142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:17]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, segir: Jú, það var margoft rætt að lögin væru ekki í lagi, lögin sem átti að fara eftir við álagningu veiðigjalds. Ef það var margrætt í fráfarandi ríkisstjórn, af hverju í ósköpunum var þessum lögum þá ekki breytt? Af hverju standa menn hér á öndinni ef þeir höfðu tækifæri til að breyta þessum lögum þannig að hægt væri að leggja veiðigjaldið á frá og með 1. september, á því fiskveiðiári sem þá hefst, ef það hafði verið margrætt í ríkisstjórn?

Virðulegur forseti. Það er harla sérkennilegt af ríkisstjórn, hafi hún vitað að hún gæti ekki framfylgt þeirri ósk sem hún átti og því sem hún vildi gera samkvæmt gildandi lögum, að hún skuli ekkert hafa gert í því að lagfæra það.

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að innheimta veiðigjald. Ég er þeirrar skoðunar að auðlindir eigi að vera í umsjá ríkisins og eigu þjóðar — það er reyndar sérstakt að segja að eitthvað sé í eigu þjóðar vegna þess að ríkisstjórnin og ríkið er þá umboðsaðilinn. Ég er þeirrar skoðunar og hef alltaf verið.

Virðulegur forseti. Ég vil koma að öðru atriði. Það er leiðigjarnt að heyra sagt að maður gangi erinda og hugi að hagsmunum einhverra annarra en þeirra sem maður er kosinn af, í mínu tilviki kjósenda í Suðvesturkjördæmi, og síðan þjóðarinnar í heild. Að vera sífelld vændur um að ganga erinda annarra frekar en að maður hafi trú og traust á því sem maður er að gera er álíka hvimleitt og andstæðurnar sem hv. þingmaður dró alltaf upp (Forseti hringir.) í fyrri tíð, gerði aldrei á meðan hann var ráðherra en gerir aftur nú af því að hann er óbreyttur þingmaður.