142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[18:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Varðandi það hvort veiðigjaldið sé akkúrat í anda sáttanefndarinnar þá er í sjálfu sér — grundvallarhugmyndin að leggja á gjald er í anda sáttanefndarinnar, þ.e. menn voru allir sammála um það. Menn voru líka sammála um að það þyrfti að vera á tvískiptan hátt en nánar varðandi upphæðir og annað þá var það ekki útfært í smáatriðum. Það er því ekki hægt að feðra það beint á sáttanefndina svo að við séum alveg einlæg.

Aftur á móti, eins og ég gerði grein fyrir í ítarlegu máli, tel ég að það að leggja á auðlindagjald eða taka auðlindarentu en ekki að fara í gegnum tekjuskatt sé í anda sáttanefndarinnar og þeirra fyrri nefnda sem hafa starfað. Ég held að mikilvægt sé að menn haldi sig við þá aðferð og reyni að bæta upplýsingaöflun frekar og forsendur þess sem þar er lagt til grundvallar. Það er auðvitað svo að þegar menn taka einhverja meðaltalsafkomu mun það vera sumum til gagns en öðrum ekki, það verði hvatning til þess að þeir geri betur til að þeir ráði betur við að borga það og það er bara hið besta mál.

Aftur á móti varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna þá er ég mjög hlynntur því að menn noti þjóðaratkvæðagreiðslur. En forsenda þess að þær virki þannig að við notum þær er að gera það hóflega. Ég hef verið þeirrar skoðunar að ekki hefði þurft að spyrja þjóðina aftur, það er búið að spyrja um grundvallaratriðin þar sem 80% segja að menn vilji fara inn í stjórnarskrána með ákvæði um auðlindir og vilji hafa gjaldtöku. Það ætti því ekki að þurfa að spyrja aftur. En eins og málið er núna komið finnst mér ekkert óeðlilegt við að forsetinn vísi þessu til þjóðarinnar og fái þá frekari staðfestingu á því hver sé vilji þjóðarinnar hvað þetta varðar. Því að þetta varðar verulega hagsmuni, þetta er réttlætismál en þetta er líka tekjuspursmál fyrir ríkissjóð.