142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil að það sé alveg skýrt að ég er ekki að væna núverandi forseta lýðveldisins um eitt eða neitt, ekki frekar en ég hafði ekki hugmynd um hvað mundi koma fram þegar hann tók ákvörðunina varðandi Icesave I og II. Ég verð að segja að ég fagnaði henni mjög þó að ég viti að sumir hér inni gerðu það ekki.

Við píratar munum svo sannarlega leggjast yfir það hvort við getum fundið einhvern kerfisgalla í lögunum og hakka okkur í gegnum þau en við óskum þá eftir góðu samstarfi við restina af minni hlutanum. En nú er ég farin að skilja þessar spurningar; hv. þingmenn í restinni af minni hlutanum vilja sem sagt að við förum að hakka okkur í gegnum lögin til að finna einhverja mögulega lausn. Við bregðumst við því að sjálfsögðu og tökum þeirri áskorun og munum reyna að nota okkar gríðarlega fjölbreyttu heila sem eru víðs vegar um bæ sem elska einmitt svona laganördisma. Við tökum því áskoruninni. En mér finnst samt mjög mikilvægt að við höldum okkur líka við — því að það er ekkert víst að við finnum lausn á því, því að stundum er maður bundinn í klafa laga sem eru mjög stíf. Við búum í landi (Gripið fram í.) þar sem túlkun laga er bókstafleg, við búum í bókstafstrúarlandi þegar kemur að lagatextum en förum ekki milliveginn eins og margar þjóðir sem við berum okkur saman við. En við væntum þess að fá aðstoð hins ágæta heilabús hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til að finna lagalegt hakk í þetta. (ÖS: Ef þið Helgi biðjið um þá fer ég í málið.)