142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:24]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um ýmsa þætti stjórnarskrárdraga kom fram yfirgnæfandi vilji þjóðarinnar til að auðlindir eigi að vera í þjóðareign. Eins og ég gat um hér áðan, og vitnaði fiskveiðistjórnarlögin, er kveðið á um það í 1. gr. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta hefur ekki verið veruleiki.

Ég er því almennt fylgjandi að þjóðin komi beint að ákvarðanatöku og að virða eigi rétt þjóðarinnar. Hér erum við að fjalla um grundvallarmálefni. Ég hef fullan skilning og stuðning við þá hreyfingu sem er að verða til í landinu um að hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta grundvallarmál. Ég tek heilshugar undir það.

Síðan hafa ýmsir komið fram og hvatt til þess að reynt verði að finna einhverjar millilendingar í þessu. Ég vísa til dæmis í grein eftir fyrrverandi þingmann, Jóhann Ársælsson, sem var þingmaður Samfylkingarinnar, hann var með eina tiltekna útfærslu um að hluti af kvótanum færi á markað. Ég er ekki að taka undir það, en ég er að benda á að menn eru að reyna að hugsa út úr boxinu. Þá væri hugsunin sú að hverfa frá þessari ráðstöfun og leita slíkra leiða, líka lausna. Mér heyrist ekki vera nokkur einasti áhugi á því hér í stjórnarmeirihlutanum eða ríkisstjórninni að reyna að opna málið með þeim hætti.

Ég hef fullan skilning á þessum mikla stuðningi við undirskriftasöfnunina, ég tala nú ekki um ef ríkisstjórnin neitar að reyna að finna einhverjar leiðir til málamiðlunar.