142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst orðið auðvald fallegt orð. Mér finns það lýsandi um að hafa vald í krafti auðs. Þannig er það á Íslandi í allt of ríkum mæli. Þannig er það í heiminum í allt of ríkum mæli. Það var kannski á síðustu árum, þetta féll svolítið úr tísku á sínum tíma, menn voru feimnir að nota þetta orð, en mér finnst þetta gott orð af því þetta lýsir veruleika, hverjir ráða í krafti fjármuna og auðs.

Ég hef aldrei gengið að því gruflandi að menn afla ríkissjóði og sveitarsjóðum tekna á annan hátt en með veiðigjöldum einum eða skatti á ferðaþjónustu. Við erum að tala um skatt á mig og þig, skatt á hátekjufólk og miðlungstekjufólk og lágtekjufólk. Síðast þegar þessir flokkar voru í ríkisstjórn sneru þeir áherslum þannig að álögur voru auknar á tekjulægsta fólkið og þeim var létt af tekjuhæsta fólkinu. Þetta voru áherslur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem réðu ríkjum á Íslandi á árunum 1995–2007. Við erum að tala um það með hvaða hætti stjórnmálin koma að tekjuöflun ríkissjóðs og sveitarsjóðanna.

Hvort tæknileg vandkvæði hafa verið til umræðu í ríkisstjórninni? Já, þessi mál komu oft til umræðu. Það eru fá mál sem komu eins mikið til umræðu í ríkisstjórninni og hér í þinginu á þessum tíma.

Það sem máli skiptir er þetta. Hvaða markmið eru það sem menn setja sér? Þar er munurinn á núverandi stjórn og fyrrverandi stjórn afgerandi vegna þess að núverandi stjórn vill skattleggja útgerðina, eða taka til þjóðarinnar, helmingi minna (Forseti hringir.) en við vildum gera til að láta renna inn í Landspítalann og til skólanna í landinu.