142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

lengd þingfundar.

[18:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú leitar forseti heimildar þingsins fyrir því að þingfundur geti staðið lengur en þingsköp kveða á um. Það er ekki svo óvenjulegt að það sé gert en við höfum hins vegar ekki mikla vitneskju um það hver hugsun ríkisstjórnarmeirihlutans í þingsalnum er um þinghald á næstunni. Það hafa að vísu verið einhverjir fundir og einhver samtöl en þetta liggur ekki alveg ljóst fyrir. — Herra forseti, hef ég 5 mínútur til að ræða þetta mál? [Hlátur í þingsal.] Er klukkan rétt? Ég var að hugsa um að vera sanngjarn og forseti geti þá byrjað upp á nýtt að telja.

Við vitum ekki nákvæmlega hvernig fyrirhugað er að halda þinghaldi áfram á næstu klukkutímum og næstu sólarhringum. En við vitum að í gangi eru samtöl á milli stjórnmálaflokkanna um það og í trausti þess að forseti muni ekki misfara með þá heimild sem hann leitar eftir og fær væntanlega í dag (Forseti hringir.) munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki leggjast gegn þeirri beiðni en sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.