142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Íslenska fiskveiðistjórnarkerfið er komið til ára sinna. Það var að uppistöðu til sett á laggirnar á fyrri hluta 9. áratugarins, árið 1984, en ýmsar breytingar, stórar og smáar, hafa síðan verið gerðar á útfærslu kerfisins, veigamesta og sú umdeildasta árið 1991 þegar heimilað var framsal.

Menn hafa í þessum sal ekki deilt svo ýkjamikið um grundvöll kerfisins eins og hann er skilgreindur í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða en þar segir, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Ég man í rauninni ekki eftir því að nokkur deildi um þessa lagagrein í umræðum um fiskveiðistjórnarkerfið í þessum sal svo lengi sem ég hef verið hér. Menn hafa hins vegar deilt um hvort hún væri í framkvæmd samkvæmt orðanna hljóðan, hvort í framkvæmd það væri svo að nytjastofnar á Íslandsmiðum væru sameign þjóðarinnar og hvort það væri svo að úthlutun veiðiheimilda mynduðu ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila á veiðiheimildum. Um þetta hafa menn deilt. Ég hygg að það séu fá efni sem hafa valdið eins miklum deilum í íslensku samfélagi, utan og innan veggja þessa húss, og fiskveiðistjórnarkerfið.

Menn hafa deilt um það annars vegar hvernig eigi að skipuleggja kerfið og hins vegar hvernig eigi að veita arð af þessari mikilvægustu auðlind íslensku þjóðarinnar til hennar þannig að það gagnist samfélaginu sem best.

Hvað varðar skipulag kerfisins hafa verið uppi ýmis sjónarmið. Í fyrsta lagi eru þeir sem hafa viljað að uppistöðu til halda óbreyttu kerfi. Aðrir hafa viljað gera á því róttækan uppskurð, setja veiðiheimildirnar á markað. Sumir hafa viljað ganga alla leið í því efni, setja allar veiðiheimildir á markað. Samfylkingin hefur verið merkisberi þeirra sjónarmiða. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum viljað fara aðra leið, setja hluta veiðiheimilda á markað og annar hluti verði fenginn í hendur sveitarfélögunum við sjávarsíðuna til ráðstöfunar og það mætti síðan standa að úthlutun veiðiheimildanna á því svæði eftir ýmsum reglum. Þegar við settum upphaflega fram tillögur okkar vildum við gefa okkur 20 ár til að koma því fyrirkomulagi á. Við töluðum um þriðjunginn á markað, þriðjunginn til sveitarfélaganna og þriðjunginn hjá þeim útgerðum sem eru nú við lýði en þá gegn ákveðnu gjaldi.

Síðan er það sú lausn sem varð ofan á á síðasta kjörtímabili um að ráðstafa, úthluta veiðiheimildum til útgerðanna til tiltekins tíma en tryggja með því eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni á traustari hátt en nú er gert þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

En hvernig á að tryggja að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar? Þar eru líka mismunandi sjónarmið uppi. Annars vegar að tryggja að fyrirtæki í sjávarútvegi séu í íslenskri eigu og treysta síðan á að arðurinn af vinnslunni renni endanlega til þjóðarinnar í gegnum skattkerfi, bæði af útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslufyrirtækjum og einnig frá þeim sem við greinina starfa, þá í formi tekjuskatts, og að samfélagið njóti þannig góðs af arðinum sem kemur frá sjávarauðlindinni. Þetta er sú hugsun sem hefur verið æðisterk í langan tíma. En síðan er það hitt sjónarmiðið sem við höfum verið að færa okkur nær í seinni tíð, þ.e. að taka sérstakt gjald af aðgengi að auðlindinni og þangað erum við komin núna, nema hvað menn deila síðan um hve hátt það gjald eigi að vera. Hvað er sanngjarnt í því efni, hverju rís útgerðin undir og hvernig við eigum að haga þeim málum? Við þekkjum það þegar við breyttum fiskveiðistjórnarkerfinu og settum auðlindagjaldið á í annarri mynd en áður hafði verið þá urðu um það verulegar umræður í þjóðfélaginu og í þessum sal í langan, langan tíma. Það ætti enginn að furða sig á því núna, þegar farið er að vinda ofan af því sem við töldum vera grundvallaratriði í skattlagningu og nýtingu auðlindarinnar, fyrirkomulaginu á því, að við viljum gefa okkur tíma til að skoða málið og ígrunda það. Ég ætla að gera grein fyrir því á eftir hvers vegna svo er.

Aðeins varðandi skipulag kerfisins aftur. Í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið á síðustu missirum þrátt fyrir það sem ég sagði áðan að í þessum sal hefði ég ekki minnst þess að menn vefengdu 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem kveða á um eignarréttinn í sameign þjóðarinnar, þá var nú annað upp á teningnum í þjóðfélaginu í umræðunum um málið á sínum tíma. Ég held að ég geti nafngreint ágætan fyrrverandi prófessor í lögum við Háskóla Íslands, Sigurð Líndal, sem staðhæfði að frumvarpið, eins og við lögðum það fram, stríddi gegn einkaeignarrétti. Við værum að taka einkaeignarrétt af mönnum, skerða þennan einkaeignarrétt. Þetta var staðhæft á síðum Morgunblaðsins man ég og margir urðu til að taka undir það. Það var í fyrsta skipti, hæstv. forseti, að ég minnist þess að farið var að vefengja opinberlega 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna og segja fullum fetum að þjóðin ætti ekki auðlindina. Það væri búið að ráðstafa henni til útgerðarmanna eða útgerðarfyrirtækja á óafturkræfan hátt því að ef við þessu yrði haggað þá væri það í stríði við einkaeignarrétt stjórnarskrárinnar. Þarna erum við komin inn í nýjar lendur vil ég meina.

Varðandi hitt atriðið, þ.e. hversu hátt þetta gjald eigi að vera, fengum við að heyra það ótæpilega frá ýmsum útgerðarfyrirtækjum að verið væri að stefna afkomu þeirra í mikið óefni með þeim breytingum og voru höfð uppi stór orð um það af hálfu ýmissa talsmanna útgerðarinnar. Á hinn bóginn hafa komið fram aðilar sem hafa viljað ganga í gagnstæða átt. Mig langar til að vitna í grein eftir Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismann, sem birtist í Bæjarins besta 20. júní síðastliðinn, þar sem hann fjallar um það frumvarp sem nú er til umræðu í þinginu. Hann segir, með leyfi forseta:

„Fyrirhuguð lækkun veiðigjaldsins á útgerðarfyrirtæki mælist frámunalega illa fyrir meðal almennings eins og undirskriftasöfnunin sýnir. Fyrir því er einföld ástæða, sjávarútvegsfyrirtækin greiða ekki sanngjarnan hlut af hagnaði sínum til samfélagsins. Þegar litið er til mjög góðrar afkomu undanfarin ár væri eðlilegra að hækka gjaldtökuna en að lækka hana. Handhafar kvótans borga of lítið fyrir aðganginn að arðvænlegri auðlind. Þeir hafa komist upp með það að koma sér undan því að taka þátt í erfiðleikum þjóðfélagsins eftir hrun. Þeir hafa frá þeim tíma grætt sem aldrei fyrr og greitt smánarlega lítið af gróðanum til hins opinbera.“

Þetta segir Kristinn H. Gunnarsson. Hér alhæfir hann um útgerðina, sem hugsanlega getur verið varasamt að gera, en á sama tíma skulum við ekki gleyma því að málsvarar útgerðarinnar hafa leyft sér að alhæfa æðimikið. Það er því ekki undarlegt að Kristinn setji málið fram með þessum hætti. Hann segir áfram, með leyfi forseta:

„Hreinn hagnaður ársins 2009 varð 46 milljarðar kr. Þá var greiddur 1 milljarður í veiðigjald og 1,5 í tekjuskatt af hagnaðinum. Árið 2010 varð hreinn hagnaður 44 milljarðar kr. og veiðigjaldið og tekjuskatturinn samtals aðeins 5 milljarðar kr. Í hittiðfyrra varð metár. Þá varð hreinn hagnaður 60 milljarðar kr. samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Greiðslur í formi veiðigjalds og tekjuskatts af hagnaði urðu samtals aðeins 9 milljarðar kr. Síðasta ár, 2012, mun hafa orðið enn betra en 2011 en lokatölur liggja ekki fyrir.“

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, heldur áfram í grein sinni, með leyfi forseta:

„Almenningur hefur fengið yfir sig mikla kjaraskerðingu og skattahækkun og spyr í forundran hvað þessir örlætisgerningar eiga að þýða. Hvers vegna er þessi atvinnugrein meðhöndluð eins og örsnauðir hreppsómagar? Auðvitað er fólki nóg boðið þegar fyrsta raunverulega aðgerð ríkisstjórnarinnar er að lækka gjöldin á þá sem hafa grætt á tá og fingri og lítið hafa lagt af mörkum á erfiðum tímum.“

Kristinn H. Gunnarsson heldur áfram, með leyfi forseta:

„Það er óþarflega yfirlætislegur tónn í tilsvörum sjávarútvegsráðherra þegar hann gerir lítið úr viðbrögðunum við lækkun veiðigjaldsins. Það er hrokagikksháttur að halda því fram að valið sé aðeins milli þess að lækka gjaldið og að fella það niður. Ef ekki fást nauðsynleg gögn í óbreyttum lögum til þess að reikna út gjaldið er einfalt að bæta úr því og afla þeirra heimilda. Það þarf ekki að lækka gjaldið. Ef þarf að breyta niðurjöfnun gjaldsins á einstök fyrirtæki er einfalt að gera það. Það þarf ekki að lækka heildargjaldið. Þau rök sem ráðherrann færir fyrir lagabreytingunni styðja ekki lækkun gjaldsins í heild sinni. Honum væri nær að rökstyðja lækkunina fremur en að snupra tugi þúsunda landsmanna fyrir að andmæla honum.“

Nú kemur Kristinn H. Gunnarsson að máli sem hlýtur að vera kjarnaatriði í þessari umræðu og það lýtur að framsalinu. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það liggja fyrir opinberar upplýsingar sem staðfesta að aðgangurinn að fiskimiðunum gengur kaupum og sölum fyrir miklu hærri upphæðir en ríkið hyggst innheimta. Fiskistofa fylgist með og birtir upplýsingar um verð á leigukvóta, aflamarki. Um þessar mundir er greitt um 180 kr. fyrir réttinn til þess að veiða 1 kg af þorski. Veiðigjaldið á þessu fiskveiðiári er 32,70 kr. fyrir bolfisk og 37,00 kr. af uppsjávarfiski. Þetta þýðir að rétthafi kvóta, t.d. í þorski, fær hann frá ríkinu fyrir tæplega 33 kr. og getur leigt réttinn áfram fyrir 180 kr. Sá sem tekur kvótann á leigu og veiðir fiskinn fær engu að síður tekjur, sem standa undir útgjöldum og leiguverðinu, samanber skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans. Það blasir við að hagkvæmast fyrir þjóðarbúið er að þeir sem ekki geta staðið undir 32,70 kr. leigugjaldi hverfi frá útgerð og hinir sem greiða 180 kr. veiði stærri hlut kvótans. Er það ekki einmitt sem kvótakerfinu er ætlað að gera?“

Kristinn heldur áfram, með leyfi forseta:

„Lækkun veiðigjaldsins til ríkisins hefur í för með sér að þá eykst að sama skapi hlutur þess sem hefur veiðiréttinn undir höndum, enda lækkar ekki leiguverðið fyrir kvótann á áframleigunni til þriðja aðila. Á milli veiðigjaldsins til ríkisins og veiðigjaldsins til útgerðarmannsins er beint samband. Eins og staðan er núna fær ríkið um 20% af leiguverðinu til sín fyrir þorskkvóta en útgerðarmaðurinn sem er handhafi kvótans fær 80%. Sjávarútvegsráðherra vill lækka hlut ríkisins en auka hlut útgerðarinnar. Þetta er ósanngjörn skipting og er ástæða mótmælanna.

Öll rök hníga til þess að ríkið auki hlut sinn í veiðigjaldinu fremur en að minnka hann. Útgerðarmenn sjálfir hafa verðlagt aðganginn að fiskimiðunum og innheimta margfalt hærra verð en ríkið gerir. Þetta fyrirkomulag gengur ekki þar sem útgerðarmenn eiga ekki fiskimiðin. Það á ekki að borga þeim fyrir að fá að veiða, heldur eiga þeir að borga almenningi. Hið opinbera á að fá leigutekjurnar til þess að standa undir almennum þörfum, svo sem heilbrigðiskerfinu, almannatryggingum, uppbyggingu á innviðum samfélagsins o.s.frv.

Það er of lítið greitt til samfélagsins fyrir veiðiréttinn,“ segir Kristinn H. Gunnarsson að lokum og læt ég þar með tilvitnun í grein hans lokið.

Hér var komið að ýmsum þáttum í þessari umræðu og tölur nefndar um hagnaðinn sem útgerðin hefur þegar á heildina er litið af sjávarauðlindinni og síðan hver skiptingin er og umhugsunarverðar eru vangaveltur Kristins H. Gunnarssonar um framsalið og skiptinguna á arðinum þar. Þetta finnst mér að hljóti að eiga að vera hluti af umræðunni því að þetta snýst um hið stóra samhengi.

Í frumvarpinu er að finna, eins og lög gera ráð fyrir og hefðir og venja er, álitsgerð frá fjármálaráðuneytinu um áhrif frumvarpsins á stöðu ríkissjóðs. Mig langar til að vitna í það sem þar segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum fyrir aflaheimildir verði 3,2 milljörðum kr. lægri á árinu 2013 frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og að tekjurnar geti orðið 6,4 milljörðum kr. lægri á árinu 2014 en áætlað var. Hins vegar má gera ráð fyrir að tekjuskattsgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja í ríkissjóð muni aukast að einhverju marki þar sem veiðigjöld eru frádráttarbær rekstrarkostnaður. Á þessu stigi liggja ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs. Því verður að gera ráð fyrir að staða ríkissjóðs muni versna sem nemur þessari umtalsverðu tekjulækkun frá því sem áformað var og að þar með verði til muna lengri leið að jöfnuði í heildarafkomunni en gert hafði verið ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun sem fylgdi með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013.“

Hvað er verið að segja hér? Verið er að segja að á komandi fjárlagaári rýrni tekjur ríkissjóðs um 6,4 milljarða og á síðustu mánuðum þessa árs rýrni þær um 3,2 milljarða. Með öðrum orðum, á lokum þessa árs og á næsta ári er verið að tala um að rýra tekjur ríkissjóðs um tæpa 10 milljarða kr. Hvað er nýbúið að gera í þinginu með samþykkt stjórnarmeirihlutans? Jú, búið er að falla frá áformum um að hækka virðisaukaskatt á fyrirtæki í ferðaþjónustu, þá atvinnugrein á Íslandi sem hefur búið við skástan hlut undanfarin missiri og skerða þar með tekjur ríkissjóðs á þessu ári um tæpan hálfan milljarð og á komandi fjárlagaári um hálfan annan milljarð. Hvað erum við að tala um þá? Við erum að tala um að með þeim pennastrikum sem við erum að verða vitni að núna er verið að skerða á næstu mánuðum tekjur ríkissjóðs um 12 milljarða kr. Síðan heyrist það fljúga fyrir hér í þinginu að menn séu að tala í alvöru um að fresta þinghaldi í haust vegna þess að ríkisstjórnin kunni að þurfa meiri tíma til að ganga frá fjárlögum. Það er ekki að undra ef vinnubrögðin eru þessi, að afsala okkur tekjum, að afsala Landspítalanum, lögreglunni og skólunum í landinu tekjum með þessum hætti.

Hvers vegna var verið að falla frá sköttum á ferðaþjónustuna? Jú, samkvæmt fjármálaráðherra landsins og samkvæmt því sem kemur fram í greinargerð hans með því frumvarpi mundi það skaða markaðssókn ferðaþjónustufyrirtækja ef ekki yrði gripið til þeirra ráða. En á sama tíma eru allir sammála um að við eigum fullt í fangi með að taka við þeirri helmingsaukningu á komu ferðamanna til Íslands sem orðið hefur frá aldamótum og fram á þennan dag. Markaðssóknin stendur því ekki í vegi fyrir því að íslensk ferðafyrirtæki eða fyrirtæki í ferðaiðnaði fái viðskiptavini til sín. Það er ekki að gerast. En samt sem áður er gripið til þessara ráðstafana. Síðan lesum við um það í fjölmiðlum, ég las um það í fjölmiðlum að gera ætti að meðaltali það sem kallað var hálft annars prósents hagræðingarkröfu, eins og það hét, á stofnanir hjá hinu opinbera. Hvað þýðir þetta, hagræðingarkrafa? Það hljómar óskaplega flott á máli hagspekinganna. Þetta þýðir niðurskurður.

Við gengum í gegnum eitthvert mesta hrun ekki bara Íslandssögunnar heldur sem flestar þjóðir hafa fengið að kynnast. Það varð hrun í tekjum ríkissjóðs og sveitarfélaga með þeim skelfilegu afleiðingum að við vorum nauðbeygð til að draga verulega úr útstreymi úr ríkissjóði og hjá sveitarfélögunum. Í því ráðuneyti sem ég þekki best til nam sá niðurskurður á milli 20–25% að raungildi. Það eru miklir peningar. Það var gagnrýnt iðulega í þessum sal og í samfélaginu að við værum að ganga of langt. Ég held að nokkuð sé til í þeirri gagnrýni, hún hafi víða átt við rök að styðjast, í heilbrigðiskerfinu, í löggæslunni, skólunum og víða, en þetta var nokkuð sem menn töldu að þyrfti að gera. Auðvitað er það vandrataður vegur hversu langt eigi að ganga í niðurskurði og hversu langt eigi þá á hinn bóginn að ganga í því að safna skuldum. En það er náttúrlega hinn kosturinn í stöðunni. Það er spurning um að finna hinn vandrataða gullna meðalveg í þessum efnum. Við vorum öll sammála um þetta, hélt ég.

Við tókum til umræðu skýrslu sem þverpólitísk nefnd gerði um stöðu löggæslunnar á Íslandi. Hún komst sameiginlega að þeirri niðurstöðu að á ársgrundvelli þyrfti að bæta í 3,5 milljörðum til að löggæslan væri í viðunandi horfi. Allir sem tóku þátt í því nefndarstarfi voru á einu máli um þetta. Ég sagði og ég segi enn að að sjálfsögðu yrðum við þegar til kastanna kæmi að horfa til stöðu ríkissjóðs um hversu hratt við gætum farið í það að bæta stöðu löggæslunnar. Ég var ekkert að gefa því undir fótinn að við gerðum það í einu vetfangi og á einu ári, en þetta var engu að síður sameiginlegt markmið okkar allra. Núna heyrum við það án þess að því sé mótmælt af nokkrum manni af hálfu stjórnarmeirihlutans að skera eigi niður áfram. Á það við um lögregluna líka? Ég bara spyr. Á það við um heilbrigðisþjónustuna? Á það við um menntakerfið? Á að skera niður um 1,5% í Landhelgisgæslunni? Á að gera það? Ég spyr: Getur verið að ganga þurfi enn lengra eftir þann skattafslátt sem ríkisstjórnin er að spila hér út í hverju málinu á fætur öðru? Finnst mér óskaplega gaman að borga skatta? Ég vil gjarnan borga til samfélagsins. Ég held að við viljum það öll en þetta er spurning um að finna meðalhófið í því eins og öllu öðru. Þetta er spurning um að finna meðalhófið.

Eru menn að gera það með þessu frumvarpi? Eru menn að gera það með hliðsjón af þeim tölum sem liggja á borðinu og eru framreiddar af opinberum aðila? Ég endurtek að að sjálfsögðu er ekki hægt að alhæfa um öll fyrirtæki. Alhæfing er alhæfing. Alhæfing er meðaltal. Sumum gengur betur, sumum gengur lakar þannig að við þurfum að horfa á myndina af raunsæi að þessu leyti. En þetta eru engu að síður stóru tölurnar í þessari atvinnugrein landsmanna og í öðrum atvinnugreinum, ég hef vikið að sjávarútveginum og líka að ferðaþjónustunni, þeim tveimur frumvörpum sem fela í sér að ríkið afsalar fjármunum til almannaþjónustunnar og sem við erum að fá staðfest í fjölmiðlum að eigi að birta okkur með þessum hætti.

Nú heyri ég að áhugi manna standi til þess að ljúka þinginu sem fyrst og það vilja að sjálfsögðu allir. Að sjálfsögðu vilja allir ljúka þinginu sem fyrst og veita starfsfólki þingsins tækifæri til að fá sitt sumarfrí. Samkvæmt þingskapalögum ber því að fá sitt frí í júlímánuði og fram í miðjan ágúst, eða fram til 10. ágúst alla vega, við erum því að ganga á rétt þess. En ríkisstjórnin ætlar hins vegar að svína á þeim rétti til að fá fram þessar ívilnanir í garð sinna manna. Það er málið. Það er búið að klára þetta með ferðaþjónustuna og nú þarf að taka útgerðina, svara loforðunum þar. Hver voru þau? Að lækka veiðigjaldið verulega. Stærðarmunurinn á afstöðu fyrrverandi ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórnar í krónum talið ef veiðigjaldið er annars vegar er um helmingur, það er helmingur sem skilur þar á milli. Þegar við tölum um 10 milljarða sem gefnir eru eftir með þessum hætti þá fara ýmsar spurningar að vakna.

Ég hef rifjað það upp áður þegar við afgreiddum fjárlög fyrir þetta fjárlagaár og mönnum þótti við hafa skorið of mikið niður við löggæsluna — og ég var sammála því, þá vorum við að tala þar um 1,25% eða þar um bil og var ákveðið að bæta í um 200 millj. kr. og það þótti skipta mjög miklu máli í lögregluumdæmum landsins.

En hvað segja menn núna? Hvað segja menn núna þegar þeir horfa upp á það að á 14–15 mánaða tímabili verður ríkissjóður af 12 milljörðum kr. Hvað segja menn þá? Hvað segja menn í framhaldsskólunum? Hvað segja menn á Landspítalanum? Fylgjast menn ekki með því sem er að gerast þar? Hvað segja menn í öðrum skólum landsins? Ég held að ríkisstjórnin þurfi að hugsa sinn gang áður en hún tekur ákvörðun um að halda þessum málum til streitu.

Að lokum langar mig til að víkja að því að það er sitthvað sem vekur óhug í upphafi þessa kjörtímabils. Að sjálfsögðu er alvarlegast að ríkisstjórnin skuli ganga fram fyrir skjöldu með stuðningi stjórnarmeirihlutans á þingi að afsala almannaþjónustunni þessum miklu peningum. Það er alvarlegast. En síðan vekur hitt að sjálfsögðu einnig spurningar, ég óttast að verið sé að þrengja og skerða lýðræðisvíddina í þjóðfélaginu þegar menn gerast mjög flokkspólitískir í vali í stjórnir. Auðvitað á það rétt á sér að ríkisstjórn vilji setja sitt mark á stjórnsýsluna við framkvæmd stefnu sinnar. En menn þurfa að fara varlega í þeim efnum tel ég vera. Menn eiga ekki að búa til stjórnir sem eru einsleitar, sem eru alveg eins á litinn eins og við sjáum gerast í Lánasjóði íslenskra námsmanna, svo að dæmi sé tekið. Lýðræðisvíddin er líka að þrengjast þegar kemur að Ríkisútvarpinu. Það mál er enn óafgreitt í þinginu og hæstv. menntamálaráðherra hefur haft á orði að við séum að hverfa aftur til fyrra fyrirkomulags þegar Alþingi skipaði útvarpsráð og vissulega er nokkuð til í því. Og það er líka nokkuð til í því að það er í sjálfu sér lýðræðislegt að fulltrúasamkunda eins og Alþingi Íslendinga skipi stjórnir. Það er að sjálfsögðu lýðræðislegt fyrirkomulag. Ég er ekki að segja að svo sé ekki. En þá þarf að hafa líka til hliðsjónar aðrar breytingar sem hafa verið gerðar á fyrirkomulagi þeirrar stofnunar með breyttum lögum sem samþykkt voru síðasta vor þar sem útvarpsráð eða stjórn útvarpsins er fengið annars konar vald eða víðfeðmara vald en gamla útvarpsráðið hafði, sem skipað var eingöngu af Alþingi, þ.e. beinni afskipti og beinni aðkomu að dagskrárstefnunni. Gamla útvarpsráðið gat haft puttana í ráðningarmálum, það er alveg rétt, og menn voru að fikra sig frá þeirri hugsun, þeirri stefnu, en síðan gera menn þessar breytingar aðrar á útvarpinu sem valda því að kerfisbreytingin nú tekur á sig aðra mynd og varhugaverðari.

Hvað kemur það þessu frumvarpi við sem er til umræðu núna? Að sjálfsögðu ekki neitt annað en það að við erum að tala um hið stóra samhengi hlutanna. Við erum að tala um hvernig ríkisstjórnin forgangsraðar málum, annars vegar fjárhagslega og hins vegar hvernig hún forgangsraðar pólitískt, hvernig hún fer að því að forgangsraða pólitískt. Þegar við heyrum að fara eigi að breyta þingskapalögum í einu vetfangi á fáeinum dögum, er það þá fyrir alla framtíð, eða hvað? Ég veit það ekki. Ríkisstjórnin telur sig ekki hafa tíma til að vinna vinnuna sína en hún hefur tíma til að veita útgerðinni afslátt upp á 6,2 milljarða. Hún hefur tíma til að veita ferðaþjónustunni afslátt upp á hálfan annan milljarð á næsta ári og rúmlega 500 millj. kr. á þessu ári. Ég veit ekki hversu viljugir menn eru almennt til að taka þátt í vinnubrögðum af þessu tagi. Ég á afskaplega erfitt með að gera það.

Hv. þingmaður fyrir framan mig hristir höfuðið. Ég hef áður séð hv. þingmann hrista höfuðið, hann gerði það stundum á síðasta kjörtímabili og ég man ekki betur en vandlætingartóns gætti hjá ýmsum þingmönnum, ekki þessum þingmanni neitt sérstaklega, en hjá stjórnarandstöðunni yfir höfuð. Ég man ekki betur þegar við ræddum nákvæmlega þetta frumvarp, fiskveiðistjórnarmálin og veiðigjaldið; þá lék hér allt á reiðiskjálfi. Útgerðarfyrirtækin smöluðu fullan Austurvöll og hér innan þingsins var haldið uppi langri umræðu. Mér fannst það í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Þegar snert er við hjartanu í fólki, innstu hugsjónum um að verja útgerðarauðvaldið rísa menn auðvitað upp og reyna að passa upp á sína. Þar fór fram að mínum dómi ein augljósasta hagsmunabarátta í íslensku samfélagi sem við höfum lengi séð með fulltrúa einkaeignarréttarins í pistlum sínum á síðum Morgunblaðsins að verja einkaeignarréttinn, það mætti ekki hrófla við honum þrátt fyrir lögin, 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna sem kveður á um sameign þjóðarinnar. Og þegar átti að fara að nýta þessa sameign til að bjarga þjóðfélagi sem var á hnjánum upp á fæturna þannig að við gætum rekið spítalana okkar, heilbrigðiskerfið, skólana, löggæsluna á sómasamlegan hátt — nei, nei. Hingað og ekki lengra sögðu menn. Núna þegar þeir flokkar eru komnir til valda þá byrja þeir á því — fyrsta verkið er að skipa nefndir til að ræða það með hvaða hætti þeir geti hugsanlega framkvæmt kosningaloforð sín. Það er fyrsta verkið. Síðan númer tvö var að setja dómsmál í flýtimeðferð meðan á réttarhléi stendur og dómstólarnir ekki starfandi, það var forgangsmál númer tvö fyrir fólkið. En síðan kemur að hinu fólkinu sem hefur peningana handa á milli, þá þarf að drífa sig. Þá skiptir ekki máli þótt verið sé að afsala ríkissjóði og almannaþjónustunni um 12 milljörðum kr. á næstu 14–15 mánuðum. Því mótmæli ég.