142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[18:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er einmitt mikilvægt sem hv. þingmaður benti á, þ.e. spurningin um auðlindarentuna annars vegar og hins vegar um almenna skattlagningu. Þarna þarf að sjálfsögðu að gera greinarmun. Þegar hv. þingmaður segir að í sáttanefndinni hafi — ja, ég skildi hv. þingmann þannig að í sáttanefndinni hafi verið samstaða um að fara auðlindarentuleiðina. Ber þá að skilja hv. þingmann þannig að hann líti svo á að með þeirri leið sem lögð er til í því frumvarpi sem liggur fyrir sé verið að hverfa í raun frá henni og frekar yfir í annað form af gjaldtöku en auðlindarentu?

Mér finnst mikilvægt að þetta komi skýrt fram vegna þess að í umræðunni er þessu stundum svolítið blandað saman, menn horfa kannski á þetta í einhvers konar einni púllíu og gera ekki alveg greinarmun á auðlindarentunni annars vegar og hinni hagfræðilegu nálgun á hana sem fyrirbæri og hins vegar einhvers konar almennri skattlagningu, tekjuskattlagningu eða eitthvað í þá veru.

Hins vegar aftur um þjóðaratkvæðagreiðsluna þá minnti þingmaðurinn á að í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október í fyrra var spurt sérstaklega um auðlindir í þjóðareigu og þar með talið fiskstofnana og afdráttarlaus stuðningur var við það. Telur þingmaðurinn að í ljósi þess að málið kemur inn í þingið með þeim hætti sem það gerir sé verið að gera lítið úr niðurstöðu þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu? Og þess vegna sé tilefni til þess að gera kröfu um að málið gangi til þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti, eins og sagt væri á sumum bæjum? Þannig að það komi þá skýrt fram, afstaða þjóðarinnar, hvort sem það er með tilstuðlan forsetans á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar eða bara með einfaldri ákvörðun Alþingis í gildistökuákvæði frumvarpsins.