um að leggja á gjöld sem vegna seinni upplýsinga eru oft lögð á miðað við raunveruleika sem er aðeins orðinn eldri, sem er galli og auðvitað ættum við með nútímatækni að geta verið með upplýsingarnar miklu nær í tíma og þurfum að vinna að því, segja menn: Ja, nú er markaðsverð farið að lækka. Og allar kvartanirnar koma aftur.

Það er erfitt að ná sátt í svona grein ef við eigum alltaf að búa við þá aðferðafræði að menn komi ekki hreint að borðinu. Menn eru í rauninni meira eða minna alltaf að reyna að koma sér hjá því að borga gjöld. Að vísu verður að taka það fram að það er mjög misjafnt eftir fyrirtækjum og þeim sem um þetta fjalla hvernig menn bera sig, en það var til dæmis mjög táknrænt í þessum vinnuhópi yfir 20 manna úr öllum stjórnmálaflokkunum og stéttarfélögum og víðar sem unnu í þessari svokölluðu sáttanefnd sem skipuð var á sínum tíma og ég hef áður rifjað upp ítrekað að strax haustið 2010, þegar nýbúið var að skipa nefndina, hljóp LÍÚ frá borðinu, sem allir aðrir sátu við, út af því að það var komið inn eitthvað sem hét skötuselsfrumvarp sem þýddi úthlutun á skötusel. Sá fiskur var farinn að dreifa sér öðruvísi, það var magnaukning í honum og þá var honum úthlutað með öðrum hætti en beint í gegnum kvótakerfið.

Það er kómískt að það ákvæði var svo framlengt af nýrri ríkisstjórn með nýlegum lögum sem hér voru samþykkt á sumarþingi. Það hefur enginn hrökklast frá borði út af því. Þetta var dæmigert fyrir umræðuna á þessum tíma.

Ég vil líka rifja upp að allur hópurinn ákvað, eins og ég segi, að halda áfram þrátt fyrir að LÍÚ færi frá borði. Í desembermánuði eftir að við erum bara rétt komin inn í þriggja mánaða vinnu er búið að samþykkja í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna að sigla flotanum í land, efna til fundaherferðar og koma með hótanir um það að flotinn muni ekki fara á veiðar aftur fyrr en við hættum þessari vinnu. Hvernig í veröldinni ætlum við að ná sátt í sjávarútvegi með þessum aðferðum? Sáttin er svo mikilvæg vegna þess að það er útilokað að búa við það að ein atvinnugrein skuli vera í kosningum á fjögurra ára fresti, það skuli endalaust vera deila um það með hvaða hætti við rekum fyrirtæki í sjávarútvegi. Það er fullkomlega óþolandi og líka fyrir greinina sem slíka.

Það kemur ágætlega fram í niðurstöðum frá þessum hópi að allir verða að leggjast á eitt til að niðurstaða náist. Það var það sem við reyndum á þessum tíma. Flokkur eins og Samfylkingin sem hafði ákveðnar hugmyndir um útfærslur og lét vinna þær fyrir sig og færði rök fyrir því að það væri góð og skynsamleg leið vék frá þeim tillögum til að reyna að ná sátt og fór út í svokallaða samningaleið sem var ein af tillögunum sem komu út úr vinnu svokallaðrar sáttanefndar.

Það sem hefur þróast á undanförnum árum allt frá auðlindavinnunni á sínum tíma, auðlindastefnunni núna, og síðan sem kristallaðist í umræðunni um nýja stjórnarskrá og ákvæði sem þar fór í þjóðaratkvæðagreiðslu voru fjögur grundvallaratriði varðandi auðlindirnar ekki hvað síst og sérstaklega tekið fram varðandi auðlindir sjávar.

Það var í fyrsta lagi að auðlindir sjávar skyldu vera alveg óyggjandi í eigu þjóðarinnar og óheimilt að framselja þær, fénýta með nokkrum hætti og undir engum kringumstæðum gæti myndast eignarhlutur í þessari auðlind.

Það var tekið fram í öðru lagi að þessari auðlind mætti ráðstafa með afnotarétti til tilgreinds tíma þar sem viðkomandi aðilar gátu fengið leyfi til þess að nýta auðlindina. Það fylgdi ekki akkúrat í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu en fylgdi mjög í vinnu starfshópsins að það ætti að vera með. Það var líka í eldri starfshópum að það ætti að vera með tilgreindum skilyrðum um hvernig menn færu með afla og menn gætu misst þennan rétt ef þeir uppfylltu ekki ákvæðið. Hjá okkur var oft tilgreint til dæmis að menn færu eftir kjarasamningum, væru ekki að svindla á vigtunarreglum o.s.frv. Það voru tilgreind fjöldamörg atriði sem skiptu auðvitað máli því að það er engin ástæða til að láta menn veiða sem eru afbrotamenn í greininni. Þar hafa að vísu verið refsiákvæði og margir verið sektaðir, en almennt fylgja menn þessum reglum þannig að þetta átti ekki að vera íþyngjandi á neinn hátt.

Í þriðja lagi var grundvallaratriði að þessu væri úthlutað til tilgreinds tíma, var númer tvö, en það yrði gegn gjaldi. Menn töluðu um hóflegt gjald og menn töluðu um sanngjarnt gjald. Það voru skilgreiningar í því í stjórnarskrárvinnunni að það ætti að vera gjald sem miðaðist við markaðsvirði á hverjum tíma og spurningin var svo hvernig átti að finna það og allt þetta, en það er klárt að við viljum fá gjald fyrir auðlindina sem nýtist almennt þjóðinni og er hluti af kostnaði við að gera út.

Í fjórða lagi var svo talað um jafnræði sem yrði gætt við úthlutunina sem menn hafa svo sem túlkað á mismunandi vegu, en þegar kvótakerfið var sett á var miðað við aflareynslu þriggja undangenginna ára. Hefur komið mikil gagnrýni á að það hafi verið viðmiðið og spurning hvort veiðireynsla sem var jafnvel sjálfsköpuð ætti að ráða hvaða aflaheimildir menn fengju til dæmis í nýjum tegundum. Þar kom upp með makrílinn, þegar hann kom inn í íslenska lögsögu og menn fóru að veiða hann í meira mæli var spurningin hvernig ætti að deila honum út. Átti að kvótasetja hann? Hverjir áttu að fá þær heimildir?

Þessi umræða hefur svo sem ekki verið kláruð og skiptir mjög miklu máli hvernig farið verður með slíka hluti. Ég held að þeir sem þekkja til hefðu ekki viljað missa af því. Ég held að 200 smábátar séu núna að veiða makríl til viðbótar við stórútgerðirnar sem taka auðvitað stærsta hlutann og hafa til þess búnað, tækni og þekkingu.

Þetta voru grundvallaratriðin. Þetta er það sem þjóðin er að biðja um, það sem hún samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu í umræðunni um stjórnarskrána. Yfir 80% þjóðarinnar töldu að þetta ætti að vera með þessum hætti, þetta væri þjóðareign, við ættum að úthluta þessu til tilgreinds tíma gegn gjaldi og gæta jafnræðis.

Nýleg könnun sýnir svo líka að yfir 70% vilja óbreytt veiðigjald. Hæstv. ríkisstjórn sem er að vinna í anda sáttar og ætlar að hlusta á þjóðina hlýtur að verða að hlusta á þetta. Við erum síðan komin með undirskriftir yfir 35 þús. aðila, sjálfsprottna undirskriftasöfnun, þar sem aðilar sem hafa fylgst með umræðunni og hafa ríka réttlætiskennd kalla eftir því að þessu máli verði fylgt eftir. Ákallið sneri fyrst og fremst að þinginu, um að þessu verði breytt þannig að sanngjarnt verði og ekki gefið eftir með upphæðir. Meiri hluti atvinnuveganefndar hefur ekki orðið við því sem kemur í tillöguformi milli umræðna, en þá hafa menn sagt að hinn öryggisventillinn sé forseti Íslands. Þarna eru held ég komin nálægt 15% atkvæðisbærra aðila sem óska eftir því að þetta fari til forsetans og hann synji lögunum.

Ég held að ekki verði hjá því komist að hlusta á þetta. Ef við ætlum að reyna að ná þessari varanlegu sátt í sjávarútvegi held ég að menn verði að hlusta á þessar raddir, taka sér tak og vinna útfærslu sem er sanngjörn. Það er tilraun sem minni hlutinn gerir hér með sínu nefndaráliti. Hvað var það sem menn kvörtuðu yfir? Menn segja: Það er ekki hægt að leggja veiðileyfagjaldið á vegna þess að við höfum ekki nægar upplýsingar. Svarið við því er: Veitum heimildir til að afla þeirra upplýsinga. Menn segja: Ja, það er kannski erfitt.

En það var ekki erfitt þegar við vorum að tala um hagstofufrumvarp sem veitir ótrúlega víðtækar heimildir í sambandi við söfnun upplýsinga um skuldastöðu heimilanna. Ég líki þessu saman vegna þess að ég held að hið sama gildi um hvort tveggja. Þarna eru ríkir hagsmunir um að sækja þessar upplýsingar og reyna að leggja á sanngjörn gjöld miðað við bestu upplýsingar.

Þegar við ræðum um þetta veiðileyfagjald og þennan ágreining, sem er líka verið að glíma við í þessu nefndaráliti minni hlutans, erum við að tala um tvennt. Við erum að tala um réttlæti, við erum að tala um réttlátan arð af auðlindinni sem við viljum að þjóðin fái sjálf og fái tækifæri til að deila út í gegnum Alþingi, gegnum fjárveitingavaldið, til fólksins í landinu í þá þætti sem við teljum mikilvæga í rekstri samneyslu okkar.

Í því felst um leið að það er ekki nægjanlegt að afkoman sé svo góð í útgerðinni að hún geti keypt sér einhver önnur fyrirtæki og skapað hugsanlega atvinnu með þeim hætti. Það er ekki sú aðferðafræði sem menn geta notað um allt. Þeir eiga að hafa sinn arð og sína afkomu, og sinn arð af sínum peningum. Þeir eiga að hafa þá möguleika að reka hagkvæma útgerð. Það er alls staðar í öllum þessum skýrslum og alls staðar í öllum nefndarálitum, líka frá minni hluta atvinnuveganefndar í þessari 2. umr., þá er talað um að allir vilji sjá arðbæra, hagkvæma og sjálfbæra útgerð. Þannig á það að vera.

Menn vilja ekki eingöngu fá aðila sem geta deilt og drottnað og skammtað af sínum hagnaði, heldur viljum við að þessir peningar nýtist í samneysluna og í velferðarkerfið okkar, þá mikilvægu þætti sem við viljum hafa hér sem góða þjónustu.

Það er líka sérstaklega áhugavert að skoða þessar gjaldtökur sem við höfum í samanburði við til dæmis að sum af fyrirtækjum okkar eru að kaupa aðgang að sjávarauðlindum annars staðar býsna háu verði. Þau hafa líka framleigt veiðiheimildir frá sér innan ársins til minni aðila. Þá er ekki spurt um 10, 20 eða 30 kr. Þar eru menn að tala um 100, 200 eða 300 kr. Þessar litlu útgerðir verða þannig leiguliðar hjá þeim stóru. Þetta er einn af þeim þáttum sem hafa vakið óánægju og er meðal þess sem þarf að taka á í sambandi við útgerð í landinu til lengri tíma.

Ég vitna aftur í sáttanefndina af því að það er vitnað í hana í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Ég fagna því, það er hægt að sækja heilmikið þangað þó að því miður hafi menn skilað sínum eigin textum í lokin með ýmsum fyrirvörum um hvernig þetta ætti að útfærast og fóru varlega inn í þetta. Það er margt mjög athyglisvert í þeim niðurstöðum, t.d. að það eigi áfram að vera aflamarkskerfi. Það var sameiginleg niðurstaða alls hópsins. Sameiginleg niðurstaða obbans af hópnum var að það ætti að vinna þetta út frá samningum til tilgreinds tíma. Það var deila um til hversu langs tíma. Það varð líka samkomulag um að það væri óhjákvæmilegt að skipta á milli þessara samninga og síðan svokallaðrar pottaleiðar, þar sem menn voru með byggðaívilnanir til þess að mæta ákveðnum sérþörfum ákveðinna hópa.

Einn af þeim þáttum kemur fram í gagnrýninni á veiðileyfagjaldið, þ.e. að það fari býsna illa með ákveðna tegund af útgerðarflokkum, minni og meðalstóra báta. Rökin fyrir því eru að þarna eru felld niður eða lækkuð verulega gjöld á bolfisksútgerðum. Menn hafa af ríkinu tekjur upp á jafnvel 3,2 milljarða, er áætlað á þessu ári, 6,4 milljarða á ársgrundvelli. Það munar um minna, þetta eru gríðarlega háar upphæðir. Þeir sem einmitt unnu skýrslur fyrir sáttanefndina á sínum tíma, Akureyringarnir, hafa svo komið með yfirlýsingar um að það sé engin ástæða til þess að hlífa bolfisksútgerðinni með þessum hætti.

Í nefndaráliti minni hlutans er einmitt gert ráð fyrir að breyta mörkum á því hverjir munu ekki borga veiðileyfagjald og breyta hlutunum þannig að það verði komið til móts við þessar smærri og meðalstóru útgerðir, þessar skuldsettu útgerðir, það var í frumvarpinu í fyrra, og þannig komið til móts við þá gagnrýni sem lögð hefur verið fram.

Minni hlutinn leggur hér fram lausnir á þeim vanda sem hefur verið meginrökstuðningur fyrir því að ekki væri hægt að leggja á veiðileyfagjald, með því að skaffa upplýsingarnar, með því að koma til móts við litlu og meðalstóru fyrirtækin þannig að við héldum fjölbreytni í útgerðinni. Við styðjum þá breytingu sem ný ríkisstjórn gerði um það eða gerum enga athugasemd við það að hækkuð verði gjöldin á uppsjávarfyrirtækin sem hafa skilað hvað bestum arði en haldið þá óbreyttu gjaldi á þá sem hafa ekki einhverja sérstaka afslætti hvað varðar bolfiskinn.

Alveg eins og hér hefur komið fram, m.a. í andsvörum frá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans, er þetta ekki fullkomið. Þetta er ekki gallalaus leið að öllu leyti. Þegar menn fara að leita að lausnum byrja þeir ekki á að lækka þessi gjöld, heldur dreifa þeim öðruvísi. Óánægjan sem hefur brotist út bæði hjá minni hlutanum og eins líka í landinu öllu er meðal annars vegna þess að í erfiðu árferði, þegar við komum út úr fordæmalausum erfiðleikum eftir hrunið, þar sem ríkissjóður tapaði gríðarlega miklum tekjum og er þar að auki enn þá að borga um 90 milljarða í vaxtakostnað, þurfum við á öllum þeim tekjum að halda sem við getum fengið með eðlilegum hætti án þess að leggja atvinnulífið í dróma. Við þurfum að fara þannig fram að við getum haldið úti velferðarkerfinu. Það var draumur flestra, að því er menn segja. Við börðumst að minnsta kosti fyrir því að núna þegar aðeins betur áraði gæti maður farið að skila til baka inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og löggæsluna, komið til móts við þær þrengingar sem hafa verið varðandi kjarasamninga, sérstaklega hvað varðar kynbundinn launamun, og komið til móts við lífeyrisþega.

Við sjáum að nú er búið að leggja fram frumvarp þar sem lífeyrisþegar eiga að fá 1,6 milljarða fram að næstu áramótum, þeir 45.000 aðilar. Að vísu deilist það bara á 7.000 og raunar fá ekki nema 4.500 af þeim greiðslur núna. Þetta er helmingurinn af því sem við erum að afsala okkur með breytingu á veiðileyfagjaldinu.

Þetta er það sem svíður líka, þ.e. hvernig menn forgangsraða hjá nýrri ríkisstjórn. Hún hefur valdið vonbrigðum miðað við yfirlýsingar sem voru látnar falla fyrir kosningar um það hverjir ættu að hafa forgang.

Það út af fyrir sig segir manni að við verðum að gera betur, við verðum að reyna að ná þessum peningum með eðlilegum hætti. Það er ekkert verið að hrifsa það af neinum. Það er ekki verið að taka af fyrirtækjum sem fara á hausinn við þetta. Afkoman er gríðarlega góð. Hún á líka að vera góð og hún á að vera þannig að viðkomandi fyrirtæki njóti arðsins af því að fara vel með auðlind og nýta fiskinn vel. Þar hafa menn fundið sífellt betri og tæknilegri aðferðir þannig að það er farið að fullnýta fiskinn miklu betur en nokkurn tímann áður. Það er vel vegna þess að þarna erum við í matvælaframleiðslu fyrir heiminn sem skiptir líka mjög miklu máli.

Það þýðir ekki að menn geti alltaf grátið sig frá því að taka eðlilegan þátt í að borga arðinn til samfélagsins. Þessir aðilar verða að koma að borðinu til að leita sátta þannig að við getum til framtíðar fundið lausn á þessu. Vonandi verður það þannig í haust að menn geti svo útfært þetta betur, en þá ekki með því að gefa endalausa afslætti. Það eru engin rök fyrir því. Það þarf að færa til eins og hefur verið ákveðið, en það ætti að duga.

Það hefur oft vakið kátínu hjá mér þegar við heyrum frá einstökum sveitarfélögum úti á landi, sem mörg hver eru í erfiðleikum vegna skuldsetningar og hafa það ekki allt of gott, að veiðigjöldin muni beinlínis fara úr bæjarsjóðnum. Ég hef stundum sagt: Bíddu, ókei, við getum þá látið þetta veiðileyfagjald falla niður og þá fá staðir eins og Bolungarvík 400–500 milljónir frá útgerðinni.

En þessir peningar hafa aldrei skilað sér með þessum hætti, því miður. Þetta samhengi er ekki svona einfalt. Ég held að það sé frekar hægt að treysta því að við reynum að nýta veiðigjaldið til að byggja upp atvinnu úti á landsbyggðinni, skila peningunum inn á þau svæði, hjálpa fólki að komast úr sínum skuldafjötrum þar plús að byggja upp velferðarkerfið eins og ég ræddi hér áðan.

Helstu niðurstöður þessa sáttahóps, starfshópsins, eru í 1. kafla á bls. 12 í umræddri skýrslu. Þar eru í fyrsta lagi tilgreind einstök atriði núgildandi laga og þau álitamál sem þar voru uppi. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þann inngang:

„Í skýrslunni er fjallað um helstu álitaefni við stjórn fiskveiða og gerðar tillögur til úrbóta á þeim flestum. Starfshópurinn mælir með því að áfram verði stuðst við aflamarkskerfi við stjórn fiskveiða,“ eins og ég nefndi áður. „Meiri hluti hópsins er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að takmarka hámarkshandhöfn aflaheimilda eins og gert hefur verið.“ — Þetta er til dæmis mjög forvitnilegt atriði þar sem menn halda 12%-reglunni eða 11%, hver sem hún er nákvæmlega í prósentum.

Áfram, með leyfi forseta:

„Hann telur að gera beri frekari úttekt á tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og setja skýrar reglur um innbyrðis tengsl fyrirtækja.“ — Þetta er einmitt ákvæði sem menn höfðu miklar áhyggjur af í þessum starfshópi, að menn gætu falið hagnað, fært á milli aðila, komið honum frá einum aðila til annars til að fela hann. Það er gríðarlega mikið vandamál, ekki vegna þess að menn séu endilega að brjóta lögin, heldur hafa lögin verið með svo víðtækar heimildir í sambandi við þetta og skilgreiningin á því hverjir væru skyldir aðilar hefur ekki verið nógu nákvæm. Þarna hafa menn talað um að fara inn á hlutabréfamarkaði sem ég held að hafi verið mjög góð aðferð þar sem eru miklu strangari reglur um það hverjir teljast skyldir aðilar. Það er til dæmis með ólíkindum ef Samherji á Akureyri telst ekki aðaleigandi að Síldarvinnslunni þótt hann hafi um 50% eignarhlutdeild, að þetta sé ekki tekið sem eitt fyrirtæki þegar menn meta handhafa aflaheimilda.

Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Það er og álit meiri hluta hópsins að þau viðskipti sem leyfð verða með aflaheimildir skuli fara fram í gegnum opinberan markað og gjald af nýtingu á auðlindum sjávar renni í sameiginlegan sjóð landsmanna. Þá er það mat hópsins að rétt sé að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vinna frekari greiningu á málefnum eigenda sjávarjarða.“

Það var sérmál.

Fyrsti hlutinn er um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Niðurstaða hópsins á þeim tíma er að það eigi að ganga frá því og raunar senda bréf frá hópnum til stjórnarskrárnefndar um að þetta eigi að vera með þessum hætti. Takið eftir innganginum í kaflanum á bls. 12, með leyfi forseta:

„Starfshópurinn, að undanskildum fulltrúum LÍÚ, telur nauðsynlegt að skýrt ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, þar með talið auðlindum sjávar, komi í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Hópurinn leggur til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sendi erindi þar að lútandi til nýskipaðrar stjórnlaganefndar sem er að undirbúa þjóðfund og stjórnlagaþing.“ — Það var svo gert.

Annar kaflinn í þessum niðurstöðum, þetta eru bara stuttir kaflar með samantekt um heila skýrslu, er um úthlutun aflaheimilda. Þar er alveg skýrt markmið, eins og var líka hjá fyrrverandi ríkisstjórn, að við úthlutun aflaheimilda skuli, með leyfi forseta, „gæta þjóðhagslegrar hagkvæmni, langtímasjónarmiða til að tryggja afkomu sjávarútvegsins, að hámarka afrakstur auðlindarinnar og tryggja sjálfbæra nýtingu fiskstofna við landið. Þá skal að mati hópsins gæta jafnræðis við úthlutun veiðiheimilda og atvinnufrelsis …“

Þá er vitnað í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, en það álit var töluvert mikið rætt í hópnum á þeim tíma.

Síðan er ákvæði um að auðvitað þurfi aðlögun að miklum breytingum. Þess vegna töluðu menn í stjórnarsáttmála síðustu stjórnar um aðlögun þar sem var talað um innköllun á endurúthlutun á 20 ára tímabili.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að vitna öllu meira í þessa skýrslu. Mér þykir vænt um að menn skuli ætla að nýta úr henni meginhugmyndirnar, en þá verða menn einmitt að horfa á þessi atriði. Við verðum að ná sátt um það hver á auðlindina, hvernig við nýtum við hana og hvernig arðurinn er greiddur. Með þessi atriði öll í huga ætlum við að sjá til þess að hér verði rekinn hagkvæmur, arðbær sjávarútvegur sem gengur ekki á auðlindina, enda er hagur allra að menn nýti hana vel en varðveiti hana um leið þannig að hún gefi af sér til langs tíma.

Það skiptir miklu máli að við fetum þessa leið. Þar er viðurkenning á því að jafnvel þótt menn geti með einhverri sanngirni sagt að það sé ekki ýtrasta hagkvæmni í því að vera með þessa litlu báta sem eru að veiða við landið, samanborið við stóru bátana sem er nú mjög umdeilanlegt engu að síður, sumir fullyrða að þetta sé þannig, er mikill vilji og skilningur á því að við ætlum að reyna að halda fjölbreyttum útgerðarformum þannig að menn geti stundað smábátaveiðar við landið og veiðar á millistórum bátum. Þess vegna koma strandveiðarnar inn. Þess vegna koma byggðasjónarmiðin inn. Þess vegna er líka verið að reyna að koma í veg fyrir að menn geti farið í burtu með kvótann öðruvísi en að sveitarfélögin eigi að minnsta kosti möguleika á að stöðva það, samanber það sem var reynt í Vestmannaeyjum en tókst ekki, að búa til þannig lagaumhverfi að enginn geti lagt heilt byggðarlag í rúst með breytingum á sínum rekstri.

Við erum sem sagt hér að tala um frumvarp sem snýst um prinsipp og réttlæti en um leið tekjuöflun ríkisins. Ég vona að menn sjái að sér og reyni að ná sátt um þetta, hindri það að hér þurfi tilstilli forsetans til að berja þetta í gegn með þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrsta ákall þess hóps sem þar (Forseti hringir.) safnar undirskriftum er að Alþingi geri breytingarnar.